Karl Sigurbjörnsson biskup skildi eftir sig handrit að sjálfsævisögu þegar hann lést í febrúar árið 2024. Hann hafði oft verið hvattur til að skrifa minningar sínar og fjölskyldan hélt að ekki hefði gefist tími til þess en sú var ekki raunin því Skrifað í sand: minningarbrot var að sögn Páls Valssonar ritstjóra bókarinnar nánast fullbúið handrit. Karl segir vel frá og lýsir einkar vel uppvexti sínum og lífinu í Reykjavík um miðja síðustu öld.
Frá barnæsku gegnir trúin stóru hlutverki í lífi hans, enda elst hann upp hjá presti, guðfræðikennara og biskupi. Hann ætlaði hins vegar ekki að leggja guðfræðina fyrir sig. Arkitektúr átt hug hans í æsku en á endanum verður það ofan á að hann menntar sig í guðfræði og tekur prestvígslu. Karl segi vel frá og lýsingar hans á mönnum og málefnum eru skýrar og skemmtilegar. Hann er nýtur sín í preststarfinu og er ekki viss þegar að honum er lagt að bjóða sig fram í biskupsembættið. Það fer samt svo að hann er kjörinn og sest í biskupsstól. Margt finnst honum heillandi og ánægjulegt við starfið en það gustar óneitanlega um embættið í hans tíð. Hann segir frá togstreitu og pólitík innan preststéttarinnar og málum tengdum Ólafi Skúlasyni biskup sem elta sporgöngumann hans inn í embættið og valda miklum sárindum.
Það er mjög áhugavert að fylgja Karli frá barnæsku fram á fullorðinsár. Lífið í Reykjavík hefur mikið breyst sem og hlutverk og staða kirkjunnar. Þegar hann var að alast upp gegndi hún drjúgu hlutverki í lífi barna og var auðvitað þungamiðja í tilveru fjölskyldu hans. Það er gaman að kynnast í gegnum augu hans hversdagslífinu í Reykjavík á þessum árum. Mjög margt hefur breyst og hverfin ekki lengur þau litlu þorp sem þau voru. Samheldnin milli fólks minni og tengslin annars konar. Í bókinni er fjöldi mynda sem bæta miklu við frásögnina og gaman er að skoða.
Karl kemur líka vel til skila þeim hinum langa byggingatíma Hallgrímskirkju og hvernig söfnuðurinn þar átti stóran þátt í að koma kirkjunni upp og því blómlega safnaðarstarfi sem þar var meira að segja í hálfbyggðri kirkjunni. Hér koma við sögu margir einstaklingar sem höfðu áhrif á Karl í námi, starfi og lífinu sjálfu. Það er alltaf athyglisvert að fá innsýn í líf annarra á þennan hátt og margt umhugsunarvert í frásögnum hans.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







