Tengdar greinar

Heillandi sirkus Laddi í Borgarleikhúsinu

Í Borgarleikhúsinu er boðið upp á fjörugan sirkus sem hverfist um ævi Þórhalls Sigurðssonar eða Ladda. Vala Kristín Eiríksdóttir er sirkusstjórinn, býður Ladda velkominn á svið, segir honum að nú sé kominn tími til að skoða líf hans og svo hefst gleðin. Hvert atriðið rekur annað með tónlist, dansi, gríni og glensi. Kannski svolítið eins og ævi þess manns sem helgaði sig því að skemmta öðrum.

Leikarar Borgarleikhússins bregða sér í gervi þeirra fjölmörgu og velþekktu karaktera sem hann skapaði. Björgvin Franz Gíslason sannar enn og aftur hversu fjölhæfur og stórkostlegur leikari hann er. Hann er frábær Elsa Lund en bregður sér einnig í ýmissa annarra kvikinda líki. Halldór Gylfason er dásamlegur Marteinn Mosdal, Vilhelm Neto alveg fyrirtaks Dengsi og Ásthildur Úa Sigurðardóttir kemur rækilega á óvart í hlutverki Saxa læknis. Katla Margrét Þorgeirsdóttir er flottur séra Gestur en öll koma þau fyrir í mörgum öðrum hlutverkum meðal annars leika þau Halldór, Ásthildur Úa og Halldór Ladda sjálfan á ýmsum aldursskeiðum. Katla Margrét leikur Halla bróður hans og fleiri persónur. Auk þeirra leika Birna Pétursdóttir og Hákon Jóhannesson stór hlutverk í mörgum senum.

Það má segja að þær fjölmörgu persónur sem Laddi hefur skapað og leikið endurspegli að þónokkru marki ævisögu hans. Sumar spretta upp úr fólki sem hafði djúp áhrif á líf Ladda í æsku, aðrar endurspegla brot af persónuleika hans sjálfs og sumar verða til af nauðsyn, þörf hlédrægs einstaklings til að skýla sér á bak við einhvern annan. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að vera meinlausar og Laddi hefur ávallt gert sitt besta til að særa engan með sínu gríni þótt sumt endurspegli annan tíðaranda en ríkir nú.

Vel útfærð hugmynd

Ólafur Egilsson hefur gert þetta áður og það sést vel á þessari sýningu. Hann hefur náð að skapa heildstæða og fallega mynd af Elly, Ástu Sigurðardóttur, Bubba og nú Ladda á leiksviði með öllum þeim skemmtilegu brögðum og töfrum sem sviðið býður upp á.  Hann og Vala Kristín skrifa þetta handrit saman og hugmyndin að hafa inngangspunktinn sirkus eða karneval er frábær, enda ræður hér meiri léttleiki ríkjum en í fyrri ævisögutengdu sýningum hans. Ólafur leikstýrir og ferst það sérlega vel úr hendi.

Þetta er Laddi fjörugt karneval, fyllilega í anda mannsins sem fjallað er um. Sýningin er þétt og hvergi er dauður punktur, vel samansett atriði og leikmyndin er lifandi, eiginlega beinlínis töfrandi. Það er Eva Signý Berger sem sá um þá hugvitsamlegu hönnun. Dans og hreyfingar einstaklega vel útfærð en þar að baki er Lee Proud en hann sýnir hér hversu ótrúlega vel hann skynjar sviðið og hvað þarf til að allar hreyfingar verði hluti af sýningu og skapi heildarsvip. Guðný Hrund Sigurðardóttir sér um búninga og Elín G. Gísladóttir um öll gervi eru sérlega vel unnin og skemmtileg. Á sviðinu er einnig hljómsveit undir stjórn Jóns Ólafssonar og með honum eru Friðrik Sturluson, Ólafur Hólm og Stefán Már Magnússon.  Auðvitað standa svo fjölmargir aðrir að baki svo viðamikilli og vel unninni sýningu. Hér þarf allt að koma saman. Niðurstaðan er sú að Þetta er Laddi í Borgarleikhúsinu er frábær skemmtun og ómögulegt annað en fara glaður heim að henni lokinni. Sýningin nær því að gleðja og lyfta fólki upp yfir gráma hversdagsins rétt eins og Laddi hefur gert í hartnær sextíu ár.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 8, 2025 12:48