Njótum þess sem nálægt stendur

Þráinn Þorvaldsson.

Þráinn Þorvaldsson skrifar.

„Pabbi, vissir þú að sjá má í mælaborðinu hvoru megin bensínlokið er á bílum?“ spurði Sif dóttir mín dag einn þegar við ræddum saman. Ég svaraði því neitandi. Við eigum tvo Suzuki bíla annar er 16 ára gamall jeppi og hinn yngri er nettur og 6 ára gamall. Bensínlokin eru sitt hvoru megin á bílunum. Ég hef stundum ruglast á því hvoru megin lokið er og kem því ekki alltaf réttu megin að bensíndælum þegar ég tek bensín. „Ég rakst á lausnina á netinu,“ sagði Sif, „ og er sjálf furðu lostin yfir að hafa ekki uppgötvað þetta fyrir mörgum árum. Í mælaborði á bílum er mynd af bensíndælu og við hliðina er ör sem vísar til hægri eða vinstri, á þá hlið bifreiðarinnar sem bensínlokið er.“ Næst þegar ég settist undir stýri skoðaði ég mælaborðin. Jú, viti menn. Örvarnar voru á sínum stað og bentu í sitt hvor áttina. Síðan hef ég aldrei ruglast á hvoru megin ég kem að bensíndælum. Í fjölda ára hef ég setið undir stýri, horft á mælaborðið og aldrei tekið eftir þessum augljósu vísbendingum. „Þetta hefur nú verið meiri sauðshátturinn hjá mér,“ eins og sagt var hér áður fyrr hugsaði ég.

Við þessa uppljóstrun fór ég að hugsa um hve oft við höfum eitthvað í nálægu sjónmáli sem er mikilvægt en við veitum ekki athygli og fáum því ekki að nýta eða njóta. Þetta minnti mig á ljósmyndaverkefni sem ég vann á árunum 2001 og 2002.

Ég var skokkari í 38 ár þar til ég hætti hlaupum fyrir fjórum árum. Hlaupin og hlaupaleiðin mín tvisvar í viku var heiman frá mér í Fossvoginum um Fossvogdal inn í Elliðaárdal yfir stífluna og til baka aftur fram hjá Elliðaárstöðinni. Stundum fór ég gegnum skóginn eða með fram ánni sitt hvoru megin við hólmann. Um helgar lengdi ég oftast hringinn og bætti við hlaupum upp fyrir Árbæjarlónið að efri Elliðaárbrúnni og til baka fyrir handan. Ég ætla ekki að lýsa þeirri yndislegu tilfinningu á þessum árum að hlaupa í öllum veðrum og anda að sér ilmi náttúrunnar, hlusta á hljóð náttúrunnar og fylgjast með hvernig náttúran þróaðist milli árstíða. Vorið þegar náttúran var að vakna til lífsins er yndislegur tími. Mikill spenningur var árlega hvenær ég myndi fyrst sjá vorboðann góða, lóuna í Elliðaárdalnum. Þessi hlaup mín voru unaður sem ég hefði ekki viljað missa af og sakna eftir að ég hætti hlaupum. Fyrstu pistlaskrif mín fyrir Lifðu núna voru árið 2013 og margir pistlar urðu til á þessum hlaupum mínum.

Árið 2000 eignaðist ég fyrstu stafrænu myndavélina mína, litla og netta ljósmyndavél sem ég gat haft í vasa. Ég ákvað að gaman væri að mynda breytingar á náttúrunni milli mánaða og árstíða á þessum hlaupaferðum mínum. Ég setti niður hæla á fjórum stöðum á lengri hlaupaleið minni í Árbæinn svo ég hefði alltaf sömu staðsetningu. Einu sinni i mánuði á laugardögum, eða sem næst þeim degi, tók ég myndir í 12 mánaða tímabili frá mars 2001 til febrúar 2002. Ég bætti síðar við nokkrum myndum sem ég tók sumarið 2003. Þessar myndir setti ég svo saman í myndasýningu ásamt upplýsingum um Elliðaárdalinn. Myndasýninguna kallaði ég „Elliðaárdalurinn – Unaðsreitur Reykjavíkur“. Undirfyrirsögnin var: „Fegurðin í náttúrunni og lífinu sjálfu er nær þér en þú heldur.“ Fyrir þá sem hafa áhuga að skoða þessa myndasýningu má sjá hana hér . Taka verður tilliti til takmarkana í stafrænni ljósmyndatækni minni á þess tíma. Þessa myndasýningu sýndi ég svo á nokkrum fundum í klúbbum og m.a. á fundi í Bústaðakirkju þar sem ég sat í sóknarnefnd í 28 ár.

Sýningunni var afar vel tekið og viðbrögð margra komu mér ánægjulega á óvart. Fólk kom til mín og sagðist t.d. búa í nágrenni Elliðaársdals en hefði ekki fyrr gert sér grein fyrir fegurð dalsins eftir árstíðum fyrr en það hefði séð myndasýninguna. Það ætlaði svo sannarlega að hefja göngur um dalinn. Eina konu hitti ég nokkrum mánuðum eftir að hún hafði séð sýninguna og hún sagði við mig. „Mér þótti svo vænt um sýninguna þína. Þegar ég ek vestur Miklubrautina og horfi á sólina lágt á lofti við sólarlag hugsa ég til þín og myndasýningarinnar. Ég hef aldrei notið á sólarlagsins fyrr en þú beindir athygli minni að fegurð þess.“

Við sjáum oft ekki það sem stendur nálægt okkur í lífi og starfi og því förum við á mis við að njóta þess. Lítum okkur nær og njótum þess sem nálægt okkur stendur.

 

 

 

 

4233

 

 

Þráinn Þorvaldsson janúar 24, 2022 07:00