Höfum jólahefðir í heiðri

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

„Mamma eldaði alltaf hangikjötslærið með því að að skipta því í tvennt og sjóða það í tveimur pottum. Ég held að það hafi verið til þess að fá betri og fljótari suðu,“ sagði eiginkonan en hjónin deildu um hvernig ætti að sjóða hangikjötslærið fyrir jólin. Eiginkonan hafði í mörg ár soðið lærið skipt í tveimur pottum. „Ég held að þetta sé byggt á misskilningi,“ sagði eiginmaðurinn sem var ekki sá duglegasti í eldamennskunni. Hann vildi meina að þetta hefði ekkert með suðuna að gera. Hjónin urðu ásátt um að hringja í móður eiginkonunnar.  Móðirinn upplýsti að ástæðan fyrir suðunni í tveimur pottum hefði verið að þau hjónin hefðu ekki átt nógu stóran pott til þess að sjóða í heilt læri.

Jólahefðir eru ríkar í lífi okkar allra og enginn hátíð hefur eins djúpar rætur í hefðum okkar. Þessar hefðir tengjast oft matarræði á jólum. Líklega flytjast hefðir milli kynslóða oftar með eiginkonu en eiginmanni. Kunningi minn sagði mér frá því að sonur sinn kæmi alltaf í stutta heimsókn til mömmu á aðfangadagskvöld til  að fá sér bita af hamborgarhryggnum. Syninum fyndust engin jól fyrr en hann hefði fengið bita af hryggnum hjá mömmu. Eiginkonan væri vön rjúpu á aðfangadagskvöld sem væri jólamaturinn á því heimili.

Ég er alinn upp við frekar óvenjulegar matarvenjur á aðfangadag. Í hádeginu var möndlugrautur. Síðdegis um kl. 4 voru svið á borðum í óformlegu borðhaldi. Svo var farið í fín föt, móðir mín fór í peysufötin og haldið var til kirkju. Þegar heim var komið var sest inn í stofu og jólapakkarnir teknir upp. Um kl. 10 var borið fram jólagóðgæti, smákökur og tertur með súkkulaðidrykk og rjóma og sest að borðum. Á jóladag í hádeginu var hangikjöt með uppstúf og grænum baunum á borðum.  Mér fannst þetta eðlilegt fyrirkomulag. Löngu seinna fór ég að velta því fyrir mér ástæðum fyrir þessari hefð. Þá var móðir mín látin og ég gat ekki spurt. Skýring mín er sú að hún hafi haldið við þeirri hefð sem hún ólst upp við. Móðir mín Aðalbjörg Bjarnadóttir (f1910) var fædd og uppalin í torfbæ á Kirkjubóli í Dýrafirði. Kirkjustaður var lengi í nágrenninu að Söndum og síðar á Þingeyri.  Afi minn Bjarni Guðmundsson var um tíma organisti við kirkjuna. Heimilisfólkið fór gangandi eða ríðandi til kirkju fyrir kl. 6. Því hefur verið snæddur fyrirhafnarlítill málsverður kl. 4 áður en haldið var til kirkju. Lítill tími hefur verið til eldamennsku eftir kirkjuferðina og því var haft kökuhlaðborð seinna um kvöldið. Þótt forsendur fyrir þessari hefð hafi verið horfnar fluttist venjan með móður minni þegar hún giftist föður mínum Þorvaldi Ellerti Ásmundssyni  og þau stofnuðu heimili á Akranesi.

Önnur jólahefð er mér í minni sem ég tók með mér úr foreldrahúsum. Á jóladagsmorgun færði faðir minn okkur súkkulaði með rjóma, smákökum og randalínu í rúmið. Þessi hefð kom einnig frá móður minni. Hún sagði mér frá því hve það var henni og systkinum hennar mikils virði að móðir þeirra, Guðmunda María Guðmundsdóttir, gaf sér tíma á jóladagsmorgun til þess að koma á baðstofuloftið og dvelja nokkra stund hjá þeim en þetta gerði hún meðan börnin voru ung. Guðmunda færði þeim heitt súkkulaði og kökur, jólaköku, kleinur og hálfmána. Fyrir börnin var það stór stund að fá að njóta þessarar stundar með móður sinni meðan þau nutu góðgerðanna við lítil kertaljós, sagði móðir mín. Lesa má frásögn: http://www.visir.is/heitt-sukkuladi-i-ruminu-a-joladag/article/2013711269903

Eiginkona mín Elín G. Óskarsdóttir var vön öðru fyrirkomulagi á aðfangadag. Fyrstu hjúskaparár okkar meðan við vorum barnlaus borðuðum við hjá tengdaforeldrum mínum Unni Benediktsdóttur frá Moldhaugum í Eyjafirði og Óskar Magnússyni frá Steinum undir Eyjafjöllum. Systkinin frá Steinum ólust upp við kjötsúpu á aðfangadagskvöld og í þeirra huga tengdist kjötsúpa jólunum. Í uppvexti þeirra var lambi slátrað þegar leið að jólum og kjötsúpa var mesta nýmetið sem þau gátu fengið á aðfangadagskvöld. Lambahryggur var á borðum hjá tengdaforeldrum mínum á aðfangadagskvöld en tengdamóðir mín var mikil matargerðakona lærð frá Húsmæðraskólanum á Blönduósi. Sú hefð fluttist svo inn á heimili okkar þegar börnin komu til sögunnar og þau hjónin komu til okkar á aðfangadagskvöld. Ég minnist þess að ung dóttir okkar kom heim einn dag skömmu fyrir jól dálítið hnugginn. Vinkonurnar höfðu verið að ræða um hvaða matur væri á borðum á jólunum. Dóttirin sagði að lambahryggur væri jólamaturinn okkar. Vinkona hennar upplýsti þá að lambahryggur væri nú bara sunnudagsmatur á heimili hennar.

Mikilvægt er að hafa hefðir og venjur í hávegum. Hefðir hafa ekki aðeins skemmtanagildi. Fjölskylduhefðir styrkja tengslin á milli kynslóða og minnka kynslóðabilið. Fjölskylduhefðir eru aldrei mikilvægari en í nútíma þjóðfélagi með stöðugt hraðari breytingum þar sem morgundagurinn  verður öðruvísi en dagurinn í dag. Fjölskylduhefðir gefa okkur rótfestu á breytingartíminn og hjálpa  okkar við að missa ekki tengslin við fortíðina og það fólk sem á undan okkar er gengið.

Ég óska svo lesendum Lifðu núna gleðilegrar jólahátíðar!

 

Þráinn Þorvaldsson desember 19, 2016 12:21