Sviptingar í kjölfar landsfundar LEB

Landsfundur Landssambands eldri borgara var haldinn á Hótel Reykjavík Natura þann 14. maí. Kjaramál voru til umræðu á fundinum og einnig fór fram kosning í aðalstjórn. Nokkur styr hefur skapast vegna þess að Sigurður Ágúst Sigurðsson formaður Félags eldri borgara í Reykjavík hlaut ekki kosningu.

Sigurður Ágúst steig fram í viðtali á visir.is í dag og sagði niðurstöðuna blauta tusku í andlit félagsmanna hans. Viðtalið má lesa hér:

https://www.visir.is/g/20242571469d/-blaut-tuska-i-and-lit-fe-lags-eldri-borgara-i-reykja-vik-

Þorbjörn Guðmundsson formaður velferðarráðs eldri borgara og Steinunn Þóra Árnadóttir alþingsmaður tókust svo á í Kastljósi um aðgerðir til kjaraúrbóta fyrir lægst launaða hóp eldri borgara. Steinunn taldi að ýmislegt hefði verið gert en Þorbjörn að enn vantaði talsvert upp á að þær hefðu nægt til. Hann nefndi að fjórar lægstu tíundir hjá Tryggingastofnun lifðu við og undir fátæktarmörkum. Í hverri tíund eru um það bil 3700 manns. Tvær lægstu tíundirnar búa svo við verstu kjörin. Þorbjörn taldi að í þeim hópi væru m.a. öryrkjar sem hefðu alla ævi búið við slök kjör og konur sem hefðu hugsanlega verið frá vinnumarkaði um tíma og lífeyrisréttindi þessa fólks því lítil. Hann benti á að það er erfitt að búa við fátækt.

Í máli Þorbjörns kom einnig fram að meðaltekjur á Íslandi eru um 700.000 kr. á mánuði en þeir sem falla undir lægstu tíundir Tryggingastofnunar hafa um það 400.000 kr. Steinunn taldi að hækkað frítekjumark og sameinaðir bótaflokkar og fleiri breytingar sem gerðar hafi verið á kerfinu hefðu skilað árangri fyrir marga.

Allt í allt eru það um 15000 eldri borgarar á Íslandi búa við fátækt og Þorbjörn lagði áherslu á að sértækar aðgerðir þyrfti til að bæta kjör þessa hóps. Stór hópur hefði ekki með aðrar tekjur en ofangreint og sá hópur sem hefur ekki full réttindi á Íslandi fer stækkandi. Hann lagði til að sett yrði gólf eða tekjumark og sett í lög að enginn hefði lægri tekjur en eitthvað ákveðið framfærslulágmark.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 16, 2024 11:24