Ein hleðsla ekki nóg – en það er ekki vandi

Fyrr á þessu ári fjallaði Lifðu núna um „rafbílabyltinguna“ og það hvernig hún horfir við eldra fólki á Íslandi. Meðal niðurstaðna í þeim greinaflokki var að það er eitt atriði sem vegur þyngst í að allmargir hika við að taka ákvörðun um að taka þátt í „byltingunni“, en það er drægnióttinn svokallaði.

Í fyrstu kynslóðum rafbíla var einfaldlega ekki hægt að geyma næga orku í drifrafhlöðu bílsins til að unnt væri að treysta því að bíllinn kæmist álíka langa vegalengd og meðalstór eldsneytistankur í hefðbundnum bensín- eða díselbíl skilar. Ótti um að hleðslan kláraðist áður en á áfangastað, eða virkri hleðslustöð væri náð var því nokkuð algeng tilfinning hjá ökumönnum fyrstu rafbílanna sem komu á markaðinn. Nú bregður hins vegar svo við að ekki bara rafbílafrumkvöðullinn Tesla, heldur flestir helstu bílaframleiðendur heims auglýsa nú rafbíla sem eiga að komast jafnvel yfir 500 kílómetra á hleðslunni. Er þá nokkur ástæða lengur fyrir þessum „drægni-ótta“?

Til Akureyrar á nýjum Kia EV6

Upphafsstaðan: áætlað drægi 307 km.

Við hjá Lifðu núna vildum láta á þetta reyna: Við sömdum um að fá splunkunýjan rafbíl, sem frá framleiðanda er gefinn upp með drægni yfir 500 kílómetra, lánaðan hjá innlutningsaðilanum, og fórum á honum í helgarheimsókn til Akureyrar. Við íslenskar raunaðstæður, síðla vetrar/snemma vors. Fyrir valinu varð Kia EV6, bíll ársins í Evrópu, með drifi á einum öxli (þ.e. ekki með tveimur rafmótorum og fjórhjóladrifi). Í kynningarefni á heimasíðu innflutningsaðilans, Kia á Íslandi , sem tilheyrir bílaumboðinu Öskju, stendur meðal annars um einmitt þessa útfærslu bílsins: „Þarftu að komast langt? Farðu langt, ekkert er því til fyrirstöðu – Akstursdrægi Kia EV6 með afturhjóladrifi og 77,4 kWh rafgeymastæðu er allt að 528 km á einni hleðslu.“

Þar sem það eru um 385 km frá Reykjavík til Akureyrar ætti því vel að vera mögulegt að komast á einni hleðslu norður – eða hvað?

Aðstæður höguðu því þannig að reynsluakstursbíllinn var ekki fullhlaðinn þegar lagt var í’ann síðdegis á laugardegi. Samkvæmt aksturstölvu bílsins var hleðslan þá um 89%, og sama aksturstölva gizkaði á að þessi hleðsla ætti að gefa um 307 km drægi. Samkvæmt þessu var því ljóst að ekki væri raunhæft að ná alla leið án þess að hlaða á leiðinni. Úr varð að við áðum í Víðigerði við þjóðveg 1 í Víðidal í Húnavatnssýslu, en þangað er um 200 km akstur frá Reykjavík. Orka náttúrunnar, ON, kom þar nýlega upp háhraðhleðslustöð fyrir rafbíla.

Í 80% hleðslu á hálftíma

Hraðhlaðið í Víðigerði

Eftir smá byrjunarörðugleika við að koma hleðslunni í gang, gaf hleðslustöðin upp að það tæki 32 mínútur að hlaða bílinn upp í 80% hleðslu. Með öðrum orðum: að hlaða rafmagni á geymana sem dugar til um 200 km aksturs tekur um það bil þann tíma sem venjulegt „kaffi- og pissustopp“ tekur. Við það má vel una, þótt það taki vissulega mun styttri tíma að dæla benzíni til 200 km aksturs á eldsneytisgeymi hefðbundinnar bifreiðar. Og á leiðarenda komumst við vandkvæðalaust: Við renndum inn á Akureyri um fimm tímum og fimmtán mínútum eftir að við lögðum af stað frá Reykjavík. Við það má einnig vel una, þótt áætlanir okkar hefðu reyndar verið aðeins bjartsýnni. En þær eru það alltaf, óháð því hvaða orkugjafi knýr bílinn sem ferðast er á.

Hraðhleðslustöð ON gizkar á tímann sem tekur að hlaða í 80%.

Þegar hér var komið sögu var hleðslan komin niður fyrir 20%. Þar sem bíllinn stóð yfir nóttina á Akureyri settum við hann í samband við venjulega heimarafmagnssnúru: Aksturstölvan áætlaði að það myndi taka um 70 klukkustundir að fullhlaða bílinn með svo hægri/ kraftlítilli hleðslu. Um morguninn hafði bætzt við hleðsla til 24 kílómetra aksturs. Sem var vissulega betra en ekkert, en dygði auglóslega ekki til að komast aftur suður. Það þurfti því að finna hraðhleðslustöð. Þær eru að sjálfsögðu orðnar nokkrar á Akureyri. Við hlóðum á ON-hleðslustöð á Glerártorgi, en hún er staðsett við eitt horn bílastæðisins þar, fjærst verzlunarmiðstöðinni. Á um tveimur klukkustundum komst hleðslan í 100%. En þótt svo væri gaf aksturstölvan upp drægni upp á 325 km. Sem er óneitanlega mjög langt frá auglýstri drægni bílsins – heilum 200 kílómetrum! Þegar til kom reyndist ágizkunin um 325 km drægni nokkuð nærri lagi.

Raundrægni langt frá auglýstri

Við bárum þennan mikla mun á milli auglýstrar drægni og raundrægni undir hið þjónustulipra starfsfólk umboðsins sem lánaði okkur reynsluakstursbílinn. Og fengum þessi svör: „Varðandi töluna sem upp er gefin í mælaborðinu á 100% hlöðnum Kia EV6, þá miðast sú tala við hvernig bíllinn hefur verið keyrður undanfarið. Því er ekki alltaf að marka giskarann og getur margt spilað inn í reikninginn. Þá má nefna hvernig miðstöðin er stillt, hvaða drive mode er stillt, hvort notuð sé mótor bremsa, við hvaða aðstæður verið er að keyra (hvort um sé að ræða innanbæjarakstur eða langkeyrslu), hvernig veðurfar er, hvort keyrt er á jöfnum hraða, en mikill munur er á að keyra á 100 km hraða og 90 km hraða, og svo framvegis.“

Eftir fullhleðslu mat aksturstölvan drægnina 325 km.

Við þekkjum það að talsverður munur getur verið á uppgefnum tölum frá framleiðanda og rauntölum um sparneytni hefðbundinna bíla. Staðallinn sem drægni rafbíla er reiknuð út frá er líka eflaust enn í þróun. En það er óneitanlega sláandi þegar svo mikill munur er á uppgefinni og raundrægni.

Í rafbílavæddasta landi heims, Noregi, var nýverið gerður umfangsmikill hóp-reynsluakstur, þar sem raundrægni flestra þeirra rafbíla sem fáanlegir eru þar í landi – alls 31 bílgerð – var prófuð, við raun-aðstæður að vetri í norðanverðum Noregi. Niðurstöðurnar sýndu að raundrægnin var á bilinu 11% til tæplega 32% minni en uppgefin drægni. Bíllinn „okkar“, Kia EV6 2WD, var í norska reynsluakstrinum með raun-drægni uppá 429 km, þ.e. 99 km minna (18,75%) en uppgefin drægni, sem er allt að 528 km. Það sýnir að það á vel að vera mögulegt að aka á einni hleðslu á Kia EV6 frá Reykjavík til Akureyrar, en til þess þarf margt að ganga upp: 100% hleðsla við upphaf ferðar; bíllinn ekki mjög lestaður; ökumaðurinn passi að hafa bílinn alltaf í „eco-mode“-akstursstillingu og haldi jöfnum, hóflegum hraða; miðstöð, sætishitun o.s.frv. notað í miklu hófi o.s.frv.

Þar höfum við það.

Hraðhlaðið á Glerártorgi.

Háþróaður og þægilegur

En hvað getum við annars sagt um reynsluna af að aka þessum nýja kóreska, háþróaða rafbíl í helgar-skreppitúr til Akureyrar? Bíllinn er gríðarlega vel búinn tæknilega, með alls kyns akstursaðstoðarbúnað s.s. sjálfvirkan fjarlægðarhaldara í næsta bíl á undan, akgreinaraðstoð („lane-assist“), fullkominn leiðsögubúnað, myndavélar í allar áttir og margt fleira. Það er mjög gott pláss fyrir farþega, og það á ekki síður við um farþega í aftursæti, sem eru líka búin sætishiturum og hinum ýmsu stillingum, rétt eins og framsætin. Hljómtækin eru líka af beztu gerð. Enda var okkar bíll búinn sk. GT-Line-útlits- og aukahlutapakka. Verðmiðinn: 7.850.777 kr.

Mjög gott innanrými og þægileg, stillanleg sæti, líka afturí.

Farangursrýmið er stórt (520 l), þótt afturhlerinn sé mjög hallandi. Mikið er um alls kyns hirzlur – þar á meðal er lokað farangurshólf undir húddi bílsins (52 l), en þær eru þð aðallega á hefðbundnari stöðum: í stokknum milli framsætanna, í hurðaspjöldum og víðar. Reynsluakstursbíllinn var á 20 tommu hjólum og ónegldum vetrardekkjum (í stærðinni 255/45 R20).

Þegar engin heyrast vélarhljóðin verða farþegar meira varir við veghljóð, og óneitanlega er meiri hvinur af vetrar- en sumardekkjum. En farangursrýmið er mjög vel hljóðeinangrað – það er hægt að líða um þjóðvegi landsins nánast hljóðlaust í svona bíl. Og í hljóðleysinu felast ótvírætt mikil þægindi.

Vel heppnuð hönnun

Útlit bílsins er mjög nútímalegt, og sportlegt. Þar sem Hyundai og Kia tilheyra sömu samsteypunni deila tveir framsæknustu rafbílar á markaðnum um þessar mundir sama undirvagni og driftækni, en það eru Kia EV6 og Hyundai Ioniq 5, en sá síðarnefndi er reyndar enn framúrstefnulegar hannaður en EV6. Þessir kóresku systurbílar eru í samkeppni um hylli rafbílakaupenda við t.d. Tesla Model 3 og Model Y, Skoda Enyaq, VW ID3 og ID4, Ford Mustang Mach-E og Polestar 2, en Polestar er rafbíla-dótturfyrirtæki Volvo. Nánast með hverjum mánuðinum sem líður fjölgar al-rafmagnsbílum á markaðnum. Í sumar bætast t.d. við Subaru Solterra og systurútgáfa þess bíls Toyota bZ4X. Og þannig mætti lengi telja.

Það er því óhætt að fullyrða að nú þegar eru fram komnir rafbílar við flestra hæfi – og þannig ekki eftir neinu að bíða að taka þátt í rafbílabyltingunni! Vert er líka að hafa í huga að það styttist í að dregið verði úr þeim undanþágum frá sköttum á rafbíla sem hefur ýtt undir sölu þeirra. Þakið á fjölda rafbíla sem njóta slíkra undanþága á að hækka úr 15 þúsund í 20 þúsund. Eftir það mun hratt draga úr meðgjöf ríkisins til rafbílakaupenda til að hraða orkuskiptum í landsamgöngum á Íslandi.

Þarfasti þjónn fyrri alda og þarfasti þjónn 21. aldar eiga það sameiginlegt að vera óháðir jarðefnaeldsneyti.

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn apríl 20, 2022 07:00