Geðið leiddi þau saman

 

Sigurður Örn Hektorsson geðlæknir og Hrönn Harðardóttir geðhjúkrunarfræðingur hafa bæði náð miðjum aldri. Þau fundu hvort annað ekki alls fyrir löngu en Hrönn segir hlæjandi frá því að Sigurður hafi orðið

Siguður og Hrönn í Munchen

býsna glaður þegar hún hafi sagt honum að hún ætti tvö brotin sambönd að baki vegna þess að því væri eins farið með hann. Þeirra samband er því númer þrjú hjá báðum og nú eru þau reynslunni ríkari og ætla að vanda sig.

Kátínan efst á baugi

Og ef marka má þægilegt andrúmsloftið og kátínuna sem mætir blaðamanni á heimili þeirra eru líkurnar miklar á að það takist. Þau segja frá því að skömmu fyrir heimsóknina hafi Hrönn verið að mauka brokkólí með töfrasprota og í þann mund hafi óvænt komið kaupandinn að þvottavél sem þau hafi verið að selja. Þau eigi nefnilega tvennt af öllu þar sem þau séu að sameina tvö heimili. Hrönn segir um sjálfa sig að hún geti verið brussa og að í æsingnum hafi hún misst töfrasprotann þannig að brokkólíblandan hafi spýst út um allt eldhús. Hrönn fór að hitta þvottavélakaupandann en Sigurður að þrífa eldhúsið en hann gat ómögulega skilið hvernig blandan hefði getað farið svo víða um svæðið. “Á nú að fara að efnagreina blönduna,” segir Hrönn þegar hún heyrir Sigurð velta fyrir sér hvað sé eiginlega í þessari fallega grænu blokkólíblöndu en Hrönn segir að Sigurður sé mikill nákvæmnismaður. Henni hafi bara ekki þótt þetta rétti tíminn fyrir efnagreininguna.

Var búin að finna þörfina fyrir lífsförunaut

Hrönn hafði verið fráskilin í 5 ár þegar hún hitti Sigurð 2015. “Hugsunin um hvað það væri mikil gæfa að eignast félaga sem maður gæti átt samleið með hafði gert vart við sig en ég hafði í nokkur ár þar á undan verið staðráðin í að ég ætlað að vera ein það sem eftir væri,” segir Hrönn.

Hafa bæði persónulega reynslu af geðsjúkdómum

Sigurður er yfirlæknir á geðdeild Landspítalans og Hrönn er geðhjúkrunarfræðingur og var teymisstjóri á sama stað. Þau segja að eðlilega reyni mikið á þau á vinnustaðnum, bæði sameiginlega og hvort í sínu lagi. Oft geti vinnan verið ánægjuleg og gefandi en stundum geysilega erfið og þá skipti miklu máli að starfsmenn standi vel saman. Sigurður menntaði sig fyrst í heimilislækningum áður en hann bætti geðlækningum og fíknilækningum við. Hrönn er sömuleiðis menntuð í almennum hjúkrunarfræðum og bætti síðar við sig geðhjúkrun. Þau hafa bæði persónulega reynslu af geðsjúkdómum, Sigurður frá því að hafa orðið vitni að því sem barn þegar fjölskyldumeðlimir voru veikir af geðhvarfasýki og Hrönn af því að hafa fylgt nánum ættingja í gegnum alvarlega fíkn. Þau segja að persónuleg reynsla af geðsjúkdómum hafi nýst þeim báðum mjög vel í starfi.

Þurfti að taka frí frá geðdeild

Hrönn þurft að gera hlé á vinnu sinni á geðdeildinni þegar ættingi hennar fór að koma þangað í veikindum sínum. “Ég áttaði mig ekki á því strax hversu rosaleg áhrif það hafði á mig, ekki fyrr en góður vinur og samstarfsmaður benti mér á að það væri kannski sniðugt fyrir mig að fara að gera eitthvað annað í bili. Ég áttaði mig ekki á því hversu erfitt það hafði verið fyrr en ég var hætt. Ég fór þá að vinna í einkageiranum hjá lyfjafyrirtæki og var þar í þrjú ár. Ég hafði mjög gott af því og gat unnið úr mínum málum.”

Á leið á Fagradalsskarð 2016. Útivera og hreyfing leika stórt hlutverk í lífi Sigurðar og Hrannar.

Kannski hittumst við á tónleikunum

Hrönn fór til Danmerkur að bæta við sig námi og var þar í nokkurn tíma en þegar hún kom heim 2011 var henni bent á að það vantaði manneskju í Keflavík til að setja þar á stofn samfélagsgeðteymi. Hún hafði verið að vinna í slíku teymi í Danmörku svo hún ákvað að taka vinnunni í Keflavík og var þar í tæp 5 ár. Þá fór Hrönn aftur að vinna á geðdeildinni á Landspítalanum sem teymisstjóri á bráðavaktinni og það var þá sem leiðir þeirra Sigurðar lágu saman. Þetta var um áramótin 2016 en Sigurður hafði hafið þar störf um mitt ár 2015. Svo var það í lok vaktar stuttu fyrir páska 2016 að Sigurður spyr Hrönn hvort hún ætli að gera eitthvað um páskana. Hún átti ekki von á því nema hún ætli að fara á árlega blústónleika. Segir svo í hálfkæringi “kannski hittumst við þar”.

Músíkalskt par

Svo vildi til að á þessum tónleikum var kona sem er náfrænka Hrannar og hafði búið með fyrrum tengdaföður Sigurðar. Sú fékk þá snjöllu hugmynd að þau tvö gætu nú kannski bara verið músíkalskt par og sagði Sigurði, sem hafði komið á tónleikana með félaga sínum, að fara og heilsa aðeins upp á hana Hrönn frænku sína. “Ég gerði þetta og úr varð að við fórum með þeim síðustu út af tónleikunum og ég skutlaði Hrönn heim,” segir Sigurður. “Það næsta sem gerðist var alvöru stefnumót þar sem við fórum á kaffihús og í göngur og fljótlega fór allt í gang.” Þetta var í lok mars og svo kom að því að Sigurður spurði Hrönn hvort henni þætti nokkuð of langt gengið ef hann byði henni út á land þar sem þau myndu gista á hóteli, borða góðan mat og fara í skemmtilegar göngur. “Ég kom sjálfri mér á óvart með því að slá til og þá var ekki aftur snúið. En af fyrri reynslu vorum við bæði mjög varkár því þriðju mistökin voru ekki á dagskrá,” segir Hrönn en er alsæl með ákvörðun sína. Þar fundu þau að áhugi á útiveru var eitt af því sem þau áttu sameiginlegan.

Skemmtilegar tilviljanir

Rétt eftir þetta fóru þau að ræða sumarið og þá var komin á dagskrá gönguferð Hrannar með gönguhópi hennar, fyrir dyrum var ráðstefna í geðlækningum í Flórída og fleiri ferðir auk þess sem Hrönn var búin að bóka sig í hálfmaraþon í München í október en svo illa vildi til að herbergisfélagi hennar var að glíma við meiðsli og heltist úr hópnum. Þá var laust pláss svo Sigurður hljóp í skarðið.

Útivera og hlaup

Sigurður og Hrönn eru bæði miklir hlauparar enda veit fólk sem starfar á geðsvið manna best hversu miklu máli hreyfingin skiptir fyrir alla vellíðan, bæði andlega og líkamlega. Þau eru mjög svipað á sig komin líkamlega en Sigurður er fæddur 1954 og Hrönn 1963. Sigurður segist hafa hlaupið mest einn en Hrönn er búin að vera meðlimur í hlaupahópi Stjörnunnar í Garðabæ frá stofnun hans. “Ég verð að viðurkenna að ég varð pínulítið hikandi þegar kom til að Sigurður kæmi í hlaupahópinn minn,” segir Hrönn hlæjandi. “Mér fannst eins og það gæti verið of mikið að búa saman, vinna saman, hlaupa saman o.s.frv. en þetta hefur gengið eins og í sögu. Ég ákvað strax að ég myndi halda áfram að vera í mínum hópi innan hlaupahópsins og hann myndi finna sinn. Og hann féll strax inn svo það var ekkert mál.” Sigurður hefur hlaupið einn fyrir utan þegar hann var að æfa sig fyrir hálfmaraþon 1992. Hann áttaði sig á því þá og svo aftur núna hversu miklu máli félagsskapurinn skiptir því íþróttirnar séu svo mikið félagslegt fyrirbæri. Einn hlauparinn sem lenti í brjósklosi gerði grín að því að hann þyrfti í raun frekar á geðlækni að halda en bæklunarlækni því sjokkið að geta ekki verið í félagsskapnum væri enn erfiðara en verkirnir. Tveir hafa greinst með krabbamein og hafa talað um hversu miklu máli stuðningurinn frá hópnum hafi skipt. Ein hljóp heilt maraþon ári eftir að hún lauk lyfjameðferð og þakkaði það m.a. hvatninguna frá hópnum.

Bónorðið borið upp í fjallasal.

Bónorð í fjallasal

“Siggi bað mig um að koma aðeins og ég hélt hann væri að grínast þar sem hann lagðist á skeljarnar. Ég ætlaði fyrst að kippa honum á fætur en varð smám saman ljóst að þetta var alvara. Ég sagði þá “já” við bónorðinu og fór svo að skæla og húrraði síðan á rassinn í einni brekkunni á leiðinni niður því ég var svo hátt uppi eftir bónorðið,” segir Hrönn en bónorðið var borið upp í fjallasal í Ölpunum 2017.

Sigurður er úr Kópavogi og Hrönn er sveitastelpa

Siguður er fæddur í Skjólunum í Vesturbænum en var kominn í Kópavoginn þegar skólagangan hófst um 1960. Þar var hann þangað til hann settist í MR. Sigurður og félagar hans voru í fyrstu skólahljómsveit Kópavogs þar sem hann spilaði á trompet. Eftir MR fór Sigurður í læknadeildina og var í lögreglunni á sumrin. Hann þótti sleipur í ensku og var því tekinn í Útlendingaeftirlitið sem þýddi að hann kynntist aðeins ferðamennskunni því eftirlitsmenn voru sendir um borð í skemmtiferðaskipin og flugvélarnar sem komu í gegnum Reykjavík. Í löggunni kynntist Sigurður geðlækningum fyrst, því til landsins þvældust oft svokallaðir furðufuglar sem lentu í ógöngum. Þetta voru gjarnan geðsjúkir sem höfðu farið í einhverja ævintýramennsku og komið til Íslands í maníu að sögn Sigurðar. Hann segir það hafa verið mjög sérkennilega reynslu að kynnast þessu fólki. “Þá var allt kapp lagt á að koma fólkinu heim og þá vorum við látnir fylgja þeim. Þannig komst ég t.d. fyrst til Bandaríkjanna,” segir Sigurður. Þetta segir hann að sé enn töluvert vandamál og aukist í hlutfalli við fjölgun ferðamanna.

Hélt til Kanada í framhaldsnám í heimilislækningum

“Kanadamenn þóttu mjög framarlega í heimilislækningum og þar var gott að nema. Þegar því námi lauk kom ég heim og hóf að starfa hjá Heilsugæslunni og svo stofnuðum við nokkrir heimilislæknar nýja heilsugæslustöð 1986. Ég vann við þetta í 12 ár og á sama tíma var ég mikið að pæla í tölvuvæðingu heilsugæslunnar og forritun og þróun á hugbúnaði og upp úr því spratt kerfið sem notað er á Landspítalanum núna og er kallað Sögukerfið. Þá ákvað ég að bæta við mig geðlæknisfræðinni og settist aftur á skólabekk.”

Um 2002 ákvað Sigurður taka amerísku læknaprófin og fór eftir það til Kaliforníu og réði sig til vinnu þar sem geðlæknir. “Ég fór þrívegis þangað, alltaf til sama vinnuveitanda. Í eitt skiptið sem ég fór, var ég ráðinn geðlæknir í fangelsi í Santa Rosa í Sonoma sýslu. Þar var ég síðan að vinna í fullu starfi í rúmt ár og kynntist því hvað er hægt að gera í geðheilbrigðismálum í fangelsum þegar vel er gert.”

Draumarnir rætast á miðjum aldri!

Sveitastelpan Hrönn

Hrönn ólst upp að Hömrum í Grundarfirði með foreldrum sínum og fjórum bræðrum. “Ég var alltaf mikil strákastelpa og á bænum var alltaf mikið líf og fjör og fullt af krökkum á sumrin. Hún sagði pabba sínum að hún væri alveg til í að vera bóndi ef hún fengi að búa bara með hunda og hesta en pabbi hennar var fjárbóndi. Það þótti honum ekki skynsamlegt en þá sótti hún um stöðu háseta á netabáti í Grundarfirði og var þá 15 ára. Það vildi enginn skipstjóri ráða hana en einn sagði þó að hann skyldi ráða hana ef hún gæti kokkað. Hún sagði honum eins og satt var að hún kynni ekkert að kokka en gæti alveg unnið sem háseti, rétt eins og strákarnir sem voru að koma frá Reykjavík. Hún hafði vanist líkamlegri vinnu í sveitinni og var sterk og treysti sér í hvað sem var. “Þetta voru þeir timar þegar karlmennirnir komu heim eftir vinnu og settust við borðið og spurðu “hvað er í matinn” jafnvel þótt húsmóðirin væri líka að koma þreytt heim eftir daginn. Ég man að hafa hugsað sem barn að ég ætlaði ekki að hafa mitt líf svona,” segir Hrönn.

Svo gerði Hrönn sér grein fyrir því að hún vildi mennta sig meira og kláraði stúdent og sjúkraliða frá FB 1986. Hún hafði byrjað að vinna sem gangastúlka á Landakoti 1983 og segir brosandi frá því að þegar hún kom til borgarinnar hafi hún leigt herbergi við sömu götu í Kópavogi og Sigurður hafi alist upp í en leiðir þeirra hafi ekki legið saman fyrr en löngu seinna þótt þræðirnir hafi byrjað að vefjast saman fyrr.

Kynntust fyrst á geðheilbrigðisráðstefnu

Hrönn var á vöktum á geðdeildinni allt frá 1993 fram undir 2000. Sigurður var að vinna í tengslum við Geðdeildina 1997 til 2002 svo leiðir þeirra hljóta að hafa legið saman þótt þau muni ekki mikið eftir því.

Það var svo 2003 sem þau, ásamt fleirum, voru send á ráðstefnu til Mónakó. Þar náðu þau og önnur kona vel saman í hlaupunum og þar kynntust þau Hrönn og Sigurður fyrst. Þau voru þá bæði gift þannig að samband þeirra byrjaði ekki fyrr en 2016 þegar bæði voru orðin einhleyp.

Hrönn fékk starf háseta þótt seint væri.

Lífið rétt að byrja á miðjum aldri

Sigurður og Hrönn hafa komist að því að orðið “miðaldra” er verulega jákvætt orð. Þá eru möguleikarnir til að njóta óþrjótandi og gamlir draumar rætast. Draumur Hrannar um að verða háseti á báti rættist til að mynda síðastliðið sumar þegar þau skötuhjúin leigðu bát í útlöndum og Hrönn tók stjórnina. Nú var gamaldags hugsunarháttur um hlutverk kynjanna ekki lengur ráðandi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn janúar 26, 2018 13:02