Fælir „app-væðingin“ eldri ökumenn frá?

Í þessari þriðju grein í greinaflokki Lifðu núna um rafbílabyltinguna og það hvernig hún snýr við eldra fólki er fjallað um byltinguna í rafeindavæddu „notandaviðmóti“ nýrra (raf)bíla. 

Stærstu breytingarnar í búnaði einkabíla sem eldri ökumenn rekur minni til að hafa upplifað á sínum ferli hingað til var sennilega þegar bílbeltin voru innleidd í þá, stereóhljómtæki urðu staðalbúnaður eða sætishitarar. Nú er hins vegar algjör bylting að eiga sér stað – rafdrif kemur í stað hefðbundinnar eldsneytisvélar-driflínu. Og þótt rafeindastýringar og snertiskjáir hafi byrjað að sjást í slíkum hefðbundnum bílum fyrir nokkrum árum síðan er algjör bylting líka að eiga sér stað í rafeindavæðingu „notandaviðmóts“ ökumanna. Nútíma(raf)bílar eru gjarnan nánast takkalausir – ökumaðurinn stjórnar flestum aðgerðum á snertiskjá, eða jafnvel með því að tala við stjórntölvu bílsins.

Rafeindavæðing stjórntækja einkabílsins bætist því við byltinguna sem felst í því að hann sé knúinn áfram af umhverfisvænu rafmagni í stað innflutts, mengandi eldsneytis. Sem útheimtir nýjar aðferðir við að umgangast og nota bíl, þar sem það þarf að stinga honum reglulega í samband og hugsa stöðugt fyrir því að á geyminum sé nægt rafmagn fyrir þá notkun sem framundan er. En það útheimtir semsagt líka nýjar aðferðir við að umgangast stjórntæki bílsins.

Kannanir hafa sýnt að það vefst fyrir sumu eldra fólki að rata af sjálfsöryggi um hina nýju stafrænu heima snallsímans, spjaldtölvunnar og tölvutækninnar yfirleitt, með öllum sínum „öppum“ og flóknu snertiskjásstýringum. Að maður þurfi að hafa komið sér upp færni á allháu stigi í notkun slíkra tækja til að geta ratað um stjórntæki einkabílsins kann því að verka fælandi á nokkurn hóp eldri ökumanna. Og kann þar með jafnvel að fæla þá frá því að taka virkan þátt í orkuskiptunum, eins mikilvæg og þau eru til að Ísland nái markmiðum sínum í umhverfis- og loftslagsmálum. Munum að Ísland hefur sett sér að verða kolefnishlutlaust hagkerfi árið 2040, og veigamesti þátturinn í að ná því markmiði er rafvæðing bílaflota landsmanna.

Bætir öryggi í akstri

Það eru hins vegar aðrar hliðar á rafeindavæðingu bíl-stjórntækja sem ættu að gera þessa tæknibyltingu aðlaðandi fyrir eldri ökumenn. Því tæknin stórbætir öryggi í akstri. Dæmi: Rafeinda-akstursaðstoð felur m.a. í sér að bíllinn haldi sjálkrafa réttri fjarlægð í næsta bíl á undan, heldur bílnum í akreininni, hemlar jafnvel alveg sjálfur ef einhver hindrun kemur skyndilega í veg fyrir bílinn, passar uppá að ökumaðurinn dotti ekki undir stýri, lætur bílinn leggja sjálvirkt í stæði og þannig mætti lengi telja.

Það er því ástæðulaust að óttast þessar tæknibreytingar. Vilji fólk á annað borð ekki „missa af lestinni“ inn í hina æ meira stafræna veröld framtíðarinnar (með „fjórðu iðnbyltingunni“ o.s.frv.) verður það hvort eð er að koma sér upp lágmarkslæsi á hina nýju tækni. Að rata um rafeindavæddar stjórnaðgerðir í einkabílnum er aðeins lítill þáttur í þeirri samfélagslega lífsnauðsynlegu færni framtíðarinnar − og nútímans! Það er jú þegar orðið þannig að hver þjóðfélagsþegn, á hvaða aldri sem hann er, getur ekki skilað skattframtali, átt í bankaviðskiptum eða greitt fyrir að leggja í stæði nema í gegn um tölvu eða snjalltæki. Ástandið í „kófinu“ hefur líka kennt mörgum afanum og ömmunni hversu dýrmætt það getur verið að kunna á samskiptaforrit til að geta átt samskipti við barnabörnin og annað fólk á þessum skrítnu sóttvarnatímum.

Tæknilæsi hjálpar

Margt er verið að gera til að auðvelda fólki að ná þessari lágmarks-tæknifærni. Má þar sérstaklega benda á Tæknilæsi fyrir fullorðna, sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir, en um þetta framtak má lesa nánar hér. Nálgast má fjölda ör-myndbanda sem birt hafa verið í nafni Tæknilæsis fyrir fullorðna á YouTube. Hugsanlega verður líka bráðlega efnt til sérstaks námskeiðs fyrir eldri ökumenn, þar sem sjónum verður umfram allt beint að því að ná valdi á stafrænum stýringum (nýrra) bíla.

Eins og rakið er í síðustu grein þessa greinaflokks („Valkostirnir í rafbílabyltingunni“) bjóða seljendur nýrra bíla á Íslandi upp á úrval mismikið rafvæddra bíla og skiptast þeir í grófum dráttum í fjórar megingerðir – hreina rafbíla með rafhlöðu; tengil-tvinnbíla (e. plug-in hybrid/PHEV) sem eru bæði með hefðbundna eldsneytisvél og rafmótor+rafhlöðu; tvinnbíla (e. hybrid) sem eru bæði með hefðbundna vél og rafdrif en er ekki hægt að hlaða utan frá; og loks „hálf-tvinnbíla“ (e. mild hybrid) sem eru með hjálpar-rafmótor og litla rafhlöðu, sem hjálpar til við að lágmarka eyðslu eldsneytisvélarinnar í slíkum bílum en er ekki hægt að keyra á rafmagninu einu.

Ekkert að óttast

Allir helstu bílaframleiðendur heims, auk frumkvöðla eins og Tesla, eru nú ýmist búnir eða eru að þróa al-rafbíla sem með fjöldaframleiðslunni verða ódýrari og samkeppnishæfari. Samhliða þessu eru innviðir fyrir hleðslu rafbíla ört að byggjast upp. Það eru því horfur á að síðarnefndu þrír valkostirnir (tvinnbílar) muni smám saman víkja fyrir al-rafbílum. Þeir skila líka mestum ávinningi fyrir orkuskipti í landsamgöngum á Íslandi og þar með skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, bæði til skemmri og lengri tíma. Rafbílabyltingin er komin til að vera, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Þeim sem líkar það verr skal til huggunar sagt að það er ekkert að óttast – markaðslögmálin munu sjá til þess að með tímanum verða í boði „nýorkubílar“ sem henta þörfum allra, þar með talið þeirra sem elska díseljeppann sinn og fjallaferðagetu hans.

Framhald í næstu viku.

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar

Ritstjórn janúar 27, 2022 07:00