Er lífið tilviljanir eða forsjón ?

Þráinn Þorvaldsson.

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Við hjónin fluttum í vor í minna húsnæði. Við flutninginn þurfti að rýma húsnæði og losna við mikið dót. Margt kom upp á yfirborðið sem áður var falið. Meðal annars komu í ljós gleraugu sem meðfylgjandi mynd er af. Gleraugun minntu mig á löngu liðinn atburð þar sem tilviljun eða forsjón kom við við sögu.

Ég hafði nýlega endurnýjað gleraugun. Þegar ég keypti þessi gleraugu spurði gleraugnasalinn hvort ég vildi kaupa öryggisgleraugu. Hann bauð gleraugu með sérstökum glerjum sem brotnuðu ekki ef ég fengi högg á augað. Ég hafði aldrei áður keypt slík gleraugu enda ekki átt von á verða fyrir höggi á augum. Ég hugsaði að rétt væri að kaupa slík gleraugu til reynslu. Um sumarið fórum við fjölskyldan í Þórsmörk í eina af mörgum útilegum okkar í góðum vinahópi. Einn daginn gengum við að birkitrjám sem kallast Systurnar sjö. Heimsókn að Systrunum sjö var vinsæll gönguáfangi en nú skilst mér að systrunum hafi fækkað. Ég sem áhugaljósmyndari var sem fyrr með ljósmyndabúnað á báðum öxlum. Á gönguleiðinni til baka rek ég tána í stein og steypist fram yfir mig. Hvað gerir áhugaljósmyndarinn? Fyrsta viðbragð hans er að vernda ljósmyndabúnaðinn frekar en sjálfan sig. Ég steypist því á gangstíginn með höfuðið á undan án þess að bera hendurnar fyrir mig. Svo illa vildi til að oddhvass steinn stendur upp úr göngustígnum. Þegar ég fell með höfuðið niður i stíginn gengur steinninn í annað glerið sem springur en brotnar ekki og ver augað. Ef ég hefði ekki keypt öryggisgleraugun er líklegt að ég væri eineygður í dag. Tilviljun eða forsjón? Að mínum dómi forsjón.

Annað dæmi. Ég var að setja bensín á bílinn á bensínstöð í Skeifunni. Ég hafði staðið við bensíntankinn og var að snúa mér við að bílnum til þess að setja lokið á bensíntankinn þegar ég fæ skyndilega högg á bakið. Ég vakna úr öngviti í töluverðri fjarlægð frá dælunni í áttina þar sem áfengisverslunin er nú. Bifreiðin mín hafði færst til og var nú staðsett miðja vegu milli dælunnar og mín. Ókunn kona stumrar yfir mér og spyr hvort ég sé slasaður sem ég var ekki. Mér er litið að dælunni og sé þá bifreið klessta upp við hallandi bensíndæluna. Eldri maður miður sín kemur hlaupandi og spyr hvort allt sé í lagi með mig. Titrandi röddu sagðist hann hafa óvart stigið bensínið í botn í stað bremsunnar. Bifreið mannsins hafði ekið á krókinn á jeppanum mínum sem hafði kastast til og slengt mér áfram frá bensíndælunni. Ég var ómeiddur og bílinn minn óskemmdur, en ekki var sama að segja um árekstrarbílinn. Ég er sannfærður um að hefði ég vikið frá dælunni nokkrum sekúndum seinna hefðu fætur mínir orðið á milli árekstrarbílsins og bensíndælunnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Tilviljun eða forsjón? Að mínum dómi forsjón.

Þriðja dæmið sem ég ætla að nefna er hvernig ég og Elín G. Óskarsdóttir, mín yndislega eiginkona til 56 ára, náðum saman. Eftir stúdentspróf 1963 hafði Elín áhuga á því að læra sálfræði. Sálfræðikennsla hófst við HÍ árið 1971 svo fram að því þurfti að stunda slíkt nám við erlenda háskóla. Til þess náms skorti Elínu fé. Hún ákvað því að fara í viðskiptafræði þar sem sálfræði var hluti af náminu innan markaðsfræðinnar. Þegar Elín hóf nám í viðskiptafræði stunduðu engar konur nám í þeirri grein. Tvær stúlkur hófu nám haustið 1963, Elín og Jóhanna Ottesen. Þegar við Elín útskrifuðumst sem viðskiptafræðingar vorið 1969 var Elín sjötta konan til þess að verða viðskiptafræðingur, um tuttugu  árum eftir að viðskiptanám hófst á Íslandi. Við náðum saman og giftum okkur á þriðja ári og höfum átt farsælt hamingjuríkt hjónaband. Nú má velta fyrir sér hvort þessi atburðarás hafði verið tilviljun eða forsjón.

Svo skemmtilega vill til að vinkona okkar hjóna og píanókennari ungra dætra okkar, Erla heitin Stefánsdóttir, hafði skoðun í þessu máli. Erla hélt námskeið í fjölda ára í samtökum sem hún nefndi Lífsýn. Við Elín ákváðum að sækja eitt námskeiðið. Þegar við birtumst á námskeiðinu sagðist Erla ekki hafa búist við að sjá okkur á slíku námskeiði. Hún sagðist hafa haldið að við hjónin værum jarðbundnari er svo. Margt merkilegt kom fram á námskeiðinu. Meðal annars fullyrti Erla að fjölskyldan, við Elín og börnin okkar þrjú, Sif, Hrönn og Óskar Þór, ferðuðumst saman gegnum endurfæðingu. Við hefðum gert það gegnum mörg líf. Í þessu lífi væri ég pabbinn en í næsta lífi gæti ég verið dóttirin. Þetta sagði Erla vera ástæðuna fyrir því hve við Elín og börnin værum samrýmd. Ef þetta er rétt er samvist okkar hjóna og barna okkar í þessu lífi engin tilviljun heldur skipulögð. Ekki óskemmtileg tilhugsun að við hjónin og börnin okkar eigum eftir að njóta áfram saman góðra samvista um ókomna tíð.

 

 

Þráinn Þorvaldsson febrúar 20, 2023 07:00