Hafa vetursetu á Spáni

Kristborg með pólsku hjónum Hendrik og Evu.

„Þetta er meiriháttar. Veðursæld og nóg um að vera,“ segir Sigurjón M. Egilsson blaðamaður. Hann og eiginkona hans Kristborg Hákonardóttir pökkuðu saman í lok september og fyrsta október  fluttu þau til Spánar þar sem þau hafa haft vetursetu í bænum Campoamor.Bæ sunnarlega á Alicantesvæðinu. „Hér leigjum við ágæta íbúð á viðráðanlegu verði. Við vorum búin að velta því fyrir okkur í smá tíma að hafa vetursetu þar sem væri hlýtt flesta daga yfir vetrartímann. Ég lenti í alvarlegu umferðarslysi fyrir nokkrum árum og hef verið illa haldinn af verkjum síðan. Verkirnir hafa magnast upp í kulda og síðasti vetur var mér mjög erfiður. Við Kristborg fórum þá í mánuð til sólarlanda og mér leið miklu betur, verkirnir urðu mun minni. Í kjölfarið ákváðum við að prófa að búa á Spáni í hálft ár og hér hefur mér liðið ákaflega vel,“ segir Sigurjón og heldur áfram að róma suðræna veðurblíðu. „Núna er snjór og kuldi heima en hér fer hitinn í um 20 stig næstum alla daga. Það má eiginlega segja að hér séu allir dagar eins og veðursælir júlídagar á Íslandi.“

Sigurjón segir að þau hafi nóg við að vera. „Hún Kristborg er golffíkill,“ segir hann og leggur áherslu á orð sín. „Við spilum golf þrisvar til fjórum sinnum í viku og ég hef gaman af, þó ég sé ekki afreksmaður í golfi,“ segir hann og hlær en bætir svo við. „Það er góð aðstaða til að vera í golfi hér. Þetta er fín hreyfing og skemmtilegur leikur. Á golfvellinum kynnumst við fólki. Við höfum kynnst fólki alls staðar að úr Evrópu. Í síðustu viku vorum við að spila með afskaplega skemmtilegum hjónum frá Póllandi. Svo er nokkuð mikið af Bretum hér. Þegar þeir heyra að ég sé blaðamaður eru umræðurnar fljótar að beinast að Brexit. Ég er orðin sérfræðingur í afstöðu hins venjulega Breta til Brexit. Það er ágætt að hlusta á og tala við fólk héðan og þaðan.“

Sigurjón segir að það sé bjartara yfir fólki þegar veðrið er hlýtt og gott. „Þetta er bara eins og heima. Ef það koma góðir sólskinsdagar á sumrin og ef maður skreppur í

Spiluðum með þessum ensku heiðursmönnum í nóvember. Sá einfætti var hreint ótrúlega seigur golfari. Jafnvægið sem hann hafði var eflaust einstakt, segir Siigurjón.

bæinn þá eru allir svo glaðir, kunningjar heilsast, ókunnugir brosa til manns. Það léttist brúnin á öllum. Jafnvel örgustu fýlupúkum. Hér er oftast sólskin og mannfólkið glatt í bragði. Það eru einhvern veginn allir í betra skapi þegar sólin skín.“

Sigurjón segist ekki vita af neinum Íslendingum í hverfinu þeirra. Hann hafi allavega ekki rekist á neinn. „Við erum heldur ekkert að sækjast eftir því að vera með Íslendingum hér. Við höfum aldrei búið í útlöndum áður og okkur finnst gaman að takast á við það. Þegar maður er ókunnugur eru ótal hlutir sem þarf að setja sig inn í. Til dæmis að læra að rata á nýjum slóðum. Við vorum fyrst alltaf með GPS tækið í bílnum í gangi. Nú höfum við lært að rata um nágrennið og erum orðin nokkuð heimavön. Hér þarf líka að finna út úr því hvernig maður getur gert hlutina á sem hagkvæmastan hátt. Það skiptir miklu máli að vera klár að leita á netinu og taka ekki því fyrsta sem býðst. Ég var til að mynda að leigja bíl á tilboði.  Ég fann ágætan bíl sem kostar 15 þúsund á mánuði að leigja.“

Sigurjón segist ekki hafa gert verðsamanburð á því hvað kosti að búa á Spáni miðað við að búa á höfuðborgarsvæðinu. „Slíkur samanburður er erfiður að mörgu leyti. Hins vegar finn ég það vel á buddunni þegar farið er út í búð að kaupa í matinn hvað matur er miklu ódýrari hér og ýmislegt annað er hægt að nefna.“

Sigurjón segir að þau hjónin hafi nóg við að vera fyrir utan það að spila golf. Það sé aldrei dauð stund. Hann á og rekur vefinn Miðjan.is. Á vefnum fjallar hann um pólitík og þjóðfélagsmál í víðum skilningi. „Eftir slysið á ég erfiðara með að skrifa. Hægri handleggur og hægri hönd hafa afar lítinn mátt og hreyfigetan er mjög lítil. Nú slæ ég margar feilnótur á lyklaborðinu, hægra megin. En er góður til vinstri.“

„Þegar við erum ekki í golfi er ég að vinna á vefnum. Það hefur gengið mjög vel að halda honum úti héðan. Ég get auðveldlega fylgst með öllu því sem er að gerast heima í gegnum netið. Það fer drjúgur tími í þetta. Á meðan hlustar Kristborg á hljóðbækur eða prjónar. Ef við erum heima á kvöldin þá horfum við á íslensku

Morgunsólin gegur fyrirheit um hlýjan dag.

sjónvarpsfréttirnar og annað það sem vekur áhuga okkar. Ég held að það sé lykilatriði að hafa eitthvað fyrir stafni. Ef ég væri fluguveiðimaður væri ég að hnýta flugur hér, en ég er blaðamaður og því held ég áfram að skrifa. En það er sama hvar er maður býr, það þarf að hafa eitthvað að gera hvort sem það er vinnan manns eða áhugamálin.“

En hvað með framhaldið. „Við skilum íbúðinni af okkur fyrsta apríl og þá komum við heim. Við erum hins vegar búin að leigja aðra íbúð hér næsta vetur. Þá verðum við  í tæpa sjö mánuði. Ætlum sem sagt að lengja tímann hér á Spáni lítið eitt. Okkur líkar ljómandi vel að vera hér.“

Ritstjórn janúar 25, 2019 11:29