Margt nútímafólk er leynt og ljóst í leit að kyrrð. Þögn og hljóðleysi eru orðin að lífsgæðum sem sumir njóta aldrei og kyrrð óbyggða Íslands er eitt af því sem dregur ferðamenn hingað. Sjálfsagt undrast fáir þeirra sem búa í þéttbýli löngun þeirra til að upplifa slíkt. Í umhverfi flestra er nefnilega látlaus hljóðmengun, tónlist, útvarpsþættir, hljóðbækur, hlaðvörp, sjónvarp, bílaumferð, vélar að sinna hlutverki sínu og fleira og fleira. Rannsóknir hafa sýnt að þetta hefur vond áhrif á heilsu fólks og eykur streitu. Barátta gegn hávaða er því hafin víða um lönd og til er fólk sem starfar við það að draga úr hávaðamengun
Víða erlendis háttar þannig til að fólk þarf að fara um langan veg áður en ys og þys þéttbýlisins er að baki en Íslendingar eru svo heppnir að hafa enn óspillta náttúru rétt við bæjardyrnar. Kyrrðina má því sækja án mikillar fyrirhafnar og útivistarfólk nýtur hennar sannarlega. Menn geta þó hvergi verið óhultir fyrir flugvélum sem fljúga yfir og á góðum degi eru iðulega margar, litlar flugvélar á lofti og drunur þeirra beras til eyrna þeirra sem eru á ferð.
En það eru ekki eingöngu samgöngutæki og vinnuvélar sem gefa frá sér hávaða og skapa eilífan nið fyrir eyrum fólks. Á öllum heimilum eru ótal rafmagnstæki sem mörg hver eru í gangi meira og minna allan daginn. Þvottavélin kurrar og æsir sig upp í dynjandi þrumuhljóð þegar hún vindur. Ryksugan murrar og kaffikannan hvæsir. Á morgnana hringja klukkur til að vekja fólk og útvarpið hellir hressilegri tónlist yfir syfjaða, úrilla landsmenn. Í eldhúsinu argar safapressan og yfirgnæfir dagskrárgerðarfólk ljósvakamiðla.
Heilsuspillandi hávaði
Undirspil bjartra sumardaga í garðinum er drunurnar frá sláttuvélum nágrannanna. Á haustin taka við laufsugur og á vorin rafknúnar limgerðisklippur. Þarf nokkurn að undra að hávaði er helsta orsök heyrnarskaða í nútímasamfélagi og heyrnartaps verður vart hjá mönnum í Bandaríkjunum mun fyrr á ævinni nú en fyrir nokkrum áratugum. Tíu milljónir Bandaríkjamanna hafa orðið fyrir heyrnarskaða og læknar þar í landi telja að tuttugu milljónir til viðbótar séu í bráðri hættu.
Hávaðinn hefur þó ekki eingöngu áhrif á heyrnina. Margt bendir til þess að stöðugur hávaði í umhverfinu eigi sinn þátt í því að menn þjást af háum blóðþrýstingi og streitu. Há hljóð auka adrenalínframleiðslu í líkamanum sem aftur veldur því að menn finna hjá sér þörf til að hreyfa sig. Adrenalín er aðferð líkamans til að auka kraft og snerpu til að bregðast við hættu en áhrif þess vara stutt og mikið adrenalínmagn í líkamanum til lengri tíma dregur úr hæfni manna til að einbeita sér og slaka á og veikir ónæmiskerfið. Þetta gerir það að verkum að fólk sem býr við mikinn hávaða á erfiðara með að einbeita sér og menn hafa almennt minni mótstöðu gegn sjúkdómum ef þeir upplifa sjaldan eða aldrei kyrrð í daglegu umhverfi þeirra. Mikil adrenlínframleiðsla getur sömuleiðis haft áhrif á hjartað og aukið líkurnar á að menn fái hjartasjúkdóma.
Allir vita hversu óþægilegt það er þegar mótorhjól aka hvínandi fram hjá svefnherbergisglugganum á kvöldin og stundum getur það rænt menn nætursvefni að hrökkva upp við skellinöðru á fullri ferð gegnum hverfið. Hávær tónlist frá íbúð nágrannans getur sömuleiðis svipt mestu rólyndismanneskjur allri yfirvegun. Geltandi hundar og grátandi börn eyðileggja einbeitingu manna og gera þeim ókleift að vinna, sofa eða hugsa. Af þessum ástæðum hafa heilbrigðisyfirvöld víða um heim mælt með því að fólk sofi ekki við opinn glugga. Þótt það vissulega tryggi betra loftflæði í íbúðinni og æskilegt hitastig ná stöðug umhverfishljóð eyrum okkar þó við sofum og geta skapað líkamleg viðbrögð sem spilla nætursvefninum.
Hávaðamengandi umhverfisslys
Margir finna vel fyrir áhrifum vegna hávaðans en samt sem áður er eins og hávaðamengandi umhverfisslys verði æ algengari. Menn fá leyfi til að opna bari og veitingahús inni í íbúðarhverfum og jafnvel á jarðhæð íbúðarhúsa. Líkamsræktarstöðvar og ýmiss konar iðnaðarstarfsemi er rekin í næsta húsi við íbúðarblokkir eða hjúkrunarheimili. Hljóðeinangrandi gler hjálpar mikið en einhvern tíma verða menn að opna glugga.
Reglugerð um hávaða og lögreglusamþykktir kveða á um hversu mikil eða lítil lætin mega vera til að teljast skaðvænleg. Fjöleignahúsalögin kveða á um að menn verði að sýna nágrönnum sínum tillitsemi í þessum efnum og að hávaði megi ekki vera í húsinu frá klukkan tólf á miðnætti til klukkan sjö á morgnana. Enginn viðurkenndur mælikvarði er hins vegar til sem segir til um hvaða hljóð geti talist ertandi eða pirrandi, óþægileg eða skaðleg, þannig að oft vefst fyrir mönnum að greina þarna á milli. Þumalputtareglan er sú að hávaði yfir 85 desibelum skaði heyrn manna. Venjuleg sláttuvél gefur frá sér 85 desibela hávaða. Algengustu vekjaraklukkur eru heldur lágværari en hringing þeirra er á bilinu 60–80 desibel.
Ekki nöldur heldur sjálfsögð krafa
Að vita hversu kraftmikill hávaðinn er nægir heldur ekki því líka skiptir máli hversu lengi menn þurfa að þola hann. Hægt er að slá lóðina hjá sér í fjörutíu og fimm mínútur án þess að það hafi áhrif á heyrnina en ef menn færu að slá eftir langan vinnudag á hávaðasömum vinnustað væri mjög líklegt að heyrn þeirra yrði fyrir einhverjum skakkaföllum. Ef menn fara á hasarmynd og þaðan beint á tónleika er ólíklegt annað en að það hafi varanleg áhrif á heyrnina en fari menn á annað hvort sleppa þeir sennilega óskaddaðir.
Enn einn vandinn er sá að menn eru mismunandi viðkvæmir fyrir hljóðum og ákaflega fjölbreytilegt hvaða hljóð fara í taugarnar á þeim. Samfélagið í heild hefur auk þess ekki verið mjög tilbúið að taka alvarlega umkvartanir þeirra sem búa við hávaða og sinna þeim. Oftast er þetta fólk kallað nöldrarar og umkvörtunum þeirra lítill gaumur gefinn. Á þessu virðist vera að verða breyting því nú er í æ ríkara mæli farið að taka tillit til umferðarþunga og nálægðar við umferðaræðar þegar íbúðahverfi eru skipulögð, hljóðeinangrun húsa er orðin betri og markvisst hefur verið unnið að því að gera vélar þannig úr garði að minna heyrist í þeim.
Skýrsla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, frá árinu 2018 sýndi fram á að hávaðamengun er alvarlegt heilbrigðisvandamál í Evrópu. Skýrslan var byggð á áralöngum rannsóknum fjölmargra sérfræðinga. Í skýrslunni kemur fram að hávaði veldur og ýtir undir, margs konar sjúkdóma. Tíðni hjartasjúkdóma er mun hærri hjá þeim sem búa við hávaðamengun, langtum fleiri glíma við háan blóðþrýsting, sykursýki og stress, svo fátt eitt sé nefnt.
Hlustið vel!
Allir þurfa að þola mikinn hávaða á hverjum degi. Það er hins vegar erfitt að gera sér grein fyrir því hvort við hættum heilsunni á vinnustöðum, heima eða úti á götu. Eftirfarandi listi sýnir hversu mikinn hávaða í desibelum algeng heimilis- og samgöngutæki gefa frá sér.
Bensínknúin sláttuvél: 88-94 desibel.
Hárblásari: 80-95 desibel.
Hringsög: 100-104 desibel.
Inn í hljótt herbergi í borg berst 28-33 desibela hávaði að utan.
Inni í bíl á ferð með glugga opinn: 72-76 desibel.
Lófatölvuspil: 68-76 desibel.
Rafknúin kaffikvörn: 84-95 desibel.
Rafknúin laufsuga: 95-105 desibel.
Ruslabíll meðan verið er að tæma tunnur: 76-83 desibel.
Ryksuga: 84-89 desibel.
Símhringing: 66-75 desibel.
Þota á flugi, 500 fet fyrir ofan jörð, 115 desibel.
Þurrkari: 56-58 desibel.
Tölva gefur frá sér 37-45 desibela hávaða.
Uppþvottavél: 63-66 desibel.
Útvarp: 45-50 desibel.
Venjuleg hljómtækjasamstæða stillt meðalhátt: 100-110 desibel.
Venjulegar samræður: 55-65 desibel.
Viftur og loftræstikerfi: 60-66 desibel.
Reglugerðir er snúa að hávaða
Hávaðamengun er farið með skv. reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Þar eru gefin upp mörk fyrir hávaða sem berast má frá atvinnurekstri og umferð. Þar er skýrt kveðið á um hljóðmörk sem hávaðamengun má ekki fara yfir. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna á að sjá um eftirlit með þessari reglugerð en eftirlitið hér í Reykjavík var lengi það eina sem átti hávaðamæli þannig að á höfuðborgarsvæðinu hefur verið langmest fylgst með þessum málum. Auk þessa hefur Umhverfis- og heilbrigðisnefnd sett mörk fyrir hávaða innan dyra á skemmtistöðum, þau eru sett 95 dB(A) jafngildishljóðstig og 110 dB(A) háværasta hljóðbil. Heilbrigðiseftirlitið hefur einnig eftirlit með því að þessi mörk séu haldin. Að auki er haft eftirlit með hávaða í skólum, líkamsræktarstöðvum og leikskólum. Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með hávaða á vinnustöðum og að þess sé gætt að viðeigandi hlífðarbúnaður sé notaður. Lög um hollustuhætti, öryggi og aðbúnað á vinnustöðum nr. 46/1981 gilda um þessi mál. Einnig gilda reglur um hávaðavarnir á vinnustöðum og heyrnareftirlit starfsmanna nr. 500/1994. Þá hefur lögreglan eftirlit með því að uppfyllt sé krafa um næturró sem kveðið er á um í lögreglusamþykkt og getur því þaggað niður í hávaðapartíum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.