Fjarri þeim að hætta að vinna

Hugmyndin um að fólk hætti að vinna 67 ára er úrelt og löngu kominn tími til að breyta því. Tveir landskunnir orkuboltar sem eiga 69 ára afmæli í dag, eru gott dæmi um hversu mikil tímaskekkja þetta er. Friðrik Pálsson lætur til sín taka á vettvangi ferðaþjónustunnar og rekur tvö stór hótel, Hótel Rangá og Hótel Hrauneyjar og Sigrún Stefánsdóttir er forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, sem er stærsta svið skólans. Kennslan við skólann er í hámarki og hún segist aldrei hafa kennt jafn mikið. „Það er svo mikið að gera að ég má varla vera að því að setjast niður á kvöldin“, segir hún.

Eru ekki á leið út af vinnumarkaðinum

Það er fjarri þeim að hætta að vinna þó sjötugsafmælið nálgist. Sigrún mun að vísu þurfa að hætta störfum hjá HA þegar hún verður sjötug, þannig eru reglurnar ennþá um ríkisstarfsmenn. En hvað bíður handan við hornið? „Það veit ég ekki frekar en á öllum þeim afmælum sem ég hef átt í lífinu segir Sigrún. „Hins vegar er ég á fullu og lít ekki svo á að ég sé að fara út af vinnumarkaðnum nema síður sé. Ef enginn vill mig þá bý ég bara til mín eigin verkefni“, segir hún. Það hefur jafnaldri hennar Friðrik Pálsson gert. „Það er gott að vera með eigin rekstur“, segir hann, „ég gæti ekki hugsað mér að fara að vinna fyrir einhvern annan núna“.

Forréttindi að vera 69 ára við góða heilsu

Friðrik segir það forréttindi að vera 69 ára, við góða heilsu og eiga góða fjölskyldu. „Það er ekki hægt að biðja um neitt meira“, segir hann og bætir við að hann þoli ekki fólk sem engist yfir því að verða sextugt. Hver dagur og hvert ár sem menn lifi sé guðsgjöf og allir þekki einhverja sem hafi orðið fyrir slysum eða misst heilsuna á þessum aldri. Hann hélt uppá afmælið sitt þegar hann var þrítugur en hefur ekki gert það síðan. „Hver dagur er bara hátíð“, segir hann. Sigrún ætlar hins vegar að halda uppá afmælið með því að bjóða fjölskyldunni í „brunch“ og hlakkar mikið til. Á morgun heldur hún fyrirlestur á Dalvík um Kristján Eldjárn fyrrverandi forseta, en hann er móðurbróðir hennar.

Orðið heitt undir forsetafeldinum

Friðrik ekur fleiri hundruð kílómetra í hverri viku og þegar blaðamaður Lifðu núna hitti hann var hann að koma af ársfundi Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann er hins vegar á leiðinni til útlanda í skíðaferð í dag. Það hefur komið fram í fréttum að Sigrún íhugar að bjóða sig fram í forsetakosningunum í vor. Hún hefur sum sé legið undir feldi en hefur ekki tekið ákvörðun. „Ég verð að mestu í Reykjavík í páskavikunni og geri ráð fyrir að skríða þá undan títt nefnum feldi. Það er orðið dálítið heitt undir honum enda erum við svo mörg þarna og feldurinn ekki stór“ segir afmælisbarnið.

 

 

 

 

 

Ritstjórn mars 19, 2016 09:00