Ef þú átt sumarbústað sem þú hefur í hyggju að selja þá skaltu gera það áður en þú hefur töku lífeyris. Söluhagnaður af sumarbústaðnum skerðir lífeyrisgreiðslur. Ef þú ert í þeirri stöðu að vera lífeyrisþegi og átt sumarbústað sem þú vilt selja þá borgar sig að taka skerðinguna út á einu ári. Það er fá bústaðinn greiddan að fullu á einu ári, annars skerðir söluhagnaðurinn lífeyririnn jafn lengi og fólk er að fá bústaðinn greiddan að fullu. „Almennt hefur sala á sumarbústað þau áhrif að söluhagnaður verður til sem er skilgreindur sem fjármagnstekjur á skattframtali. Fjármagnstekjur hafa áhrif á réttindi hjá TR. Það skiptir ekki máli hvernig greiðslur fyrir sumarbústaðinn fara fram. Horft er á söluhagnaðinn sem verður til samkvæmt skattframtali þegar réttindi eru reiknuð út. Fjármagnstekjur eru alltaf sameign hjóna og hafi t.d. sumarbústaður verður seldur og söluhagnaður myndast fyrir 10 milljónir króna, teljast 5 milljónir fjármagnstekna á hvorn aðila um sig. Hægt er að dreifa söluhagnaði á tíu ár hjá TR en í flestum tilfellum kemur betur út að taka á sig skerðingu eitt ár vegna sölu á sumarbústað en það verður að meta hverju sinni,“ segir í svari frá TR.
Lifðu núna spurðist fyrir um það hjá Tryggingastofnun hversu mikið ellilífeyrir hjóna myndi skerðast ef það seldi bústað sem færi á tíu milljónir, 20 milljónir og 25 milljónir. Til að gera málið einfaldara var lagt upp með að hjónin hefðu engar aðrar tekjur en þær sem þau fá frá TR. Svarið var að það væri eiginlega ómögulegt að gefa einhlítt svar við þessum spurningum. Það væru ótal þættir sem þyrfti að taka með í reikningin svo sem atvinnutekjur, greiðslur frá lífeyrissjóðum og aðrar tekjur. „Réttindi hjá TR eru tekjutengd og hafa lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur og fjármagnstekjur áhrif. Einnig hefur áhrif hvort viðkomandi býr einn eða ekki. Þá er 25 þús. kr. frítekjumark samanlagt á allar tekjur á mánuði sem hefur einnig áhrif á réttindi. Tekjutengd réttindi eru endurreiknuð árlega þegar staðfest skattframtal liggur fyrir frá Ríkisskattsjóra,“ segir ennfremur í svari TR.
Hins vegar ráðlegðu starfsmenn TR fólki að selja áður en það færi á eftirlaun og ef það skuldaði í íbúðarhúsnæðinu sínu að nota þá peningana sem fást fyrir bústaðinn til að greiða upp skuldir. Því allir fá sama lífeyri óháð skuldum og eignum.
Til að reyna að glöggva sig á því hversu mikið söluhagnaðurinn af bústaðnum myndi skerða lífeyrisgreiðslur ráðleggur TR fólki að nota reiknivélina sem er að finna inn á heimasíðu TR. Í haust ætlar TR svo að halda námskeið fyrir fólk 60 ára og eldra þar sem meðal annars verður fjallað um hvernig söluhagnaður af eignum getur skert lífeyri og það hvernig fólk eigi að búa sig undir efri árin.