Hvað segja marblettir um heilsu þína?

Að fá marblett ef þú rekur þig í eða meiðir þig á einhvern hátt er ákaflega eðlilegt en þegar þessir litríku blettir taka að birtast hér og þar á líkamanum án þess að nokkuð hafi komið fyrir getur það verið ástæða til að skoða mataræði sitt eða aukaverkanir þeirra lyfja sem verið er að taka.

Við þekkjum öll þessa venjulegu marbletti. Þeir koma þegar við rekum okkur utan í eða meiðum okkur á annan hátt. Þeir eru aumir og viðkvæmir fyrstu dagana, rauðir eða fjólubláir í byrjun en breyta síðan um lit eftir því sem meiðslin þróast og batna. En ef þú manst ekki eftir að hafa meitt þig en engu að síður birtast marblettir hér og þar getur það verið ástæða til að fylgjast með og jafnvel leita læknis. Með aldrinum þynnist húðin og fitulagið undir skapar minni vörn. Marblettir koma þá mun frekar fram jafnvel þótt meiðsl séu lítil.

Ef marblettirnir eru óvenjulega stórir og stækka fremur en minnka getur verið um að ræða skort á K-vítamíni. Grænkál, salat, klettasalat og annað blaðgrænt grænmeti inniheldur K-vítamín og sjálfsagt að gæta þess að það sé alltaf reglulegur hluti af mataræðinu. Skortur á B12-vítamíni eða C-vítamíni getur einnig verið um að kenna eða járnskorti. Ef þú ert alltaf að fá nýja og nýja marbletti sem eru lengi að hverfa væri gott að leita á heilsugæsluna og biðja þá að kanna hvort skortur sé á þessum næringarefnum í líkamanum. Ef járnskorti er um að kenna fylgir honum oft einnig aukin þreyta og tilhneiging til svima.

Verkjalyf á borð við ibúprofen og naxproxen geta valdið því storknunarhæfni blóðsins minnkar og það veldur því að þeir sem taka þessi lyf reglulega fá mun frekar marbletti en aðrir. Hið sama gildir ef verið er að taka inn asprín eða hjartamagnyl.

Blóðþynnandi lyf valda því að húðin merst auðveldlega og sömuleiðis steralyf á borð við hydrocortisone. Þunglyndislyf geta einnig haft þessar sömu aukaverkanir. Það borgar sig þess vegna alltaf að skoða aukaverkanir þeirra lyfja sem verið er að taka inn og vera viðbúinn ef þær gera vart við sig.

Mar er venjuleg aumt og það er sárt að snerta það. En ef sársaukinn er viðvarandi og hverfur ekki er ástæða til að leita læknis. Einnig ef marið hverfur ekki og önnur einkenni á borð við þreytu, svima og þyngdartap fylgja í kjölfarið.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna.

Ritstjórn apríl 4, 2024 07:00