Ekki hægt að panta fyrirfram í kirkjugarðinum

Frímann Andrésson

Frímann Andrésson

Sjálfsagt hafa ýmsir leitt hugann að því hvar þeir vilja láta jarða sig og í sumum tilvikum eiga menn vísan legstað hjá maka sem er látinn eða öðrum ættingjum. Fyrir þá sem ekki eiga vísan stað í kirkjugarðinum er staðan hins vegar flóknari. Mæðgur sem vilja hvíla á sama stað þegar þar að kemur, höfðu samband við útfararstjóra til að spyrjast fyrir um hvort hægt væri að panta legstað í Gufunesgarðinum, en það reyndist ekki vera mögulegt. „Það er ekki hægt að panta fyrirfram svo því sé svarað“, sagði Frímann Andrésson útfararstjóri hjá Frímann og Hálfdán – Útfararþjónustu, þegar Lifðu núna bar þetta undir hann.

Taka ekki frá mörg pláss

Þeir sem eiga pláss í kirkjugarðinum, eru þeir sem hafa til dæmis misst maka, en þegar maki deyr er yfirleitt tekið frá pláss fyrir eftirlifandi maka við hlið hans. „Hér áður fyrr létu menn stundum taka frá 3-4 pláss við hlið þess sem andaðist, en nú hefur því verið hætt“, segir Frímann. „Þá var þetta kannski hugsað fyrir ógiftan son, sem átti svo eftir að gifta sig og eignast börn. Þannig urðu til pláss sem aldrei voru notuð“.  Frímann segir að það sé auðsótt mál að taka frá pláss fyrir maka, en ef menn vilji bæta við þriðja leiðinu þurfi þeir að vera búnir að hugsa það mál til enda. Hann nefnir sem dæmi að sótt hafi verið um að fötluð dóttir myndi fá að hvíla milli foreldra sinna í kirkjugarðinum og það hafi verið auðsótt mál.

Duftker stundum  grafin í leiði þar sem er kista

Hólavallakirkjugarður í Reykjavík og Fossvogskirkjugarður eru nánast fullgrafnir. Þar verður ekki bætt við nýjum gröfum, nema fyrir þá sem eiga þar pláss við hlið ættingja, og þá sem láta brenna sig og eru grafnir niður í leiði til dæmis hjá maka eða foreldrum.  Það má jarðsetja duftker ofaná leiði þar sem kista hefur verið grafin. „Það komast 8 – 10 duftker ofaná venulega gröf þar sem kista er undir og stundum hugsa menn sér það sem fjölskyldugrafreit“, segir Frímann. Hann segir að umsjónarmaður leiðanna sé alltaf skráður. Það sé kannski eftirlifandi maki, en þegar hann falli frá, taki nánustu aðstandendur hans við.  Sólland er nýjasti duftgarðurinn í Reykjavík, en hann er milli Perlunnar og Fossvogskirkjugarðs. Þar er gert ráð fyrir að tvö ker geti verið saman í hverjum reit, en eins og fram hefur komið hefur bálförum fjölgað mikið hér á landi á síðustu árum og um 45% þeirra sem deyja á höfuðborgarsvæðinu kjósa að láta brenna sig. Frímann segir að það eigi ekki hvað síst við um yngra fólk.

Kirkjugarður fyrir ofan Bauhaus

Mæðgurnar sem vilja hvíla saman og eiga ekki grafreit, verða að bíða þar til önnur þeirra fellur frá, en þá getur sú sem eftir lifir pantað pláss við hlið hinnar.  Ef sú eldri lætur jarðsetja sig í kistu, en sú yngri lætur brenna sig, er hægt að setja duftkerið í sama leiði ofaná kistuna.  Kirkjugarðarnir á höfuðborgarsvæðinu þar sem enn er verið að taka ný svæði í  notkun, eru Gufuneskirkjugarður, Kópavogskirkjugarður, Lágafellskirkjugarður í Mosfellssveit, Hafnarfjarðarkirkjugarður og Garðakirkjugarður. Næsti kirkjugarður Reykvíkinga þegar ekki verður lengur hægt að bæta við nýjum grafreitum í Gufunesi, verður í hlíðum Úlfarsfells fyrir ofan Bauhaus verslunina.

 

Ritstjórn september 14, 2016 11:41