Baráttumaður yfir áttrætt með 50.000 læk á Facebook

Björgvin á Facebook

Margir taka ugglaust eftir skrifum Björgvins Guðmundssonar í dagblöðum, um kjaramál eldri borgara og fleira. Þeir sem eru iðnir á Facebook vita líka að hann skrifar mikið á síðuna sína þar um sama efni. Á Facebook sagði frá því í vikunni, að Björgvin væri búinn að fá samtals 50.000 læk á póstana sem hann hefur sett á síðuna sína og geri aðrir betur. Þessar upplýsingar komu fram sem tilkynning frá Facebook.

Þegar blaðamaður Lifðu núna spurði Björgvin að því, hverjar hann teldi skýringarnar á þessum vinsældum, sagðist hann skrifa mjög mikið á síðuna. „Ég skrifa eitthvað á hverjum degi um málefni aldraðra, en greinar eftir mig birtast á tveggja til þriggja vikna fresti í dagblöðunum. Ég er að vísu hissa á hvað þetta eru mörg læk, en ég reyni að láta engan dag falla úr og skrifa alla daga á síðuna. Svo set ég mikið af fjölskyldumyndum þar inn“, segir hann.

Hann segir ekki gott fyrir sig að segja til um það, hvað valdi því að hann hafi fengið 50.000 læk á póstana. „En ég hef fengið viðbrögð frá fólki, sem segir að póstarnir séu ekki of langir, þeir séu kjarnyrtir og lausir við málalengingar. Kannski er ein aðalástæðan fyrir þessu sú að kjaramál eldri borgara brenna á mörgum“, segir Björgvin.

Lifðu núna tók viðtal við Björgvin fyrir tæpum tveimur árum. Þar sagði hann meðal annars:

Ég tel að það standi verkalýðshreyfingunni næst að berjast fyrir eldri borgara sem hafa hvorki samningsrétt né verkfallsrétt. Verkalýðshreyfingin átti þátt í að félög eldri borgara voru stofnuð á sínum tíma“. Björgvin og félagar áttu fundi með forystumönnum úr verkalýðshreyfingunni. „Verkalýðsfélögin í Reykjavík tóku dræmt í þetta og vildu beina þessu til ASÍ. En ég tel að verkalýðshreyfingunni beri skylda til að standa með eldri borgurum og baráttu þeirra fyrir bættum kjörum. Það er óeðlilegt að öll réttindi detti uppfyrir, þegar menn hætta að vinna. Fólki sem hefur verið í þessum félögum árum saman, finnst skrítið ef félögin vilja ekkert fyrir það gera, þegar eftirlaunaaldri er náð“.

Hér má sjá viðtalið við Björgvin í heild.

Ritstjórn ágúst 23, 2018 13:53