Það er misjafnt hversu lagvissir menn eru og hvort þeir geta dansað í takt, það þekkjum við öll. Hjá Íslenskri erfðagreiningu er í gangi rannsókn á erfðaþáttum að baki tóneyra og taktvísi. Með því að taka þátt í rannsókninni á vefnum Tóneyra.is geta menn fengið úr því skorið hvort þeir eru með næmt tóneyra og taktskyn eða gætu mögulega talist með röskun á þessu sviði. Rósa Signý Gísladóttir vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu sér um rannsóknina. Hún er doktor í sálfræðilegum málvísindum.
Rannsaka skynjun á tónum og takti
Rósa segir að hvatinn að rannsókninni hafi verið fyrirbæri sem kallað er tónblinda. Þeir sem eru haldnir henni eigi erfitt með að greina tónhæð og falskar nótur. Það er talið að milli 1,5 til 4% fólks í heiminum séu með tónblindu. „Taktblinda er samsvarandi fyrirbæri, en þeir sem eru með hana eiga erfitt með að skynja takt og hreyfa sig í takt við tónlist“, segir Rósa. Það hafi sýnt sig að einkum taktvísi haldist í hendur við málþroska barna og lesblindu. „Við rannsökum tónskynjun og taktskynjun og höfum áhuga á öllu rófinu, bæði þeim sem eru góðir í takti og tónum, til dæmis tónlistarfólki, og hinum sem eiga erfitt með þetta“.
Darwin hélt að öll dýr gætu skynjað takt
Rannsóknin er hluti af grunnrannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar á erfðaþáttum sem hafa áhrif á starfsemi heilans. „Ég er málfræðingur og hef áhuga á tengslunum milli taktskynjunar og tungumálsins. Þeir sem eiga erfitt með að klappa í takt eru oft með lakari tilfinningu fyrir málhljóðum. Taktskynjun er líka áhugaverð því að Darwin hélt því fram að öll dýr gætu skynjað takt, en rannsóknir hafa sýnt að taktskynjun er mjög sjaldgæfur eiginleiki í dýraríkinu. Það að geta hreyft sig í takt krefst þess að menn geti myndað spár um hvenær næsti taktur kemur og það er það sem flest dýr eiga erfitt með. Dýr eins og páfagaukar og fílar virðast geta hreyft sig í takt en það eru einmitt dýr sem eru þekkt fyrir að geta myndað og lært flókin munnleg hljóð. Ein kenning er að taktskynjun hafi þróast sem einhver konar aukaafurð af getunni til að mynda flókin hljóð.“
Héldu að þeir væru laglausir en voru það ekki
Ransóknin hófst í febrúar á þessu ári. Fram að þessu hafa 14.500 manns tekið þátt í henni og Rósa segir fólk hafa haft gaman af þátttöku, en við lok verkefnisins fá þátttakendur upplýsingar um frammistöðu sína. Niðurstaðan hafi komið sumum á óvart, þeir héldu kannski að þeir væru laglausir en reynast vera með fínt tóneyra. Eldra fólk hefur verið duglegt að taka þátt og Íslensk erfðagreining á lífsýni frá mörgum í þeim hópi sem hægt er að para niðurstöður við. „Það getur hver sem er, 18 ára og eldri, tekið þátt í rannsókninni á Tóneyra.is. Til að taka þátt þarf að nota rafræn skilríki, svara spurningalista um tónlistarþjálfun og fleira og leysa stutt verkefni með tón- og taktdæmum. Og við höfum áhuga á öllum, bæði þeim sem telja sig sérstaklega færa í þessu og hinum sem halda að þeir séu laglausir, og allt þar á milli“, segir hún að lokum.