Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar
Ég sat inni í stofu og las bókina hans Andra Snæs Um tímann og vatnið og vorkenndi mér. Ég vorkenndi mér ekki fyrir að vera lesa þá áhugaverðu bók heldur fyrir vont kvef. Það herjaði alls staðar þar sem það fann veika bletti á mér. Allt í einu sá ég hreyfingu úti. Það var þröstur. Hann stefndi á hvíta fuglahúsið á suðurveggnum. Hvaða erindi átti hann þangað? Þetta hús er einkaheimili maríuerlunnar, sem er búin að verpa hjá okkur ár eftir ár. Bölvuð frekja. Þessir þrestir! Þeir kunna sér engin mörk. Lúsugir og allt of stórir fyrir þetta pena heimili.
Ég fór og sagði manninum mínum æst að við yrðum að loka strax fyrir gatið á fuglahúsinu og fæla þröstinn burtu. Maríuerluparið væri án efa á leiðinni og ekki spurning hver ætti lögheimili þarna. Þetta hús er eiginlega orðið að ættaróðali maríuerlunnar.
En svo fór ég að fylgjast betur með þrestinum í hraglandanum. Hann fór tómnefjaður inn og kom út með stóra brúska. Hann var að ræna efni úr síðasta hreiðri maríuerlunnar og ætlaði greinilega að endurnýta það einhvers staðar í trjánum í garðinum. Honum var greinilega alveg sama um húsið pena. Það var alhvít jörð, ekki strá að finna og þetta því neyðarúrræði fyrir ástfanginn þröst. Hringrásarhagkerfið í sinni tærustu mynd!

Svona leit út á pallinum eftir heimsóknir þrastarins í leit að efni í eigið hreiður
Einhvers staðar las ég að það væri mjög slæmt ellimerki þegar fólk færi að hafa áhuga á fuglum. Pabbi tók ástfóstri við hrafnapar eftir að mamma féll frá. Hann gaf því mat á bílskúrsþakinu og talaði við það. Þetta var ekki sérlega vinsælt hjá grönnunum, sem báðu hann um að hætta þessu. Þetta truflaði mannlífið í götunni, sögðu þeir. Pabbi varð fátækari eftir að þessum samverustundum lauk. Nú er ég komin með þessa fuglaveiki.
Þegar við bjuggum í Danmörku fórum við gjarnan í göngur í Freðriksbergsgarðinum. Þangað kom maður með smásíld á hverjum degi og gaf hegrunum. Þeir þekktu greinilega manninn og fötuna hans og flokkuðust í kringum hann á meðan fóðrið entist. Síðan hurfu þeir á braut. Kannski var þetta eina samtalið sem þessi undarlegi maður átti á hverjum degi?
Samtal manns og fugls getur verið gefandi fyrir báða aðila. Æsing mín vegna þeirrar tilhugsunar að þröstur ætlaði að yfirtaka heimili vina minn með hvítu bringuna vakti hjá mér spurningar þegar ég lagðist á koddann um kvöldið með sítrónute í krús. Af hverju er mér ekki sama hvort það er þröstur eða maríuerla sem hreiðrar um sig í fuglahúsinu? Er ekki aðalatriðið að það sé notað á hverju vori? Er ég svona íhaldssöm eða fordómafull? Í svefnhöfganum fór ég að yfirfæra þessar tilfinningar mínar á mannfólkið og allt það sem er að gerast í heiminum í dag. Auknir fordómar, harka og vonska. Þessi er betri en hinn og þessi er velkominn en hinn ekki. Mig dreymdi illa og um morgunin lofaði ég sjálfri mér að vera opin fyrir hvaða fuglategund sem treysti sér til þess að komast í gegnum þröngt gatið á fuglahúsinu. Þær væru allar jafn réttháar, allar með sína töfra og þörf fyrir að eignast öruggt skjól fyrir ungana sína.