Hvað binst við nafn?

Hvað á barnið að heita? Þetta er alltaf stór og flókin spurning, enda mikilvægt að velja vel. Nafnið þarf að fylgja barninu út ævina og að sumu leyti mótar nafnið persónuna. Í sumum fjölskyldum er þetta mjög einfalt, eitt eða tvö karlmanns- og kvenmannsnöfn eru gegnum gangandi og Guðrúnir, Kristínar og Sigríðar eru yfirfljótandi í hverri kynslóð og karlmennirnir heita ýmist Jón Guðmundsson eða Guðmundur Jónsson. En sumir vilja vera frumlegri og nokkrar tískusveiflur eru í nafngiftum.

Þannig má nefna að Hneta, Jennþór, Svali, Heiðlóa, Míríel, Analía, Vetrarrós og Angi eru meðal nafna sem aðeins ein manneskja ber á landinu. Það er ekki gott að vita hvaðan innblásturinn að þessum nöfnum kemur en Kjalvör, Skuld, Kali, Ljótur, Skúta og Karkur eru meðal nafna úr fornsögunum sem hafa heillað einhverja íslenska foreldra.

Sumum er ekkert sérstaklega umhugað um að vera frumlegir þegar kemur að nafnavali en þsð er töluvert algengt að fólk skíri í höfuðið á sögupersónum. Til að mynda má nefna að eftir að bókin Valdimar munkur kom út voru nokkrir drengir skírðir Rúrik eftir aðalsöguhetjunni og í dag bera 109 þetta nafn. Undirrituð var skírð Steingerður vegna þess að móðir hennar heillaðist af bókum Elínborgar Lárusdóttur um Símon og Steingerði í Norðurhlíð og einnig fannst henni vísur Kormáks til Steingerðar í Kormákssögu meðal fegurstu ástarljóða.

Version 1.0.0

Laxness mikill nafnasmiður 

Það er líka athyglisvert að kvenmannsnafnið Diljá var ekki til á Íslandi fyrr en Vefarinn mikli kom út árið 1927.  Í dag bera 209 konur nafnið að eiginnafni og 197 að seinna eiginnafni. Halldór Laxness kom fleiri nöfnum í tísku. Nefna má Uglu í Atómstöðinni og Úu í Kristnihaldinu. Hvorugu nafnið var þekkt áður en bækurnar komu út. Nú bera 4 konur Úu-nafnið að fyrsta eiginnafni og 15 hafa þetta að seinna nafni og nokkuð er um að þetta sé notað sem gælunafn. Uglunafnið bera 27 að fyrsta eiginnafni og 13 að seinna eiginnafni. Halldór er líka ábyrgur fyrir því að vinsæl gælunöfn kvenna sem hétu Salvör eða Valgerður urðu að eiginnöfnum. Nú eru þónokkrar Sölkur og Völkur til á landinu.

Pétur Gunnarsson sló líka rækilega í gegn með bókunum um Andra Haraldsson og í kjölfarið voru fjölmargir drengir skírðir sama nafni og aðalpersónan. Í dag eru vel á annað þúsund Andrar á landinu, með fyrsta eiginnafn eða  seinna nafn. Fyrir árið 1976 var nafnið sárasjaldgæft.

Mörg fleiri nöfn sögupersóna mætti nefna meðal annars þær Kapítólu og Villimey. Foreldrar þeirra stúlkna þurftu að slást við mannanafnanefnd til að fá nöfnin samþykkt og höfðu að lokum sigur. Hið sama má segja um stúlkuna Blæ sem hafði sigur fyrir dómstólum og fékk að heita sínu nafni. Mannanafnanefnd hafði ekki viljað fallast á að þetta gæti verið kvenmannsnafn vegna þess að það beygðist í karlkyni. Lausnin var einföld. Ef Blær er kona er eignarfallið, til Blævar en þegar um karl er að ræða er það til Blæs.

Dýranöfn og manna

Eitthvað hefur líka verið um það að dýranöfn rati á menn og í þeim hópi má nefna, Tinna sem var og er algengt kýr nafn, Sörli sem áður var fyrst og fremst hrossanafn, Moli, Rökkvi, Krummi, Kolur og Tinni voru fyrst og fremst hundanöfn. Nöfnin Sörli og Kolur voru vissulega þekkt sem mannanöfn í fornsögunum en hurfu sem slík um aldir. Það má því segja að sú nafnahefð hafi verið endurvakin eftir 1970. Tinna Gunnlaugsdóttir fyrrum Þjóðleikhússtjóri var hins vegar fyrst kvenna til að bera þetta nafn.

Mannanafnanefnd hefur verið ákaflega umdeild í gegnum tíðina og margoft rætt um að leggja hana niður. Hún hefur starfað á grundvelli laga um mannanöfn en margir eru á því að nafngiftir eigi að vera alveg frjálsar eins og tíðkast m.a. í Bandaríkjunum en þar geta börn heitið Apple, Blue, Boo, Camera, Cat og Bridge án þess að nokkur geri athugasemd við það. Hvað sem því líður eru nöfn ævinlega persónuleg og verða þeim sem ber þau ýmist til ama eða mikillar gleði.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 7, 2024 07:00