„Hef á tilfinningunni að ég sé kominn heim“

Jón Kristjánsson er fyrrum þingmaður og ráðherra fyrir Framsóknarflokkinn í Austurlandskjördæmi og síðan Norðausturkjördæmi eftir kjördæmabreytingu líður vel þegra hann kemur til Egilsstaða og Skagafjarðar. ,,Ég trappaði mig svolítið niður í starfslok með því að skrifa eina bók. Það var 100 ára saga kaupfélagsins á Egilsstöðum, Kaupfélags Héraðsbúa,“ segir Jón Kristjánsson, fyrrum ráðherra og þingmaður er fæddur og uppalinn í Stóragerði í Óslandshlíð í Skagafirði. Eiginkona hans er Margrét Hulda Einarsdóttir, frá Egilsstöðum, lengst af bankamaður í Samvinnubankanum sem var í Bankastræti.  Börn þeirra eru Viðar, Ásgerður Edda og Einar Kristján.

,,Ég flutti austur á Egilsstaði þegar ég var 21 árs en hafði verið áður hjá Kaupfélagi Skagfirðinga eftir að ég útskrifaðist úr Samvinnuskólanum 1963, en ég réði mig til Kaupfélags Héraðsbúa fyrir milligöngu félaga míns og var verslunarstjóri þar í 20 ár, síðan félagsmálastjóri,“ segir Jón Krisjánsson, fyrrum þingmaður og ráðherra fyrir Framsóknarflokkinn í Austurlandskjördæmi og síðan Norðausturkjördæmi eftir kjördæmabreytingu.

Jón Kristjánsson á heimili sínu og við hlið hans er málverk af börnum þeirra hjóna sem eiginkona hans, Margrét Hulda, málaði en mörg málverka hennar prýða heimili þeirra.

Þegar ég kom til Egilsstaða var það í fyrsta sinn, hafði þá aldrei komið austar en að Grímsstöðum á Fjöllum. Ég varð fljótt virkur í félagsstörfum víða á Austurlandi en árið 1985 tók ég sæti á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn sem varamaður Tómasar Árnasonar en þá hætti hann á Alþingi og fór í Seðlabankann sem bankastjóri, en þá hafði ég verið varaþingmaður frá árinu 1979, en frá 1985 átti ég sæti á Alþingi samfellt í 20 ár. Þar gegndi ég ýmsum embætttum og störfum. Þungamiðjan í því lengi vel var að ég var formaður fjárlaganefndar í 6 ár en átti þar sæti í þeirri nefnd samtals í 10 ár. Átti einnig sæti í samgöngunefnd, utanríkismálanefnd og landbúnaðarnefnd sem og fleiri nefndum.

Þegar Ingibjörg Pálmadóttir veiktist í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu baðst hún lausnar sem heilbrigðisráðherra þá var ég beðinn um að taka við því ráðherraembætti.“

Aldrei í vafa

  • Varstu í vafa um hvort þú ættir að taka að þér þetta ráðherraembætti?

,,Nei, raunar ekki en ég fékk tveggja vikna umhugsunaarfrest. Ég hafði þá unnið mikið í heilbrigðismálum og þekkti vel þennan málaflokk í tengslum við störf mín í fjárlaganefnd. Ég var einnig í erlendum samskiptum, eins og í þingmannaráði NATO og Norðurlandaráði. Ég sótti einnig þing Sameinuðu þjóðanna í New York.

Ég var heilbrigðisráðherra í 5 ár, eða til ársins 2006, var þá um stuttan tíma félagsmálaráðherra. Þá urði breytingar í Framsóknarflokknum, Halldór Ásgrimsson sagði af sér formennsku en þá var ég búinn að lýsa því yfir að ég færi ekki í framboð til Aþingis við næstu kosningar. Ég  var þá áfram á Alþingi en hætti svo alfarið árið 2007. Ég var um tíma forseti Neðri deildar Alþingis um skeið meðan það fyrirkomulag var og varafoseti Alþingis 2006 – 2007.“

  • Þú varst í blaðamennsku í hjáverkum samhliða þingmennsku. Það hefur væntanlega tekið sinn tíma?

,,Það gerði það að sjálfsögðu. Ég kom að útgáfu AUSTRA á Egilsstöðum sem ritstjóri, blað sem Framsóknarflokkurinn gaf út þar, var fyrst og fremst að skrifa pólitískar greinar í það blað. Það blað var gefið út í ein 25 ár. Ég sendi þá leiðara og ýmsa pistla austur þegar ég var í Reykjavík. Ég var einnig beðinn um að verða ritstjóri TÍMANS, tók það að mér en var um tíma ritstjóri beggja blaðanna. Ég var með prýðismann með mér á ritstjórn Tímans, Birgi Guðmundsson, sem síðar fór til starfa á DEGI á Akureyri. Ég ætlaði að hætta þessu en þá tóku við þessu þeir Ágúst Þór Árnason og Þór Jónsson og það stóð í eina 3 mánuði.“

Jón var um þetta leiti kallaður til fundar við Steingrím Hermannsson á heimili hans á Álftanesi. Þar tilkynnti hann Jóni að samið hefði verið við Svein Eyjólfsson og Hörð Einarsson um að taka að sér útgáfu Tímans, og hjá þeim starfaði Jón í tæp tvö ár, bæði hjá DV og Tímanum. Hann segist hafa átt ágætt samstarf við þá félaga. Þegar útgáfa Tímans var flutt norður til Akureyrar hætti hann því starfi og úr varð blaðið DAGUR/TÍMINN í framhaldinu. Þetta var á vissan hátt skrautlegur tími. Jón hætti einnig starfi sem ritstjóri Austra en það blað hætti að koma út um aldamótin. Þá var tími þessara pólitísku flokksblaða liðinn.

Ágætt að hætta þingstörfum 65 ára gamall

,,Þegar ég hætti á Alþingi árið 2007 var ég 65 ára, og fannst það ágæt tímamót. Þeir Vilhjálmur Hjálmarsson og Eysteinn Jónsson höfðu verið á svipuðum aldri þega þeir luku þingstörfum, og mér fannst það ágæt viðmiðun. Ef ég hefði haldið áfram hefði ég verið hartnær sjötugur. Það fannst mér ekki góð tilhugsun, ég vildi hætta meðan ég réði því sjálfur. Ég sé síður en svo eftir því.“

  • Fannst þér ekki vera nokkuð tómlegt þegar þú varst hættur þessu öllu, bæði sem ráðherra og ritstjóri?

,,Ég trappaði mig svolítið niður í starfslok með því að skrifa eina bók. Það var 100 ára saga kaupfélagsins á Egilsstöðum, Kaupfélags Héraðsbúa. Það félag fór í greiðslustöðvun en varð ekki gjaldþrota, var gert upp. Ég hafði um árabil verið þar starfsmaður, síðast stjórnarformaður og þekkti því vel til innviða félagsins. Ég fór ekki í neitt fast starf eftir það.

Ég sat samt ekki alveg auðum höndum, sat t.d. í ýmsum nefndum, m.a. fyrir sveitarfélagið á Egilsstöðum, í ráðgjafanefnd fyrir Landspítalann og fleira.

Þegar ég átti sæti á Alþingi átti ég lögheimili á Egilsstöðum en þegar því lauk mátti ég það ekki. Við seldum húsið okkar fyrir austan og bggðum bústað á Fljótsdalshéraði. Við konan mín máttum ekki eiga heima þar, sveitarfélagið vildi ekki að neinn ætti lögheimili í sumarbústað. Það hefði þýtt að það hefði vissar skyldur gagnvart okkur, t.d. snjómokstur. Við tókum því ákvörðun að vera áfram í Reykjavík og eiga hér lögheimili, enda höfðum verið hér allt frá árinu 1985. Bústaðinn seldu við seinna.

Þekkti engan

,,Í bókinni ,,Stund mín á jörðu“ eftir Vilhelm Moberg, sem hafði dvalið langdvölum í Vesturheimi, segir hann frá því að hann hafi alltaf ætlaði alltaf að flytja heim aftur í það umhverfi sem hann hafði verið í, en þá brá svo við að hann þekkti engan. Ég hafði kannski svipaða tilfinningu gagnvart Egilsstöðum. Sumir stjórnendur sveitarfélagsins Egilsstaðir voru jafnvel ekki fæddir þegar við áttum heima þar, og þannig er eflaust einning um marga aðra sem þarna búa í dag, eða flytja búferlum heim aftur eftir að hafa dvalið fjarri heimahögum lengi. Þetta er mikil breyting.“

  • Hefurðu þá tilfinningu þegar þú kemur til Egilsstaða að þú sért kominn heim?

,,Já, já,  en einnig finnst mér það þegar ég kem til Skagafjarðar enda orðin liðlega tvítugur þegar ég flutti þaðan, alinn upp á bæ rétt fyrir innan Hofsós. Eftir að ég var horfinn frá þingmennsku og öðrum störfum fórum við hjónin töluvert í endurmenntun við Háskóla Íslands, s.s. landafræði, bókmenntir, tónlist og fleira sem okkur þótti gaman að nema. Konan mín fór einnig í myndlistanám, en hún átti það sannarlega skilið þar sem fjarvistir mínar frá heimilinu höfðu oft verið miklar.“

Les meira nú og ferðast

,,Ég fer í sund á hverjum morgni  í Vesturbæjarlauginni og hitti þar félaga mína og það hefur gert mér margt gott. Við sundfélagarnir höfum farið saman í ferðalög, bæði hér heima og erlendis og með okkar maka með okkur. Nú þegar ég er farinn að hægja á mér hefur með gefið sér tíma til að lesa meira og svo höfum ferðast nokkuð erlendis, ekki bara með sundfélögunum. M.a. höfum við ferðast til Vancouver í Kanada þar sem dóttir okkar býr með sinni fjölskyldu, eldri sonur okkar býr á Akureyri en hinn í Reykjavík svo stundum skreppum við einnig til Akureyrar. Við hjónin höfum einnig farið í skemmtilegar gönguferðir til Austurríkis. Náttúrufegurðin þar er eins og að ganga um í fallegri ljósmynd.

Ég er stjórnarmaður í félagi fyrrverandi alþingismanna og það er skemmtilegur félagsskapur en hann er ekki tengdur pólitík eða stjórnmálaflokki og sá hópur hefur m.a. ferðast saman til Færeyja sem og innanlands á sumrin en það liggur niðri nú vegna covid-veirunnar. Þetta fólk sem ég ég hef átt samleið er hið ágætasta fólk. T.d. eru þar stjórnarmenn Sighvatur Björgvinsson og Þuríður Backmann sem ekki eru mínir flokksbræður, en góðir vinir.

Það er því enginn vandi að hafa nóg fyrir stafni, alltaf hægt að hafa eitthvað að sýsla við þó formlegri starfsævi sé lokið,“ segir Jón Kristjánsson.

Geir Guðsteinsson skrifar.

Ritstjórn desember 3, 2021 12:33