Glæpsamleg matreiðsla

Crimes Glacēs, matreiðslubók með 50 uppskriftum innblásnum af norrænum glæpasögum, kom nýverið út í Frakklandi. Hugmyndin virðist nokkuð langsótt og líka það að Árni Þórarinsson, rithöfundur, skrifar formálann, en hann hefur – fram til þessa að minnsta kosti, ekki getið sér orð fyrir að hafa mikið vit á mat og matargerð. Auk þess sem fátt er um matarlýsingar í bókum hans um Einar rannsóknarblaðamann, sem einkum nærist á bollasúpum, eða öðrum bókum eftir hann ef því er að skipta.

Höfundar matreiðslubókarinnar eru hjónin Anne Martinetti og Guillaume Lebeau, miklir Íslandsvinir og sérstakir aðdáendur Sigurrósar. Árni kveðst hafa kynnst þeim lítillega á bókamessum í Frakklandi þar sem Lebeau hafi til dæmis stjórnað pallborðsumræðum. ,,Á einni slíkri sat ég með þeim til borðs. Við tókum tal saman og þá bar fyrirhugaða matreiðslubók þeirra á góma. Mér fannst hugmyndin mjög sniðug en kannski ekki eins sniðugt þegar þau báðu mig að skrifa formálann. Trúlega hef ég verið frekar óljós í svörum því mörgum mánuðum síðar sendu þau mér tölvupóst, útlistuðu hugmyndina nánar og kölluðu eftir formálanum.”

Í stökustu vandræðum

Þá var Árni búinn að steingleyma hugmyndinni og hafði raunar ekki talið mikla alvöru búa að baki því að fá hann ,,af öllum mönnum”, til að skrifa í matreiðslubók. Aukinheldur gat hann ekki ímyndað sér hvernig þau gætu mögulega nýtt sér og fengið innblástur af fábrotnum matarlýsingum í bókum hans, ef þær væru yfir höfuð í þeim að finna. ,,Ég var í stökustu vandræðum, en vildi þó ekki bregðast þessum viðkunnanlegu hjónum svo ég lagði höfuðið í bleyti um hvernig ég kæmist skammlaust frá verkefninu,” segir Árni. Sem honum greinilega tókst því í bókinni er fyrrgreindur formáli, sem hér fer á eftir og lýsir breytingum á matarvenjum Íslendinga í áranna og aldanna rás:

1963:

“Ég vil’etta ekki, mamma!”

“Láttu ekki svona, elskan. Þú verður að borða. Svo þú verður sterkur og stór.”

“Mér finnst þorskur vondur.”

“En hann er svo hollur.”

“Nei, hann er vondur.”

“Þú færð lærissneiðar á morgun.”

“Þær eru seigar.”

 

2013:

“Hvað er í matinn, pabbi?”

“Ja, þú mátt velja á milli spaghetti carbonara, kjúklings í panam eða boeuf bourguignon.”

“Ég vil pítsu.”

 

Þarf að segja meira?

Kannski þetta: Gegnum aldirnar var íslenskur matur einkum matur. Honum var ætlað að seðja hungur fólks sem vann mikið en uppskar minna. Fiskur. Kindur. Súrmeti. Mjólk. Egg. Matur var matur fremur en matreiðsla. Meðferð hráefnisins fólst einkum í varðveislu þess, geymsluaðferðinni yfir kaldan vetur. Bragð var í rauninni aukaatriði. Aðalatriðið var að fólk yrði satt, mett, fengi nægilega orku til næsta vinnudags, næstu vertíðar.

Það eimir enn eftir af þessum gömlu íslensku matarvenjum í svokölluðum “þorramat” sem sumum nútímaneytendum finnst góður, aðrir borða eins og þeir séu að sigrast á þolraun, og margir forðast eins og pláguna. Sviðakjammi. Súrsaður hrútspungur. Kæstur hákarl. Takk.

Þegar leið á 20. öldina fór loksins eitthvað að þróast í íslenskum eldhúsum: Danska heimilismatreiðslan, ameríski skyndibitinn og upp úr 1980 byltingin mikla þegar Íslendingar fóru almennt að matreiða og borða skandinavískt, ítalskt, franskt, spænskt og asískt, eftir því sem þeir ferðuðust meira til útlanda og fleiri útlendingar fluttust hingað. Um leið byrjuðu íslenskir kokkar að endurskoða náttúruleg hráefni sem landið og miðin gefa af sér og þróa eigin matreiðslu þeirra. Ný íslensk matargerð varð til. Og núna fá fersk íslensk hráefni loksins þá meðferð sem þau áttu skilið, matreidd undir fjölmenningarlegum, alþjóðlegum en einnig þjóðlegum áhrifum, hvort heldur sem er á heimilum eða veitingahúsum. Loksins var bragðið orðið aðalatriði.

Íslenskar glæpasögur spegla þessa þróun, ekki síður en aðrar samfélagsbreytingar. Við, sem skrifum þær, leggjum þó mismikla áherslu á mat og matargerð í sögunum. Sögu”hetja” mín, Einar blaðamaður, grípur gjarnan pulsu í erli glæparannsókna eða fær sér bollasúpu heima á kvöldin. Hjá foreldrum sínum fær hann hefðbundið íslenskt sunnudagslæri. En þegar hann vill ganga í augun á Gunnsu dóttur sinni eða gera hosur sínar grænar fyrir fallegri konu leggst hann stundum í flóknari matreiðslutilraunir sem heppnast misvel. Ef hann kæmist í þessa hugmyndaríku og skemmtilegu matreiðslubók væri honum borgið. Hann myndi rannsaka uppskriftirnar eins og spennandi ráðgátur og ég efast ekki um að lausnirnar kæmu á óvart.

Einar segir: Hittumst í eldhúsinu, en passið ykkur á hnífunum!

 

Innblásin af bókum um 40 norrænna glæpasagnahöfunda

Að öðru leyti kveðst Árni ekki hafa haft frekari aðkomu að bókinni, höfundarnir hafi spilað af fingrum fram, innblásnir af misítarlegri matarumfjöllun í bókum höfundanna. ,,Í Tíma nornarinnar, bjóða Gunnsa og Raggi, kærasti hennar, Einari upp á tælenskan kjúkling, og í Dauða trúðsins er minnst á sunnudagslambalæri hjá foreldrum hans. Höfundarnir gerðu sér einfaldlega mat úr þessum fátæklegu upplýsingum og bera fram með sínum hætti á borð fyrir lesendur Crimes Glacēs,” segir Árni og bætir við að réttirnir líti afar girnilega út á myndunum í bókinni.

Anne Martinetti og Guillaume Lebeau fengu einnig innblástur úr bókum glæpasagnahöfundanna Arnalds Indriðasonar, Yrsu Sigurðardóttur, Jón Halls Stefánssonar og Stefáns Mána sem og rithöfundanna Jóns Kalman Stefánssonar og Ólafs Hauks Símonarsonar, en bækur eftir þá alla hafa verið þýddar á frönsku.

Af öðrum norrænum bókum, sem veittu þeim hjónum innblástur, má nefna bækur eftir Hennig Mankell, Jo Nesbø, Camilla Läckberg, Jussi Adler-Olsen og Peter Høeg auk bóka eftir um þrjátíu aðra höfunda.

Útgefandi er Marabout. Bókin er 220 blaðsíður, kaflaskipt eftir löndum, ríkulega skreytt myndum frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og kræsilegum réttum frá þeim öllum.

 

Ritstjórn júlí 1, 2014 15:35