Hungurlúsin þótti of há

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson

„Mér komu þá í hug orð Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra: Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Mér þóttu þessi orð fráleit í fyrstu. En ég held ég taki undir þau í dag,“ segir Björgvin Guðmundsson í grein í Fréttablaðinu í dag.  Í greininni gerir hann að umtalsefni hækkun á launum forstöðumanna ríkisstofnana og ber hækkanirnar saman við hækkanir sem aldraðir og örykjar fengu um síðustu áramót. „Fyrir skömmu hækkuðu laun forstöðumanna ríkisstofnana, formanna ríkisnefnda og æðstu embættismanna stjórnarráðsins um allt að 48%. Hæstu launin fóru í 1,6-1,7 milljónir á mánuði.

En ekki nóg með það. Hækkunin var látin gilda 19 mánuði til baka. Það þýddi, að þeir hæst launuðu fengu 30-32 milljónir greiddar í einu lagi sem launauppbót,“ segir Björgvin en á sama tíma hafi ýmsir í hópi eldri borgara og öryrkja fengið bréf frá TR þar sem þeir voru rukkaðir um háar upphæðir til baka, þar sem höfðu fengið of mikinn lífeyri.  „Með öðrum orðum: Hungurlúsin, tæpar 200 þúsund krónur og rúmlega 200 þúsund á mánuði eftir skatt, reyndist of há! Það þurfti að klípa af þessum upphæðum. Og hvernig átti fólkið að borga það til baka? Því er ósvarað. Þetta hvort tveggja gerðist um svipað leyti. Misskiptingin í þjóðfélaginu kristallaðist í þessu tvennu, himinháum greiðslum til forstöðumanna og æðstu embættismanna og kröfum á aldraða og öryrkja um að greiða til baka,“ segir Björgvin. Grein hans í heild er hægt að lesa hér.

Ritstjórn júlí 22, 2016 08:44