Menningarþorsti

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég hef oft grátið af sorg í Akureyrarkirkju enda þurft að kveðja þar marga af mínum nánustu í gegnum árin. En núna er ég búin að upplifa það að gráta af hlátri og gleði í þessari sömu kirkju. Þökk sé covid. Mér er það til efs að þrír hávaxnir söngvarar og penn píanóleikari hefðu gefið sér tíma til þess að keyra norður til þess að kynna bæjarbúum undravídd bassabókmenntanna ef ekki hefði covid komið til og stóru verkefnin úti í heimi á ís.

Menningarlíf er búið að vera í molum mánuðum saman. Til að byrja með fannst mér allt í lagi að geta ekki farið á tónleika eða leikhús en nú er öldin önnur. Nú þefum við uppi allt sem er í boði og mætum hlíðin með grímurnar okkar og virðum fjarlægðarmörkin.

Fyrir skömmu komu yndislegir flautuleikarar í heimsókn norður og spiluðu í Hofi. Ég hafði það á tilfinningu að það væri gagnkvæm gleði sem ríkti í salnum. Listakonurnar fluttu dagskrá sem þær höfðu átt að flytja í Japan í fyrra og sögðu okkur hve glaðar þær væru yfir því að fá að spila á Akureyri í staðinn. Við vorum jafn glöð yfir að fá að heyra flutninginn og njóta stundarinnar með þeim. Vonandi opnast svo Japan fljótlega fyrir flautuleikurunum.

Næstu gestir voru bassa-risarnir  þrír, Bjarni Þór Kristinsson, Kristinn Sigmundsson og

Viðar Gunnarsson og peni píanóleikarinn hún Helga Bryndís Magnúsdóttir. Þau fóru á kostum. Kirkjugestirnir grétu af hlátri yfir skemmtisögum þeirra félaga og ótrúlegum söng. Ég vissi ekki að mannsröddin kæmist svona langt niður og það á dásamlegan hátt. Það voru sungnar aríur, drykkjuvísir og auðvitað Hamraborgin sem rís há og fögur og minnir á ástir og álfasögur. Sannkölluð bassaveisla. Risarnir gerðu grín hver að öðrum og kirkjan spilaði með.

Nú bíðum við bara eftir næstu gestum. Það er fátt skemmtilegra en hlusta listafólk sem greinilega elskar það að standa aftur á sviði og miðla sínu eftir langt covid-hlé. Nú ríkir sannkallaður menningarþorsti.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir mars 1, 2021 07:56