Hannaði fermingarkjólinn sinn fyrir fimmtíu árum

Fermingarveislur hafa líklega breyst síðustu fimmtíu árin og víst er að líklega myndu ekki margir reykja í fermingarveislum í dag, eins og tíðaðist fyrir hálfri öld. Það hefur ekki breyst að fötin eru stórmál, ekki síst fyrir fermingarstúlkurnar. Rut Helgadóttir sem fermdist árið 1966 í Laugarneskirkju hannaði fermingjarkjólinn sinn sjálf. Hún segist hafa verið full eftirvæntingar á fermingardaginn og hafa tekið þetta allt mjög alvarlega. Hún samþykkti að deila minningunum frá fermingunni með Lifðu núna.

Teiknaði kjólinn og fór með til saumakonu

„ Ég hafði mjög gaman af listgreinum og var alltaf teiknandi dúkkulísur og síðan föt á þær, endaði reyndar með því að læra fatahönnun í Kaupmannahöfn en það er nú önnur saga. Þess vegna hafði ég mjög ákveðnar skoðanir á fermingarkjólnum sem ég teiknaði nákvæmlega upp og fór með til saumakonu. Kjóllinn heppnaðist vel og ég var hæstánægð. Hann var hvítur með svörtum bryddingum á kraganum og ermum og svörtum hnöppum, mjög stuttur auðvitað eins og tíðkaðist á þessum tíma. Ég fékk líka nýja kápu mjög fallega ljósgráa ullarkápu með gylltum hnöppum“.

„Kellingalegar“ hárgreiðslur

Rut heldur áfram „Verra var nú með hárgreiðsluna , en ég ætlaði ekki að taka í mál að fara á stofu og láta túpera á mér hárið, mér fannst það svo „kellingalegt“. En úr varð að móðir mín blessuð fékk mig með í „greiðslu“  þar sem átti að byrja á því að klippa á mér toppinn sem náði niður fyrir augabrúnir. Þarna sat ég í gelgjukasti með fýlusvip og hárgreiðslukonan fékk að lokum að klippa nokkra millimetra minnir mig og síðan var túperað stórt og gott hreiður ofan á kollinn á mér.  Ekki sést það þó á myndunum að toppurinn hafi verið snyrtur,því ég sé varla út úr augunum á myndunum“

Kokteilsósan nýkomin til skjalanna

Fermingarveisla Rutar var haldin heima. Um 70-80 manns voru í veislunni en þar var boðið uppá kalt borð. „Vinkonur mínar voru sumar í veislunni og eins og oft er með fermingarbörnin þá sátum við inni í herbergi og spjölluðum á meðan fullorðna fólkið sat í stofunni og víðar um húsið. Kalda borðið á þessum tíma samanstóð gjarnan af heilsoðnum laxi sem sprautaður var og skreyttur með majónesi og kokteilberjum. Lítið var um grænmeti en reykt svínakjöt og kartöflustrá úr dós voru vinsælt meðlæti og svo gjarnan salat með blönduðum ávöxtum úr dós sett saman við majónes og þeyttan rjóma. Kokkteilsósan fræga hafði nýverið litið dagsins ljós á Íslandi og þótti hið mesta lostæti með flestum réttum, sérstaklega með köldum fiskréttum á hlaðborði.  Ég man einnig eftir kransaköku sem var pöntuð  í tilefni dagsins og eflaust voru fleiri tertur í eftirrétt“.

Úr og Baby doll náttföt

„Gjafirnar voru allar fínar og vel þegnar“, segir Rut. „Ég fékk t.d. mjög fallegt og vandað úr frá foreldrum mínum  og á það enn til minningar ofan í skúffu. Fallegt skartgripaskrín frá „Hjá Báru“  fékk ég einnig ásamt ýmsum skartgripum sem hafa því miður glatast í áranna rás. Baby Doll náttföt úr næloni fannst mér heldur djörf en þau voru laxableik og efnislítil, en þau notaði ég um það bil ári seinna. Bækur, til dæmis Nýja testamentið í myndum var einnig hluti af fermingargjöfunum, og bláir leðurhanskar og lítið veski. Meira man ég nú ekki frá þessum degi nema hvað mér fannst ég hafa þroskast og „stækkað“ þennan merkilega dag þegar maður telst vera komin í fullorðinna manna tölu“.

Margir reyktu í fermingarveislunni

Fleiri fermingarbörn sem nú eru komin yfir sextugt hafa svipaða sögu að segja úr sínum fermingum. Þá eins og nú, var ekkert til sparað til að gleðja börnin sem voru að fermast. Það er samt að heyra að strákar hafi ekki hugsað jafn mikið um fötin og stelpurnar. Einn viðmælenda Lifðu núna, sem fermdist á sjöunda áratugnum, sagðist hafa verið mjög spenntur á fermingardaginn. Hann mundi hins vegar ekkert hvernig hann var klæddur, en mundi að hann fékk veiðistöng í fermingargjöf og svo að sjálfsögðu úr. Líka skrifborð. Honum var minnisstætt hversu margir reyktu í fermingarveislunni. Baby Doll náttfötin voru mikið gefin stúlkum í fermingargjafir á þessum tíma. Þau voru yfirleitt úr einhvers konar siffon efni, stuttar buxur og víð blússa yfir.

 

 

 

 

Ritstjórn mars 24, 2016 13:20