Ekki gott að vera mangó-þræll á Íslandi

Sigrún Stefánsdóttir

Dr.Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég sit úti á svölum og nýt morgunmatar í sólinni á Madeira. Langþráð frí hafið. Á fatinu fyrir framan mig er mangó, stórt og fallega gult á litinn. Það rennur úr því sætur vökvinn þegar sneiðarnar eru skornar. Bragðið er dásamlegt. Fyrst ein sneið af mangói, síðan önnur, og loks er kjarninn einn eftir. Hann fer ekki  í ruslið fyrr en búið er að kroppa af hverja einustu tægju. Svona á mangó að vera!

Ég hef alltaf verið ávaxtasjúk. Ef ég þarf að velja á milli ávaxta eða súkkulaðis eru ávextirnir valdir. Þegar ég var stelpa klippti ég myndir af ávöxtum sem ég fann í Hjemmet eða Familie Journal sem mamma keypti, og límdi þær upp á vegg fyrir ofan rúmið mitt. Ég lét mig dreyma um að smakka þessa framandi ávexti. Einhvern tíman í framtíðinni.

Barnabörnin mín trúa því ekki þegar ég segði þeim að pabbi hafi keypt kassa af eplum fyrir jólin og að það hafi verið einu ávextirnir sem við borðuðum það árið. En það er satt. Reyndar borðuðum við ber sem við tíndum á haustin og ef við vorum heppin fundum við villt jarðarber en aðallega bláber og krækiber. Snakkið mitt var gulrófur sem pabbi keypti í sekkjum. Niðurskorin gulrófa var ekki til þess að fúlsa við. En ávextirnir voru ekki í boði.

En aftur að þessum dásamlega ávexti, mangó. Ég fór til Kenýa í Afríku í kringum 1985. Við vorum á hóteli og ég sá þar könnur við morgunverðarborðið með safa í ólíkum lit. Kannan með dökkgulan safa vakti athygli mína. Þetta reyndist vera mangó-safi. Það var eins og himnarnir opnuðust. Ég hafði aldrei smakkað neitt jafn gott. Síðan hef ég verið mangó-þræll.

Það er ekki gott að vera mangó þræll á Íslandi. Þið eruð eflaust mörg sem þekkið það vandamál. Ég tel mig alveg kunna að velja ávexti og grænmeti en það eru tveir ávextir sem sífellt koma afan að mér. Avocadó og mangó. (Jú, avocadó er ávöxtur, nánar tiltekið, ber). Útlitið segir oft ekkert um innihaldið. Mangó getur verið mjúkt og fallegt á yfirborðinu en undir er það þurrt og jafnvel brúnt og morkið. Ég veit ekki hve oft ég er búin að kasta ónýtum avocado og mangói í ruslið. Þetta eru ekki ódýrar vörur. Ég skammast yfir þessu heima í eldhúsi en pirringurinn endist ekki svo lengi að ég fari og skili þessum ónýtu hráefnum aftur í búðina. Ég veigra mér við því, en auðvitað á maður ekki að sætti sig við að kaupa ónýtt hráefni fyrir fúlgur.

En er það eitthvert náttúrulögmál að innfluttir ávextir þurfi að vera komnir á grafarbakkann áður en þeir ná endastöð í eldhúsinu mínu? Svo er ekki. Ég komst að raun um það nokkrum dögum áður en fríið okkar hófst. Systir mín kom í heimsókn með kassa og sýndi mér hróðug innihaldið. Þarna voru mangó, papæa, mandarínur og ýmislegt annað sem ég kunni ekki nafnið á. Hún gaf okkur að smakka mangó. Það var þessi sama upplifun á ég átti hér á svölunum í Funchal á Madeira. Hann bráðnaði upp í okkur. Hún sagði mér hróðug frá hópi af ungum mönnum sem búa á Dalvík, sumir ættaði frá Spáni. Þeir söknuðu ávaxtanna frá Andalúsiu og ákváðu að gera eitthvað í málinu. Nú er fjöldi fólks á Norðurlandi áskrifendur hjá þessum góðu mönnum og fær sína fersku safaríku ávexti afgreidda með reglulegu millibili. Þetta eru ávextir sem ekki enda tilvist sína óétnir í rusladallinum, tilbúnir til endurvinnslu. Ég ætla að gerast áskrifandi þegar ég kem aftur heim í skammdegismyrkrið fyrir norðan.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir nóvember 28, 2022 07:00