„Hugleiðsla er algjörlega svarið við 21. öldinni“

„Nútíminn er trunta“ söng Þursaflokkurinn og líklega langar marga oft að taka undir. Alls staðar er þess krafist að fólk flýti sér, samskiptum er haldið í lágmarki og stöðugt berast fréttir af grimmdarverkum, hamförum og erfiðleikum. Þá er gott að geta stundarkorn hvílt hugann og minnst þess að hvert andartak er dýrmætt. Hrönn Baldursdóttir náms- og starfsráðgjafi, jógakennari og gönguleiðsögumaður þekkir vel hve dýrmætt það er að vera í núinu og þess vegna býður hún upp á kennslu í gönguhugleiðslu.

Fyrst af öllu verður að spyrja, gönguhugleiðsla, er það ekki þversögn? Flest teljum við líklega að hugleiðslu sé farsælast að stunda sitjandi með lokuð augu ein inni í herbergi.

„Þetta flokkast undir grunnhugleiðslu og núvitund. Það þarf að hafa opin augun, jú, en fólk getur tekið þátt í þessu þótt það sé blint. Þú gengur en það má velja hraðann og ekki fara of hratt þá erum við að espa upp en við ætlum að róa niður. Aðalatriðið er að stjórna athyglinni. Rétt eins og í annarri hugleiðslu ætlum við að halda athyglinni hér og nú. Lengri og dýpri stig hugleiðslu eru auðvitað að sitja í kyrrð með lokuð augu en mikil breidd er á þessu sviði frá nútvitund til dýpstu hugleiðslu. Æfingin í hugleiða stýrist svo mikið af að ná stjórn á athyglinni, stýra huganum.

Í allri hugleiðslu þarf að hafa eitthvert atriði til að beina athyglinni að. Það er kallað á ensku „object of meditation“. Það er ekki fyrr en í framhaldshugleiðslu og á miklu dýpra stigi sem við erum ekki að nota skynfærin. Það er því kjörið að grípa í smágrunnhugleiðslu á göngu á leiðinni frá vinnu að bílnum, á leiðinni frá eldhúsinu inn í stofu eða frá vettvangi vinnunnar inn á kaffistofu þegar við ætlum að taka okkur smá pásu frá vinnunni. Sérstaklega gott er að taka korters eða hálftíma gönguferð bara í þessum tilgangi. Ég er búin að kenna þetta í mörg ár. Ég lærði þetta fyrst í einu af þeim jógakennaranámskeiðum sem ég hef verið á. Sjálf fór ég að prófa þetta árið 2016 og vegna þess að ég er gönguleiðsögumaður  og hef farið með fólk til að gera jógaæfingar úti í náttúrunni fór ég fljótlega að kenna þetta líka.“

Ávinningurinn gríðarlegur

Hrönn Baldursdóttir er með BA-próf í sálfræði, menntaður náms- og starfsráðgjafi og jógakennari. Hún stofnaði fyrirtækið Þín leið til að styrkja þá sem vilja finna draumastarfið eða bara rifja upp lífsstefnu sína og markmið. Hún  þekki vel hversu erfitt það reynist mörgum að bregða út af vananum og reyna nýjar leiðir til að efla sig og auka vellíðan. En hver er ávinningurinn af því að stunda hugleiðslu?

„Hann er gríðarlegur,“ segir hún. „Við æfumst í að vera oftar í núinu og sjaldnar í fortíð og framtíð þótt það sé nauðsynlegt líka stundum þá er gott að prósentutala þess tíma sem við erum hér og nú hækki. Þá verðum við betri í að halda ró, verðum færari í að velja úr og hlusta á okkur sjálf. Tökum þess vegna betur eftir hvernig okkur líður því við verðum færari í að hlusta og taka eftir umhverfinu og líka okkur sjálfum. Það er hægt að gera á göngunni. Byrja á að fylgjast með stellingu líkamans, hvernig ber ég mig, er bakið beint, hvernig vinnur þessi líkami, hann er stíga næsta skref fram á við og um leið fylgjumst við með umhverfinu og jafnvel förum með möntru.“

Heyrum betur hugsanir okkar

Ef maður hefur áhuga á að taka þátt í svona gönguferðum hvert snýr maður sér?

„Ég hef boðið upp á stök námskeið og stundum býð ég upp á lotur þar sem fólk kemur saman einu sinni í viku og gengur. Ég auglýsi tímana inn á heimasíðunni, www.thinleid.is. Í starfi mínu sem náms- og starfsráðgjafi hvet ég fólk til að skoða stöðu sína, finna leiðina og mér fannst frábært að nýta náttúruna bæði fyrir áhrif hennar og til að við færðum okkur aðeins út úr áreitinu, svo við heyrum betur hugsanir okkar. Ég þekki það í gegnum jógakennsluna að þetta er leiðin til að kyrra okkur. Ný námskeið byrja hjá mér í næstu viku, einn hópur á mánudögum frá 16.10 til 17 og annar á föstudögum kl. 11-11.50. Þar er ég að leggja grunninn og æfa og þátttakendur fá einnig með sér minnisblöð til að geta haldið þjálfuninni áfram því það er auðvitað mikilvægast.

Síðastliðinn vetur var ég á ákveðnu tímabili í Laugardalnum og stefni að því að vera þar aftur næsta vetur frá því í byrjun september, á þriðjudögum kl. 16.10. Fólk þarf bara að láta mig vita og skrá sig. Það er hægt að taka stök skipti eða koma oftar. Það er svo frábært að svo er hægt að halda þessu við heima og halda áfram að æfa sig. Þetta er hægt að gera jafnt utanhúss sem innan og ekki þarf meira en fimm mínútur í hvert sinn. Ég tek göngulotur og passa að ganga ekki of hratt. En ég kenni líka útgáfu fyrir aðeins meiri hraða utandyra þegar er kalt á veturnar á Íslandi en það er hægt að fara mun hægar innanhúss eða þegar fólk er úti í sólarlöndum á góðum degi. Þetta er mjög gagnlegt því að það er hægt að finna fjölbreyttar útgáfur af gönguhugleiðslu svo við verðum ekki leið. Það er bara mannlegt að verða leið á einhverju og þá þarf að breyta til, annars fer athyglin bara eitthvert í framtíðina eða fortíðina.“

Bætir minni, líkamsstöðu og líðan

Hrönn segir að gönguhugleiðsla sé í eðli sínu einföld. Hún byggi á gömlum grunni og sé mjög árangursrík. Flestir ganga eitthvað á hverjum degi og þess vegna sé kjörið að nýta þann tíma til að ná tökum á huganum og stjórna hvert athyglin beinist. En hefur verið sýnt fram á að hugleiðsla hafi raunveruleg áhrif á heilsu og líðan fólks?

„Já, það eru að hrúgast inn rannsóknir þessa dagana sem sýna að hugleiðsla bætir minni, líðan og athyglisgáfuna. Þetta bætir einnig öndun, slakar á vöðvum og þar með verður svefninn betri og líkamsstaðan líka. Aukin vera í núvitund hefur þau áhrif að fáum hvíld frá áhyggjum, stressi og vanlíðan. Ef við viljum gefa líkamanum hvíld förum við og slökum á. Ef við viljum gefa huganum frí frá öllu áreiti förum við í hugleiðslu. Hugleiðsla er algjörlega svarið við 21. öldinni, öllum hraðanum, upplýsingaofgnóttinni og áreitinu.

Það er algjörlega nauðsynlegt að við hugleiðum öll eitthvað á hverjum degi. Ég hef oft sagt að það tókst að kenna okkur að bursta tennurnar einhvern tíma á síðustu öld og svo lærðum við að bursta tvisvar á dag. Þó að það væri ekki meira en sami tími og það tekur að bursta tennurnar sem við gefum okkur daglega til að hugleiða. Hvað tekur það langan tíma að bursta að meðaltali? Er það ekki tvær mínútur eða eitthvað þar um bil? Ef við gefum okkur þann tíma í að kyrra hugann eða fjórar mínútur er mikið unnið. Allt er þetta spurning um vana. Þess vegna virkar gönguhugleiðslan svo vel því þó við stundum einnig hugleiðslu sitjandi getur hún verið svo góð ef það er erfiður dagur og við getum engan veginn einbeitt okkur. Við erum þá á hreyfingu og það hjálpar okkur að ná einbeitingu þrátt fyrir utanaðkomandi áreiti. Þess vegna er hún svo góður grunnur fyrir byrjendur.

Hraðinn er ekki aðalmálið né heldur hvar við erum. Við getum gengið löturhægt og allt upp í meðalhraða, við finnum þann hraða sem hentar hverju sinni og það fer eftir dagsformi. Ég hef lengi verið að hugleiða en gríp samt sem áður í hana af og til. Þetta er einfalt tæki en samt svo árangursríkt. Ég er rosalega hrifin af þessu og þess vegna held ég áfram að koma þessu á framfæri,“ segir Hrönn að lokum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 11, 2024 07:00