Hið umdeilda bros Aimee Lou Wood  

Þriðja þáttaröðin í sjónvarpsseríunni The White Lotus er farin í loftið. Um sjálfstæðar sögur er að ræða í hverri seríu en oftast eru ein eða fleiri persónur úr fyrri þáttum sem koma fyrir. Að þessu sinni gerist sagan á hóteli White Lotus-keðjunnar í Taílandi. Í fyrri þáttaröðum sló Jennifer Coolidge gersamlega í gegn en að þessu sinni er það hvorki söguþráðurinn eða leikur einhverra leikara sem vekja athygli heldur tennur leikkonunnar Aimee Lou Wood. Fremstu tennurnar eru sem sé nokkuð stórar og framstæðar og þar sem þetta er galli, sem auðvelt væri fyrir tannréttingasérfræðinga að laga, velta menn sér endalaust upp úr þessu.

Sitt sýnist hverjum um að hvort hún hefði átt eða ætti að láta laga tennurnar. Sumum finnst þetta gefa henni karakter en aðrir segja að þetta sé truflandi, skekki bitið og stúlkan sé að skapa ónauðsynlegt álag á kjálka sína. En þótt sú umræða sé út af fyrir sig áhugaverð fyrir tannlækna er hitt miklu athyglisverðara að smávægilegur breytileiki tanna skuli vekja svona mikla athygli. Það segir okkur einfaldlega hversu langt við erum komin frá náttúrulegu útliti þegar kemur að stjörnum og áberandi fólki og jafnvel að venjulegum hversdags-Jónum og Gunnum. Það er æ algengara að smíðaðar séu postulínsskeljar yfir tennur manna og þær gerðar fullkomnar á allan hátt og þeir sem eru svo heppnir að hafa góðar tennur láta hvítta þær þar til þær skína. Postulínsskeljar af þessu tagi komu fyrst fram á sjónarsviðið á seinni hluta þriðja áratugarins þegar Charles Pincus smíðaði slíkar yfir tennur þeirra Joan Crawford og Judy Garland.

Í nýlegu viðtali sagði Aimee frá því að leikstjórinn, Mike White, hafi sagt við hana þegar hann hringdi og bað hana að koma í áheyrnarprufu fyrir þættina að persóna hennar yrði að vera bresk því enginn Bandaríkjamaður væri með svona tennur. Svo algengar eru tannréttingar, postulínsskeljar og postulínstennur í Bandaríkjunum að enginn þar í landi myndi brosa væri hann með svipaðar tennur og Aimee. Þess er líka skemmst að minnast að þegar Keira Knightley skaust fyrst upp á stjörnuhimininn vestan hafs vöktu ofurlítið skakkar tennur hennar svo mikla athygli að í viðtali við CBS-sjónvarpsstöðin var hún spurð hvort hún ætlaði ekki að láta laga þær.

Dýrt spaug

Samt eru fegrunartannviðgerðir rándýrar og hin fullkomna tönn kostar á bilinu 3500-5000 dollara. Þess vegna eru Bandaríkjamenn farnir að ferðast til annarra landa, m.a. Mexíkó, Brasilíu og Ungverjalands til að fá rétta brosið ódýrara en það býðst í heimalandinu. Samkvæmt fjölmiðlum þar í landi er það ekki hættulaust því á móti tannferðalangnum taka mismunandi hæfir tannlæknar sem með mismunandi háan hreinlætisstuðul. Eins og við mátti búast eru það ekki eingöngu Bandaríkjamenn sem eru tilbúnir að leggja ýmislegt á sig fyrir hið fullkomna bros. Í könnun sem gerð var í Ástralíu kom fram að meirihluti aðspurðra var tilbúinn að leggja á sig sársaukafullar aðgerðir hjá tannlækninum ef það mætti bæta útlit tannanna.

Bandarískir tannlæknar eru farnir að mæla með að börn byrji sjö ára í tannréttingum og öðrum aðgerðum til að tryggja útlit tannanna á fullorðins árum og búist er við því að tannlæknastofur sem sérhæfa sig í fegrun tanna muni þrefalda veltu sína á næstu fimm árum. Engin kreppa sjáanleg hjá þeim forsjálu nemendum sem völdu sér það fag í háskóla.

Fegrunaraðgerðir þykja sjálfsagðar 

Og þetta á ekki bara við um tennur. Í dag hafa um það bil 80% Bandaríkjamanna gengist undir einhvers konar fegrunaraðgerðir og engin ástæða til að ætla að hlutfallið sé lægra hér. Algengustu aðgerðirnar eru augnlokaaðgerðir, nefaðgerðir og brjósta- eða rassstækkanir. Nú og svo eru smærri inngrip eins og varafyllingar, hrukkumeðferðir og fituflutningar til að stækka kinnbein. Fyrir ekki svo löngu var leitun að ungri konu sem ekki var með brjóstapúða en í dag sjást aftur lítil brjóst, sennilega vegna þess að margar konur urðu hræddar þegar uppgötvaðist að sumir púðanna voru ekki öruggir og láku eiturefnum út í líkamann.

Í Hollywood hafa fegrunaraðgerðir lengi þótt svo sjálfsagðar að það taldist til tíðinda þegar Barbra Streisand sagðist ekki ætla að láta laga á sér nefið. Hún væri of hrædd við að það gæti breytt rödd hennar og raddsviði ef hún léti eiga við það. Það sætir einnig tíðindum ef leikkonur og leikarar kjósa að nota ekki botox eða aðrar hrukkeyðandi aðgerðir. Hér áður fyrr þótti það til marks um að manneskja vildi eldast með reisn að hún litaði ekki hár sitt og leyfði hrukkunum að dýpka óáreittum. Nú hefur þetta snúist við. Að eldast með reisn á við um þær manneskjur sem nýta sér allar framfarir og nýjustu tækni í yngingarmeðferðum og aðgerðum. Kannski er þess vegna svo hressandi og áhugavert að sjá unga manneskju á skjánum sem ánægð með sjálfa sig eins og hún er.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 22, 2025 07:00