Ríkisstjórnin hefur sett sér metnaðarfull markmið um rafvæðingu bílaflotans á Íslandi, en þau eru liður í því að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og stefnu stjórnvalda um kolefnishlutleysi þjóðarbúsins eigi síðar en árið 2040. Til að flýta fyrir rafvæðingunni hafa stjórnvöld innleitt ýmsa hvata, ekki síst afslátt af aðflutningsgjöldum rafbíla. En hvernig horfa þessi mál við eldra fólki hér á landi? Er skynsamlegt fyrir það að losa sig við bensín- og díselbíla sína og renna hljóðlega inn í mengunarminni framtíð á nýjum rafmagnsbíl? Lifðu núna kannaði málið.
Þegar líður að starfslokum og eftirlaunaárin eru framundan er meðal áleitinna spurninga hvort skynsamlegt sé að endurnýja bílakost heimilisins. Allir sem þessa dagana standa frammi fyrir ákvörðunum um bílakaup þurfa að gera það upp við sig hvort þeir skipti yfir í rafmagnsbíl og leggi þannig sitt af mörkum til að gera Ísland minna háð jarðefnaeldsneyti og dragi úr kolefnisfótspori sínu og landsins alls.
Reyndar hafa eldri bílkaupendur lengi ráðið miklu um það hvaða bílar eru fluttir nýir inn til landsins. Það er ekki síst fólk sem komið er yfir miðjan aldur sem kaupir nýja bíla, í því skyni að tryggja að þurfa ekki að hafa áhyggjur af viðhaldi. Og temur sér jafnvel að skipta upp í nýjan bíl á þriggja ára fresti eða svo. Þar sem afföll af verði bíla eru að jafnaði mest fyrstu tvö til þrjú árin tekur þetta fólk á sig mikinn kostnað. En á þetta líka við um rafbíla?
Borgar sig
Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands, telur að allar forsendur séu til að það borgi sig að eiga rafbíla lengur. Hann segir að reynslan af rekstri rafbíla á Íslandi hafi sýnt að fyrir utan rafmagnskostnaðinn – sem er aðeins brot af eldsneytiskostnaði hefðbundinna bifreiða, sjá t.d. rafbílareikni Orkuseturs – þá falli sáralítill viðhaldskostnaður til. Í vélbúnaði rafbíla eru miklu færri hreyfanlegir hlutir en í hefðbundnum bílum, og þannig færri slithlutir. Engin þörf sé t.d. á reglulegum vélarolíuskiptum. Þá bjóði langflestir framleiðendur rafbíla margra ára ábyrgð á drifrafhlöðunni, oft til 7-8 ára, og oft fylgir nokkurra ára þjónusta umboðsaðila með í kaupunum einnig. Það séu því allar forsendur fyrir því að eiga rafbíl lengur en hefðbundna bíla, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af viðhaldi.
Reyndar má gera ráð fyrir að þeir rafbílar sem fluttir eru til landsins með þeim rausnarlega afslætti af aðflutningsgjöldum sem enn er í gildi muni halda háu endursöluverði alllengi. Loftslagsaðgerðir stjórnvalda eiga hins vegar vafalaust eftir að gera það ennþá dýrara að kaupa og reka bensín- og díselbíla, minnka eftirspurn eftir þeim og lækka endursöluverð þeirra. Fjárhagslega getur það því verið mjög farsæl ákvörðun að kaupa rafbíl, sérstaklega svo lengi sem niðurgreiðsla á verði þeirra er í boði. Skattheimta af rafmagni er líka aðeins brot af núgildandi eldsneytisgjöldum. Í framhaldsgrein verður nánar rýnt í rekstrarumhverfi rafmagnsbíla og horfur á þróun þess fram í tímann.
Hentar rafmagnsbíll mér?
Enn sem komið er henta rafmagnsbílar fólki þó misvel, ekki síst m.t.t. búsetu (borg/dreifbýli). Þótt hleðsluinnviðir séu í óða önn að batna hringinn í kringum landið, þá geta langferðir með rafbíl enn verið nokkrum vandkvæðum bundnar. Sérstaklega á háanna-ferðatímum eins og t.d. um verslunarmannahelgina, þegar biðraðir myndast gjarnan við hleðslustöðvar úti á landi. En slíkar aðstæður eru undantekning.
Rafbíll hentar best þar sem unnt er að hlaða hann yfir nótt á „heimarafmagni“. Þó er alveg hægt að komast af án heimahleðlsu, sérstaklega ef hleðsla er í boði á vinnustaðnum. Eftir því sem opinberum hleðslustæðum fjölgar verður líka auðveldara að hlaða rafbílinn í nágrenni við heimilið þótt heimahleðsla sé ekki (enn) í boði. Rafhlöður nýrra rafbíla eru flestar orðnar það stórar – þ.e. orkugeymslugeta þeirra það mikil – að það nægir fyrir meðalakstur að „fylla á“ þær einu sinni til þrisvar í viku. Fyrir þann sem þarf að aka að jafnaði lengri vegalengdir en sem nemur drægni rafmagnsbíls er hins vegar spurning hversu skynsamleg rafbílakaup væru. Þeir sem þurfa aftur á móti bara endrum og eins að komast í lengri ferðir geta vel vanist því að gera það á rafmagnsbíl. Eftir því sem tækninni fleygir fram, innviðir byggjast upp og drægni rafbíla eykst mun það henta fleira og fleira fólki að skipta yfir í al-rafdrifinn bíl og nýta þannig mengunarlausa innlenda orku til að komast leiðar sinnar í stað innflutts, mengandi eldsneytis.
Málamiðlanir liðin tíð
Í fyrstu voru flestir rafmagnsbílar að grunni til hefðbundnir bílar, hannaðir fyrir eldsneytisknúnar vélar. Þetta leiddi til alls konar málamiðlana, ekki síst hvað varðar pláss í innan- og farangursrými. En nú er þetta breytt: flestir nýir rafmagnsbílar eru hannaðir frá grunni sem slíkir, eða eru hannaðir til að vera knúnir mismunandi gerðum driflínu. Útkoman er sú að rafmagnsbílar hafa nú í flestum tilvikum uppá alveg sambærilegt pláss og farangursrými að bjóða og hefðbundnir bensín- og díselbílar. Meira að segja dráttargeta þeirra slær nú jafnvel öflugum díselbílum við.
Það liggur hins vegar í hlutarins eðli að rafmagnsbílar eru gjarnan þyngri en sambærilegir bensín- og díselbílar; stórir rafgeymar eru óhjákvæmilega þungir. Þetta hefur vissulega áhrif á aksturseiginleikana. En þar sem rafgeymarnir eru venjulega byggðir inn í gólf rafbíla er þyngdarpunkturinn lágur, og þannig lágmarkast áhrifin af hinni auknu þyngd á rásfestu og beygjuhegðun bílsins. Reyndar fylgja rafdrifi eiginleikar sem mörgum mun þykja eftirsóknarverðir. Í fyrsta lagi er það mögnuð upplifun að líða áfram í gegnum umferðina nánast hljóðlaust. Í borgarumferðinni hægir rafmagnsbíll sjálfkrafa á sér um leið og inngjöfinni er lyft (rafmótorinn nýtir snúningsátakið til að endurvinna rafmagn úr hreyfingu bílsins). Það er því hægt að keyra rafmagnsbíl út um alla borg nánast án þess að stíga nokkurn tímann á bremsuna.
Afslappaðri akstur
Þetta hefur í för með sér að upplifunin af því að keyra rafmagnsbíl er að öllu jöfnu afslappandi. En þar sem rafmótorar hafa allt sitt afl til reiðu frá nánast núll snúningum og uppúr, ólíkt brunahreyflinum (þ.e. hefðbundinni bílvél), er snögg hröðun úr kyrrstöðu dæmigerð fyrir alla rafbíla. Margir rafbílar fara því létt með að „jarða“ jafnvel öflugustu bensínbíla í gatnamótaspyrnu. Að sumu leyti útheimtir það að keyra rafbíl endurskoðun á því hvernig maður hugsar um akstur. Maður tileinkar sér ósjálfrátt mýkri, afslappaðri akstursstíl, sem miðar að þvi að ná sem mestri drægni út úr hverri rafgeymahleðslu, en þetta skilar manni gjarnan afslappaðri og endurnærðari á áfangastað en annars væri. Og hver vill það ekki?
Framhald eftir viku.
Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar