Hafði aldrei hvarflað að mér að fara að reka hótel

Friðrik Pálsson var kominn yfir miðjan aldur þegar hann hóf hótelrekstur á Hótel Rangá.  Áður hafði hann áratugum saman unnið við markaðsmál í sjávarútvegi og útflutning á fiski.  Þegar hann var spurður  hvers vegna hann hefði söðlað um, sagði hann að allt sitt líf hefði verið samsafn af tilviljunum og að hann hefði aldrei gert neinar áætlanir.  „Þetta æxlaðist svona, ég fór að hjálpa til hér á hótelinu.  Kannski hafði alltaf blundað innra með mér, að mig langaði til að eiga veitingastað, en það hafði aldrei hvarflað að mér að fara að reka hótel“

Gekk illa að fá góða kokka

Friðrik segist alltaf hafa haft unun af góðum mat. „Ég var þekktur fyrir það á ferðalögum mínum með góðu fólki úr sjávarútveginum að ljúka aldrei svo hádegisverði að ég væri ekki farinn að hugsa um stað fyrir kvöldverð. Þegar ég tók við Rangá, var aðal áhugamálið að koma þar upp góðum veitingastað.  Það var erfitt framan af, því það var erfitt að fá góða kokka.  Við erum úti í sveit á Íslandi og eftirspurn eftir kokkum var mikil á spennuárum fyrir hrun.  Í kringum hrunið tókst mér að ná í góða kokka og hef verið heppinn með þá síðan.  Við höfum náð upp góðu orðspori og það skiptir miklu máli.  Vanmetnasta afþreyting í heiminum er matur.  Það er oft verið að telja upp afþreyingarmöguleika í heiminum, en þegar fólk er spurt þegar það kemur heim úr ferðalögum, standa oft uppúr veitingastaðirnir sem menn fóru á. Það er sagt um Ítalíu, að það sé ekki hægt að fá vondan mat þar og  sama á við um París.  Ísland er að koma sterkt inn, sem land með góðan mat.

Hrunið breytti stöðunni

Spurður hvort honum hafi ekkert óað við því að fara að reka hótel, segir hann, „ Nei, ég hugsaði ekkert út í hvað ég var að fara og gerði engin plön um það.  Þetta gekk illa fyrstu árin. Við lifðum í þessu skrítna ástandi, með gjaldmiðil sem jafnvel alvöru bankamenn úti í löndum töldu að væri sterkasti gjaldmiðill í heimi. Þetta var að kyrkja alla útflutningsstarfsemi . Ég var búinn að vera lengi í fiskinum, þar sem gengisfellingar höfðu verið bjargvætturinn áratug eftir áratug“.  Friðrik segist hafa verið að gefast upp um áramótin 2007/2008, en þá byrjaði krónan að síga. „Þegar hrunið skellur síðan á og krónan hrundi, varð allt önnur staða uppi.  Ég var svo heppinn af því ég hafði aldrei verðlagt fisk nema í erlendri mynt, að ég hafði sett upp verðlistann hjá okkur í evrum.  Við vorum alveg föst á því.  Tekjurnar jukust því um 50-60% milli ára.  2009 var gott ár, en svo kom gosskellurinn árið 2010.  Næstu fimm ár þar á eftir, hafa eins og allir þekkja verið uppgangstími í ferðaþjónustunni“.

Vill endurreisa sparisjóðakerfið

Friðrik sem rekur líka hótel inn við Hrauneyjar segist verða í þessum verkefnum áfram. „Það eru alltaf að koma hingað menn sem vilja kaupa af mér.  Auðvitað kemur einhvern tímann að því að ég hætti þessu, en ég hef engin plön um það eins og er. Ég hef ekki velt því neitt fyrir mér, hvað taki við þegar ég hætti. Ekki þar fyrir að það er ýmislegt sem ég get hugsað mér að takast á við“.  Friðrik segir að sig hefði langað til að taka þátt í að endurreisa sparisjóðakerfi landsins. Hann hefði verið með annan fótinn úti á landi meira og minna í 40 ár. Það hefði verið sérstaklega fróðlegt að fylgjast á sínum tíma með litlum saltfiskframleiðendum á landsbyggðinni.  „Margir voru á lífi vegna þess að þeir voru í viðskiptum við sparisjóðinn í sinni heimabyggð, sem skildi þarfir þeirra og nennti að sinna þeim“.

Geyma peninga og lána út á eðlilegum kjörum

Friðrik segist sjá það í dreifbýlinu að einstaklingar og fyrirtæki líði fyrir það að stóru bankarnir þrír hafi í seinni tíð ekki haft sama áhuga á að sinna þessum dreifðu byggðum eins og áður var og eins og sparisjóðirnir gerðu á sínum tíma og gera sums staðar ennþá.  Sparisjóðir séu í sinni einföldustu mynd til fyrir viðskiptavini sem eigi peninga, vilji láta geyma þá fyrir sig og helst fá af þeim einhverja arðsemi með því að lána þá öðrum sem þurfi á lánsfé að halda, gegn sanngjörnum vöxtum. „Þó að ég eigi núna heima í Reykjavík og hafi búið þar býsna lengi þá slær í mér landsbyggðarhjarta og ég þekki þarfir fólks úti á landi.  Ég held að okkur vanti þar sparisjóði, sem vilja geyma peninga fyrir fólk og lána þá út á eðlilegum kjörum og að það sé aðalstarfsemi sparisjóðsins, en ekki einhverjar fjárfestingarbólur“ segir Friðrik „Þannig verkefni eiga að vera á verksviði fjárfestingarbanka.“

 

 

Ritstjórn maí 12, 2016 10:40