Eftirrétturinn – bara fyrir áramótakvöldverðinn

Við vitum að við eigum ekki að borða mikinn sykur. Tönnlumst á því við börnin sí og æ. En um hátíðirnar slaka margir á með fyrirheit um að á nýju ári skuli nú aldeilis tekið á því. Matarvenjur teknar í gegn og heilbrigður lífsstíll tekinn upp. Og af því það á að gerast eftir áramótin er hér uppskrift að eftirrétti sem fellur undir óhollustu. En maður verður nú að leyfa sér einu sinni á ári, eða er það ekki? Hér er allavega uppskrift að syndsamlega góðum eftirrétti:

140 g smjör

140 g 70% Nóa Síríus súkkulaði

2 egg

3 eggjarauður

140 g flórsykur

60 g hveiti

Hitið ofninn í 220 °C (ekki nota blástur). Smyrjið 6 lítil soufflé-form eða bolla með smjöri. Gott er að baka eina köku fyrst til að bökunartíminn passi örugglega! Látið smjör og súkkulaði í pott og bræðið við vægan hita. Takið af hitanum um leið og smjörið er bráðið og hrærið vel þangað til súkkulaðið hefur bráðnað líka. Þeytið egg og eggjarauður í skál og setjið svo flórsykurinn út í og þeytið vel. Hellið súkkulaðiblöndunni út í og þeytið saman. Sigtið hveitið að lokum út í og hrærið saman. Hellið deiginu í formin, u.þ.b. 1 dl í hvert form og gætið þess að fylla þau ekki alveg. Setjið formin á plötu eða í ofnskúffu og bakið kökurnar í 11-12 mínútur (ath. án blásturs) og þá verða þær blautar að innan og súkkulaðið lekur út. HIMNESKT! Takið kökurnar út og látið kólna í u.þ.b. 3 mínútur. Rennið hnífsblaði í kringum kökurnar til að losa um þær og hvolfið þeim á diska. Fallegt er að sigta svolítnn flórsykur yfir kökurnar en er algerlega ónauðsynlegt. Berið kökurnar fram með ís eða rjóma og ávöxtum og berjum en líka er gott að bera þær fram með hindberjasósu sem fæst tilbúin, t.d. í Melabúðinni.

Ritstjórn desember 31, 2021 07:00