Góð melting er eilífðarverkefni

Erla Sveinsdóttir læknir og fagstjóri heilbrigðisþjónustu hjá Heilsuborg segir mikilvægt að passa uppá meltinguna og það sé eilífðarverkefni að halda henni góðri. Hún ráðleggur mönnum að borða trefjaríkan morgunmat innan klukkustundar frá því þeir vakna og borða svo reglulega yfir daginn. „Reglan hjálpar ristlinum“, segir hún.   Raunar segir hún að menn eigi að borða fjölbreyttan mat og einhverjar trefjar í hvert mál. Þá þurfi menn að drekka vatn og hreyfa sig.

Erla er lítið fyrir boð og bönn þegar kemur að mataræði. Eftir að hafa helgað sig lífsstílsbreytingum síðast liðin 10 ár, en hún var um tíma yfirlæknir Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði, segist hún alltaf hafa komist að sömu niðurstöðu. Engar öfgar, heldur feta hinn gullna meðalveg þegar kemur að mataræði. Hún segir að fólk eigi að borða hollan fjölbreyttan mat, hreinan en ekki mikið unninn, forðast viðbættan sykur og njóta þess að borða.

Heilsuborg er í samstarfi við Félag eldri borgara í Reykjavík í verkefni þar sem menn eru hvattir til að hreyfa sig meira og borða hollar.

 

Ritstjórn október 15, 2015 10:39