Sprenging í kaupum Íslendinga á íbúðum á Spáni

Bjarni Sigurðsson

Marga dreymir um eilífa sumarsælu og þeir eru fleiri og fleiri sem láta þann draum rætast og kaupa sér hús eða íbúð á Spáni eða annarsstaðar þar sem sólin skín flesta daga ársins. Flestir þeirra sem kaupa á Spáni eða átta af hverjum tíu eru 50 ára og eldri. Það er hins vegar að fjölga í hópi þeirra sem eru yngri. Fjölskyldufólk með börn er farið að taka sig upp og flytja. Spakir menn telja að um 3000 íslendingar eigi húsnæði á Spáni og þeim fer fjölgandi. Til að mynda hefur Fasteignasalan Spánarheimili það sem af er ári gengið frá tæplega 50 kaupsamningum og tugir til viðbótar eru í farvatninu.

Að jafna sig eftir hrunið

Eftir efnahagshrunið og í kjölfar þess að Seðlabankinn setti á gjaldeyrishöft hægði mjög á fasteignakaupum Íslendinga erlendis. Það má eiginlega segja að þær hafi nær alveg stöðvast. „Það var góð sala í fasteignum á Spáni á árunum fyrir hrun en 2008 og 2009 stoppaði allt. Eftir að höftin voru sett á varð allt að fara í gegnum Seðlabankann og það kostaði mikla gagnaöflun og tók  langan tíma. Á síðasta ári losaði bankinn aðeins um höftin þannig að fólk fékk leyfi til að kaupa orlofshúsnæði erlendis og þá jókst salan nokkuð. Þegar höftin voru svo afnumin um áramótin tók fólk við sér aftur og það má segja að það hafi orðið alger sprengja frá því í febrúar. Það var hreinlega eins og eitthvað hefði brostið. Maður tengir þetta við afnám haftanna“ segir Bjarni Sigurðsson hjá fasteignasölunni Spánarheimili en hann hefur haft milligöngu um fasteignakaup Íslendinga á Spáni í á annan áratug.

„Þá má kannski segja að það hafi verið orðin uppsöfnuð þörf. Fólk heldur áfram að eldast. Marga sem komnir eru á miðjan aldur, dreymir um að eignast athvarf í sólarlöndum og nú sér fólki tækifæri til að láta þann draum rætast eftir að höftin voru afnumin. Það hjálpar líka til að fasteignaverð er lágt á Spáni, fasteignaverð þar lækkaði um 50 til 60 prósent í kjölfar hrunsins, og krónan mjög sterk gagnvart evrunni þessa dagana. Það er því mjög hagstætt að kaupa um þessar mundir þó við sjáum vísbendingar um að fasteignaverðið þar fari örlítið hækkandi“.

Vilja geta skroppið

Marga dreymir um afdrep í suðrænum löndum.

„Það má skipta hópnum í tvennt sem kaupir á Spáni annars vegar þá sem eru enn á vinnumarkaði, þeir vilja gjarnan eignast íbúð eða hús og geta skroppið þangað í stuttan tíma í senn með fjölskylduna og vilja geta boðið börnum og barnabörnum að gera slíkt hið sama. Þess á milli vilja þeir leigja eignina. Ef  þeir leigja hana í fjórar til átta vikur yfir sumartímann er hægt að hafa upp í rekstrarkostnað og margir horfa til þess.  Svo eru það þeir sem komnir eru á lífeyri og horfa til þess að geta verið stóran hluta ársins á Spáni,  til að mynda þeir sem spila golf. Aðrir eldri borgarar vilja bara njóta þess að geta verið í góðu veðri allan ársins hring. Koma heim yfir hlýjasta og bjartasta tímann. Annars er allur gangur á þessu og erfitt að alhæfa fyrir allan hópinn.“

Bjarni segir að flestir þeir sem hann og hans fólk eru að þjónusta kaupi íbúðir á Costa Blanca svæðinu og þar í kring í nágrenni strandarinnar. Flestir þekki einhvern sem hefur komið á það svæði eða eigi hús eða íbúð þar. Verð á góðu raðhúsi er 18 til 20 milljónir króna. Svæðið er vel skipulagt byggist upp á þægilega stórum hverfum með íbúakjörnum þar sem öll húsin eru eins, hvort sem það eru fjölbýlishús, raðhús eða einbýlishús. Íbúar hvers kjarna deila svo með sér sameign og sundlaug. Öll þjónusta innan kjarnans eða hverfisins er í göngufæri.  Það er heilsugæsla, verslanir, veitingahús og barir. Það er auðvelt að komast til Alicante því þangað er beint flug nokkrum sinnum í viku allt árið og þaðan er ekki svo langur akstur á ströndina.

Meira öryggi að vera nálægt öðrum Íslendingum

„Fólk er ekkert endilega að sækjast eftir að kaupa þar sem aðrir Íslendingar búa fyrir. Það er allur gangur á því. Sumum, einkum eldra fólki, finnst þægilegra og meira öryggi í því að búa þar sem aðrir Íslendingar hafa sett sig niður, sérstaklega þeim sem tala ekki önnur mál en íslensku. Svo eru aðrir sem vilja vera sér. Þeir sem ætla að flytja út  og stunda vinnu kaupa gjarnan eignir aðeins lengra inn í landinu. Ég dáist oft að Íslendingum sem eru að flytja fyrir það hversu duglegir þeir eru að bjarga sér. Sumir eru með verkefni sem þeir vinna á Spáni og skreppa svo heim ef á þarf að halda. Aðrir finna sér vinnu og sumir stofna fyrirtæki. Þeir sem tala fleiri en eitt tungumál eru í sérlega góðri stöðu því mörg fyrirtæki sækjast eftir fólki með góða tungumálakunnáttu. Þeir sem flytja og eru enn á vinnumarkaði sitja ekki auðum höndum. Þeir eru duglegir að útvega sér vinnu, eða búa sér hana til með einhverjum hætti.“

Bjarni segir að það sé heilmikið félagslíf hjá Íslendingum á svæðinu. „Það er starfandi Íslendingafélag á svæðinu. Fólk hittist og skipuleggur dagskrá, það fer saman í golf, spilar bridge, borðar saman skötu á Þorláksmessu, heldur jólaboð og Þorrablót. Það eru allir velkomnir að vera með  og taka þátt. Fólk eignast á þennan hátt nýja vini og kunningja,“ segir hann.

Ekki flókið ferli

Það væri gott að setjast hér og fá sér að borða.

Mörgum kann að finnast það flókið að kaupa sér húsnæði í öðru landi. Bjarni segir að það sé í raun ekki svo mikið mál. „Við bjóðum fólki upp á skoðunarferðir og alla hugsanlega og mögulega aðstoð við  kaup á fasteigninni. Ef að fólk finnur eign sem það langar í er gert tilboð og ef það er samþykkt er gerður svokallaður fráteknisamningur. Fólk greiðir staðfestingagjald upp á 3.600 evrur sem gengur svo upp í endanlegt kaupverð. Það hefur svo fjórar til átta vikur til að ganga frá öllum pappírum, ganga frá fjármögnun og sækja um spænska kennitölu. Ef fólk er að kaupa eignir sem eru enn í byggingu borgar það inn á eignina á byggingartímanum. En það eru bankaábyrgðir á greiðslunum til að tryggja að fólk fái peningana til baka ef eitthvað kemur uppá hjá verktakanum. Þegar allt er klárt kallar sýslumaður á fólk á fund þar sem gengið er frá samningnum og fólk fær afsal. Sýslumaðurinn er öryggisventillinn í samningsgerðinni því honum ber skylda til að ganga úr skugga um að á eigninni hvíli engar kvaðir. Um leið og búið er að gera samninginn er gengið frá afsali og fólk greiðir eignina að fullu og fær hana afhenta.  Það er tíu ára ábyrgð á nýju húsnæði en það gegnir aðeins öðru máli ef fólk er að kaupa eldri eignir. Ég ráðlegg fólki oft að taka bankalán fyrir einhverjum hluta kaupverðsins því bankinn lánar ekki nema það sé búið að ástandsmeta eignina. Þeir fá verkfræðinga eða byggingaverkfræðinga til að skoða eignina og það er gerð ítarleg úttekt á henni. Kaupendur og bankinn fá svo í hendur ástandsskýrslu og það er ákveðinn öryggisventill því bankinn upplýsir kaupandann um það sem gera þarf ef eitthvað er í ólagi, hvort sem það eru lélegir gluggar, lagnir eða eitthvað annað. „ Bjarni segir að það sé tiltölulega auðvelt að fá lán í spænskum bönkum. Ferlið sé svipað og hér fólk þurfi að standast greiðslumat en það sem sé öðruvísi sé að bankinn ætlist til að lánið sé greitt upp þegar fólk er 75 ára. Sá sem er 55 ára og ætlar að taka lán fær því lán til 20 ára og svo styttist tíminn í takt við hækkandi aldur fólks.

Eignast marga vini

Eins og áður sagði hefur Bjarni haft milligöngu um sölu á fasteignum á Spáni í á annan áratug. Hann segir að þetta sé einstaklega gott og gefandi starf. Hann hafi eignast fjölda vina á þessu tímabili. „Við aðstoðum fólk við að leigja út eignir sínar hér og margir nýta þá þjónustu. Ég segi alltaf við fólk að það eigi að hafa samband ef það sé eitthvað sem það þurfi aðstoð með, hvort sem það er að ráða iðnaðarmenn, þýða bréf eða skjöl sem það fær frá opinberum stofnunum eða bara húsfélaginu. Maður sleppir ekkert höndinni af fólki þó maður sé búinn að selja því fasteign,“ segir hann að lokum.

Ritstjórn júlí 28, 2017 11:54