Hættu að stynja!

Sumir stynja þegar þeir standa á fætur, andvarpa þegar þeir setjast niður, blása þegar þeir þurfa að ganga nokkur skref. Þetta eru ellimerki og sérfræðingar segja að því meira sem við leyfum okkur að stynja því eldri verðum við fyrir aldur fram í augum annarra. Stunurnar og andvörpin geta líka verið merki um að sjúkdómar hrjái þannig að veldu vel hvernær og hvernig þú stynur.

Öll erum við gjörn á að kvarta og tuða ef okkur mislíkar og oft látum við í ljós með svipbrigðum, hnussi og stunum að við erum óánægð. Þegar röðin er löng í búðinni og einhver tekur sér óeðlilega langan tíma við kassann, ef einhver treður sér fram fyrir okkur, tekur síðasta stykkið af einmitt því sem við ætluðum að kaupa eða þegar ósveigjanlegt kerfi mætir okkur í stað mannlegra samskipti þegar við þurfum að leita til þjónustufyrirtækja. En hvað svo sem það er sem kallar á stunu þá aukast þær með aldrinum og mjög margir tengja þær við hruma gamlingja.

Það er hægt að takast á við streitu á jákvæðari hátt en með því að andvarpa og sýna óánægjusvipinn. Það er hægt að einfaldlega bíta í tunguna og þola biðina. Biðja viðkomandi vinsamlegast að virða röðina. Hægt að athuga hvort meira sé til eða eitthvað sambærilegt af vörunni sem við vildum og benda starfsmanni þjónustufyrirtækisins á að ekkert jafnist á við ofurlitla lipurð.

eldri kona, dans, bros, hrumleikiStunur geta verið afleiðing sjúkdóma

En hvað með stunurnar þegar við stöndum upp eða setjumst niður? Eru þær óhjákvæmilegur hluti þess að eldast og stirðna? Ekki vilja sérfræðingar meina það. Andvarpið eða stunan er okkar aðferð við að takast á við sársaukann en í raun léttir það hann ekki. Stunan er þess vegna alveg óþörf. Við getum sleppt henni.

Hins vegar geta stunur líka verið merki um elliglöp. Þær eru merkilegt nokk stundum fyrstu merkin um að heilinn sé tekinn að bila og þau ágerast eftir því sem sjúkdómurinn ágerist. Þær geta líka stafað af meltingartruflunum, verið ávani eða verið afleiðing af alvarlegum stoðkerfistengdum sjúkdómum á borð við gigt og Parkinson. Ef þið eruð farin að stynja óeðlilega mikið og gerið það án þess að ætla ykkur er kannski ráð að ræða það við lækninn næst þegar þið heimsækið hann.

En stöðugar stunur, murr eða baul getur verið ákaflega pirrandi fyrir fólkið í kringum okkur og jafnvel fyrir þann einstakling sem hefur vanið sig á að stynja. Þess vegna er mikilvægt að venja sig af þessu eftir að hafa gengið úr skugga um að hljóðin eigi sér ekki líkamlegar rætur. Ýmsar öndunaræfingar hjálpa, bæði fyrir og eftir hreyfingu.

Stunurnar hefta þig

Staðreyndin er nefnilega sú að þetta hefur truflandi áhrif á aðra, þú virðist mun eldri en þú endilega ert og hrumari. Það er sömuleiðis líklegt að stunurnar hafi sálræn áhrif og geri það að verkum að þú treystir þér síður í einhver verkefni eða til að gera eitthvað sem þig langar til. Íþróttaþjálfarar vilja meina að það versta sem menn geri sé að hlífa sér, æfingar skili árangri ef menn gera alltaf aðeins meira en þeir telja að þeir geti. Þannig að ef þú ert síandvarpandi eða býrð með einhverjum sem stynur og rymur við minnsta átak athugaðu hvort þið getið hætt þessu og hvort það hefur áhrif á andlega líðan ykkar og orku.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 31, 2024 07:00