Heldur ellilífeyririnn í við verðbólguna?

Á hverju ári verða líflegar umræður í hópi eldri borgara um hækknir ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, en í  lögum um almannatryggingar er kveðið á um að bæturnar skuli breytast árlega og taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Landssamband eldri borgara hefur iðulega bent á að hækkanir  hjá TR fylgi ekki launaþróun, en um það verður ekki fjallað í þessari grein, heldur um hvort hækkanir síðustu missera hafi haldið í við verðbólguna sem hefur verið á uppleið.

„Ellilífeyrir“  sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins greiðir, hækkar mánaðarlega í takt við hækkun neysluverðsvísitölunnar, samkvæmt lögum sem um það gilda.  Fyrirkomulag lífeyrisgreiðslna úr B-deildinni er þó annað, en þar gildir svokölluð eftirmannsregla. Það sama á því miður ekki endilega við um lífeyirssjóði þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði.  Þar er staðan misjöfn og sumir sjóðir sem töpuðu miklu í fjármálahruninu hafa til að mynda skert lífeyrissjóðsgreiðslur sinna félaga verulega. Þeir eru þannig háðari lífeyri frá TR, en hinir sem voru í  LSR.

Greinarhöfundi Lifðu núna lék forvitni á að vita hvernig ellilífeyrir Tryggingastofnunar hefði þróast í samanburði við verðbólguna, sem byrjaði að fara verulega úr böndunum á síðasta ári, eftir nokkuð langt tímabil stöðugleika. Hann leitaði til fjármálaráðuneytisins varðandi upplýsingar um hækkun ellilífeyris í fyrra og það sem af er  þessu ári og bar saman við verðbólguna á sama tíma. Einnig var spurt um hvaða forsendur hefðu legið að baki hækkununum.

Hækkun ellilífeyris og verðbólga árið 2022.

1.janúar árið 2022 hækkaði ellilífeyrir um 4,6%. Í svari sínu til Lifðu núna vísar ráðuneytið í 69 grein almannatryggingalaganna frá 2007 og segir forsendur hækkunarinnar í samræmi við hana.  Ástæðan fyrir hækkuninni hafi verið tvíþætt. Annars vegar hafi hún byggst á mati á áætluðum meðaltaxtahækkunum á vinnumarkaðinum í heild fyrir árið 2022 sem nam 3,8%.   Vænt verðbólga ársins 2021 var samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands um 4,4%. Því var verðlagshækkun almannatrygginga hækkuð um 0,8% til að hækkun ársins 2021 yrði ekki minni en hækkun verðlags.

Þótt almennt sé ellilífeyrir frá Tryggingastofnun einungis hækkaður einu sinni á ári voru, eins og segir í svari fjármálaráðuneytisins, „bætur“ almannatrygginga  hækkaðar um 3% í júní í fyrra, í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins“. Þetta var ákvörðun umfram ákvæði 69 gr. almannatrygginga og þarna var tekið var viðmið af verðlagsþróun ársins. Samtals hækkun ellilífeyris árið 2022 nam því 7,6%.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands var verðbólga frá upphafi til loka árs 2022, 9,6%  sem er 2% hærra en hækkun ellilífeyris  . Þarna halla því á þá sem fá ellilífeyri frá TR.

Hækkun ellilífeyris og verðbólga árið 2023

Um síðustu áramót, var hækkun „bóta“ almannatrygginga og þar með talið „ellilífeyris“ 7,4% (fyrir árið 2023).  Þessi hækkun var í samræmi við 69. grein laga um almannatryggingar. Hækkunin nam verðbólguspá fyrir árið um 5,5% þar em ekki lágu fyrir kjarasamningshækkanir fyrir komandi fjárlagaár.

Því til viðbótar var tekin sérstök ákvörðun um að hækka bæturnar um 1,3% með hliðsjón af verðlagsþróun yfirstandandi árs (2022), auk þess sem bæturnar voru hækkaðar um 0,5% til viðbótar með hliðsjón af kaupmáttaraukningu. Samanlagt nam hækkun bóta almannatrygginga í fjárlögum 2023 7,4%.

Við þetta má bæra að um mitt þetta ár (2023) var tekin ákvörðun um að bætur almannatrygginga hækkuðu enn frekar um 2,5% til að verja kaupmátt örorku- og ellilífeyrisþega sem var liður í aðgerðum stjórnvalda vegna verðbólgu.   Samanlögð hækkun ellilífeyris þessa árs er því 9,9%.

Tölur um verðbólgu ársins 2023 liggja ekki fyrir ennþá, en frá janúar til og með október hækkaði vísitala neysluverðs um  6%.  Ef verðbólgan verður í lok ársins á svipuðum nótum, verður hækkun ellilífeyris hugsanlega eitthvað meiri en sem nemur hækkun vísitölu neysluverðs frá upphafi til loka árs.  Verði það niðurstaðan hefur ellilífeyrir að meðaltali haldið  í við verðbólguna á síðustu tveimur árum, sem breytir ekki þeirri staðreynd að þeir sem eru eingöngu með lífeyri frá TR eru með tekjur undir lágmarkslaunum í þjóðfélaginu.

Erna Indriðadóttir skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn nóvember 24, 2023 07:00