Sextíu kíló af Hallgrími – hvert gramm þess virði

Hvað í ósköpunum var höfundur að hugsa? Þessi spurning kviknar án efa reglulega í kolli allra bókaunnenda þegar þeir lesa. Stundum tekur sagan óvænta stefnu eða höfundur lætur vonda hluti henda sögupersónu sem á það alls ekki skilið. Allt slíkt vekur undrun, stundum reiði, pirring eða ánægju eftir því hvernig þráðurinn spinnst svo. Fágætt tækifæri til að fá innsýn í hugarheim höfundar gefst á námskeiðinu Sextíu kíló af Hallgrími í Endurmenntun HÍ.

Undirrituð situr þetta námskeið og fyrsta skiptið af þremur var miðvikudaginn 6. mars. Hallgrímur og Silja Aðalsteinsdóttir leiddu þátttakendur í gegnum bókina Sextíu kíló af sólskini og ræddu upphafið, umhverfislýsingar, persónusköpun, heimildavinnu og ótalmargt fleira. Hallgrímur sagði frá hvernig hugmyndir kviknuðu, sýndi glósurnar sínar og sagði frá því flókna ferli sem á sér stað frá því hugmynd kviknar og þar til hún er komin á blað. Auða hvíta blaðið sem Eilífur Guðmundsson gengur inn á í byrjun sögunnar.

Silja Aðalsteinsdóttir fjallar um bækur Hallgríms frá bókmenntafræðilegu sjónarhorni og varpar á sinn einstaka hátt ljósi á uppbyggingu þeirra og sérstöðu. Silja er líka næmur og glöggur lesandi og varpaði fram mörgum umhugsunarefnum sem hugsanlega hafa farið framhjá einhverjum eða ekki vakið miklar vangaveltur þegar bækurnar voru lesnar. Æsa Bjarnadóttir ritstjóri Hallgríms mun síðan lýsa hvernig er að ritstýra höfundi og eiga þátt í tilurð skáldverka af þessari stærðargráðu.

Það er mikið verk að setja saman skáldverk með mörgum persónum en þegar viðbætist að byggja upp heilan bæ, skapa þar borgarmenningu og lýsa stemningu í kringum efnhagsleg uppgrip sem eiga sér fáa sína líka í sögu þjóðarinnar verða sögur Hallgríms hreinlega afrek. Sú upplifun til viðbótar að taka þátt í jafnathyglisverðu námskeiði og Sextíu kíló af Hallgrími virðist ætla að verða er hrein skemmtun.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 8, 2024 13:50