Hvað á að gefa barnabörnum í fermingargjöf?

Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur skrifar

Amma var farin að velta fyrir sér hvað hún og afi ættu að gefa elsta barnabarninu í fermingargjöf. Stúlkan verður reyndar ekki fermd fyrr en næsta vor en amma er vön að vera tímanlega í öllu og svo fermast barnabörnin hvert af öðru næstu sjö árin. Ömmu finnst ferming vera stór tímamót og um að gera að fara að hugsa málið. Ekki dugar að rifja upp hvað hún fékk. Úr frá pabba og mömmu og lítinn koll með gæruskinni frá afa og ömmu. Faðir barnabarnsins fékk líka úr á sínum tíma, en nú eru aðrir tímar. Amma spurði afa álits en hann gaf lítið út á umræðuna og fannst ansi snemmt að hugsa um þetta núna. Það væri nógur tími.

Amma ákvað að spyrja vinkonur sínar og hún kom ekki að tómum kofanum hjá þeim frekar en venjulega. Það var greinilega hægt að velja fermingargjöf á marga vegu. Sumar hugmyndirnar voru klassískar eins og myndavél og tölva. Ein amman kaupir fermingarfötin. Laghentur afi smíðar vinsælar hillur handa fermingarbörnunum. Ein vinkonan og hennar maður eru dugleg að ferðast. Þau gefa barnabörnum sínum helgarferð til London og fara á söfn, í leikhús og gera sitthvað fleira skemmtilegt sem heimsborgin býður upp á. Nú er þriðja ferðin framundan og allir hlakka mikið til.

Svo voru það amman og afinn sem leggja áherslu á rætur fjölskyldunnar og sögu. Elsta barnabarnið fermdist í fyrra og þau fóru með honum á gömlu heimaslóðirnar eina helgi, gistu á gistiheimili og notuðu tímann til að skoða sig um. Drengurinn hefur áhuga á fuglaskoðun og á þessum slóðum eru kjöraðstæður til að stunda hana, bæði á sjó og landi. Áhugamál drengsins og áhugi ömmu og afa á kynna honum bernskuslóðir föður síns fléttuðust saman og ferðin heppnaðist mjög vel. Og ein amman sagði frá því að eitt barnabarnið hennar hafi valið að láta ekki fermast en hún valdi að gefa því gjöf engu að síður. Þannig studdi hún við ákvörðun barnsins og henni fannst einnig mikilvægt að gæta samræmis milli barnabarna sinna. Það kom reyndar fram í umræðunni að sumum finnst ekkert nauðsynlegt að gera of mikið úr samræminu, mikilvægara sé að huga um hvað henti einmitt barninu sem er nú að fermast.

Þessi fáu dæmi sýna hversu fjölbreyttar fermingargjafir geta verið og alls konar hefðir geta skapast. Það er gagnlegt að fyrir ömmu og afa að velta vel fyrir sér hvers konar gjafir þau langar að gefa á þessum tímamótum. Vilja þau skapa minningar með barnabörnunum eða gefa þeim hluti? Þau geta hugsað út frá áhugamálum barnsins, hæfileikum, þörfum og svo framvegis. Sjálfsögð regla er að hafa samráð við foreldra barnsins því þeir ráða för í lífi barnsins. Þá er hægt að koma til móts við óskir fermingarbarnsins sjálfs og foreldra þess svo peningar sem lagðir eru í gjafir nýtist vel. Stundum hentar að fjölskylda og vinir taki höndum saman um að endurnýja herbergi fermingarbarnsins, húsgögn og aðra muni.

Það kemur einnig fyrir að foreldrar vonast eftir dýrari gjöfum en amma og afi hafa efni á. Eina skynsamlega ráðið við því er að fara ekki í neinn feluleik heldur ræða málin við foreldrana í góðu tómi. Finna saman sanngjarna og skynsamlega niðurstöðu sem allir geta verið sáttir við. Taka mið af eigin efnahag og reisa sér ekki hurðarás um öxl. Við val á gjöfum skiptir svo sannarlega máli hvort fjárráðin eru knöpp eða rúm og barnabörnin tvö eða tólf.

Kæru ömmur og afar. Safnið hugmyndum að fermingargjöfum, fáið þær lánaðar frá öðrum og finnið upp ykkar eigin. Það er til fullt af góðum hugmyndum við allra hæfi. Hugsið málið, ræðið saman, mátið ykkur inn í hugmyndirnar og gefið ykkur tíma til að finna út hvað hentar einmitt ykkur og barnabarninu ykkar. Góða skemmtun og gangi ykkur sem best.

 

Ritstjórn mars 18, 2015 12:17