Tengdar greinar

Í góðri fjarbúð í tuttugu ár

Guðrún Kvaran

Guðrún Kvaran

Guðrún Kvaran segir að henni leiðist aldrei. Hún er mikil útivistarkona, gengur um fjöll og firnindi  heima og erlendis. Skokkar annan hvern dag oftast með Trimmklúbbi  Seltjarnarness. Henni finnst gaman að rækta garðinn sinn. Þó Guðrún hafi látið af störfum eiga íslensk fræði hug hennar allan. Fræðigreinar eftir hana birtast í helstu vísindaritum auk þess sem hún svarar reglulega spurningum lesenda Vísindavefs Háskóla Íslands. Raunar hefur enginn fræðimaður verið jafn ötull og hún við að svara lesendum, en hún hefur svarað á annað þúsund spurningum fróðleiksþyrstra lesenda vefsins.Guðrún Kvaran er borin og barnfæddur Reykvíkingur. Hún fæddist í reisulegu húsi við Sóleyjargötuna og þar hefur hún búið alla ævi utan þess tíma sem hún var við nám í Þýskalandi. „Ég held að ég hafi haft áhuga á íslensku máli síðan ég man eftir mér. Ég ólst upp á miklu bókaheimili. Afi minn kenndi mér að lesa og fann enga betri bók en Njálu til að láta mig lesa. Mér fannst  nú ekki alltaf gaman þegar ég þurfti að þylja allar þessar ættartölur,“ segir hún og hlær.

Ílentist í samanburðarmálfræði

Guðrún gekk í Kvennaskólann og þaðan lá leið hennar í Menntaskólann í Reykjavík  þar sem hún lauk stúdentsprófi. Úr MR lá svo leiðin í  Háskóla Íslands þar sem hún lauk prófi í íslenskum fræðum vorið 1969. Sumarið eftir giftist hún unnusta sínum Jakobi Yngvasyni og þau héldu til Göttingen í Þýskalandi þar sem Jakob var þegar í námi. Þetta voru umbrotatímar um alla Evrópu enda stutt liðið frá stúdentaóeirðunum í París 1968. „Ég ætlaði mér halda áfram námi í germönskum fræðum en norræna deildin við háskólann í Göttingen var ósköp smá í sniðum. Mér hálf leiddist og vissi ekki alveg hvað ég átti að gera. Ég ákvað svo að prófa að fara í deildina þar sem samanburðarmálfræði var kennd og ílentist þar,“ segir Guðrún sem skrifaði doktorsritgerð sína á sviði samanburðarmálfræði.Guðrún og Jakob héldu heim í árslok 1977. „Ég hafði á námsárum mínum á Íslandi unnið á sumrin á Orðabók Háskóla Íslands. Þegar ég var að langt komin með doktorsritgerðina og farin að hugsa til heimfarar losnaði staða forstöðumanns Orðabókarinnar.  Jakob Benediktsson var að láta af störfum vegna aldurs. Ég sótti um stöðuna hans og fékk,“ segir Guðrún. Jakob hafði þá lokið doktorsritgerð númer tvö og bauðst staða á Raunvísindastofnun. Guðrún fór síðan utan aftur 1980 og lauk doktorsrófinu.

Þegar tölvurnar komu til sögunnar

„Ég hóf störf á orðabókinni fyrsta janúar 1978 og hætti þar í júlí 2013.  Það urðu gríðarlegar breytingar á vinnslu orðabókarinnar á þessum árum. Þegar ég byrjaði að vinna  þurfti maður ekki neitt annað en bókina sem maður var að lesa og safna orðum  úr, mjúkan blýant og strokleður, það voru  vinnutækin. Fyrstu tölvurnar fóru að koma uppúr 1980 þá breyttist vinnan mikið þegar farið var að slá seðlasafnið inn í tölvu. Mér fannst leiðinlegra að vinna á tölvu en handskrifa. Ég er svo fastheldin í eðli mínu,“ segir hún brosandi.  Starf forstöðumanns Orðabókarinnar var fullt starf en auk þess að sinna því fór Guðrún fljótlega að kenna við Háskólann, námskeið í samanburðarmálfræði og íslenskri málfræði. „Mér fannst mjög gaman að kenna þess vegna var ég að þessu. Ég var nátturlega ekki jafn þrúguð af kennslu eins og föstu kennararnir. Ég kenndi kannski eitt námskeið á misseri. En kennsluna varð maður að taka utan vinnutímans á Orðabókinni. Kennslan hún kom því til viðbótar við fulla vinnu.“ Sumum þætti kannski nóg um en Guðrún tók að sér fleiri verkefni. Hún var um margra missera skeið með þætti um íslenskt mál í Ríkisútvarpinu. „Mig minnir að ég hafi gert rúmlega 200 þætti fyrir Rás eitt. Upphaflega skrifaði maður handritið með blýanti eða penna á blað og vélritaði síðan handritið. En svo komu tölvurnar, það tók mig tíma að venjast þeim og sætta mig við að nota þær. En ég lét mig hafa það,“ segir hún og bætir við að hún hafi aldrei lært fingrasetninguna almennilega. „Þegar ég var í Kvennaskólanum fengum við stelpurnar viðbótartíma í útsaumi í staðinn fyrir að læra að vélrita. Það nám hefur ekki nýst mér sérlega vel í gegnum tíðina,“ segir hún og kímir.

Deilur um Mannanafnanefnd

Guðrún og Jakob með afkomendum sínum.

Guðrún og Jakob með afkomendum sínum.

Mörgum þætti nóg um en Guðrún hefur auk þess að veita Orðabókinni fostöðu verið formaður Mannanafnanefndar, nefndar sem mögum hefur verið í nöp við. Fólk hefur talið sig hafa rétt á að nefna eða skíra börn sín þeim nöfnum sem það vill án afskipta hins opinbera. „Það eru margir sem hafa haft samband við nefndina í gegnum tíðina. Í langflestum tilfellum hafa þau samskipti verið ánægjuleg. Það var yfirleitt alltaf hægt að tala fólk til sem hringdi. Ég var tvö tímabil í Mannanafnanefnd og bæði skiptin sagði nefndin af sér. Í fyrra skiptið var ég formaður nefndarinnar og þá áttum við að gera eitthvað fyrir séra Jón sem var ekki hægt að gera fyrir Jón. Þáverandi dómsmálaráðherra kallaði mig á sinn fund vegna málsins. Ég sagði einfaldlega að eitt skyldi yfir alla ganga. Það fór eitthvað þvert í ráðherrann og nefndin sagði af sér síðdegis þennan sama dag. Svo var ég beðin um að koma aftur í nefndina nokkrum árum síðar.  Ég féllst á það með því skilyrði að ég þyrfti ekki að vera formaður. Þá var kominn nýr dómsmálaráðherra. En það var það sama upp á teningnum, við áttum að gera eitthvað fyrir séra Jón sem var ekki í boði fyrir Jón. Nefndin sagði af sér. Síðan hefur verið aðeins meiri friður hjá nefndinni. Það er ekki jafn mikið um það að ráðherrar séu að skipta sér af störfum hennar en þetta er ekki auðvelt starf. Nefndin hefur hins vegar gætt þess að gera aldrei neitt annað en fara nákvæmlega eftir þeim lögum sem hafa verið sett um störf hennar. Því var ekki hægt að samþykkja ráðherrabeiðnir sem voru andstæðar lögum. Á þessum tíma hefur lögunum verið breytt, það er búið að útvíkka þau. Nú er komið fram frumvarp um enn frekari breytingar. Verði það að lögum mega foreldrar gefa börnum sínum hvaða nöfn sem þeir vilja. Mér líst hins vegar ekkert á þessar breytingar og hef mótmælt þeim fyrir hönd Íslenskrar málnefndar.“

Sjaldan liðið eins vel og eftir að hún fór á eftirlaun

Þrátt fyrir að vera komin á eftirlaun er Guðrún í forsvari fyrir Íslenska málnefnd. „Helsta starf nefndarinnar undanfarið hefur verið að skrifa fyrirtækjum og stofnunum og benda þeim á að þær brjóti lög um íslenska tungu sem voru samþykkt árið 2011. „Við höfum til dæmis verið að benda Isavia á að þeir brjóti lögin en þeir hafa ekki enn svarað nefndinni. Raunar er það nú svo að menn eru ekkert að flýta sér að svara ábendingum frá okkur,“ segir Guðrún.Eins og áður sagði er Guðrún komin á eftirlaun en hvernig fannst henni að hætta í föstu starfi. „Ég hafði hugsað mikið um það áður en ég hætti. En einhvern veginn er það nú svo að mér hefur sjaldan liðið eins vel og eins og eftir að ég hætti að vinna. Ég hef alltaf haft mjög gaman af því að skrifa greinar og halda fyrirlestra og vinna að eigin rannsóknum. Það gerði ég alltaf meðfram fullri vinnu á Orðabókinni. Raunar var orðabókin sameinuð stofnun Árna Magnússonar og fleiri stofnunum og þá hét ég allt í einu sviðsstjóri.  Þá vann ég þau störf sem mér fannst mikilvægt að vinna á orðabókinni í átta tíma á dag en sat svo heima og skrifaði greinar og  bækur. Ég skrifaði til dæmis bók um íslensk mannanöfn og fleiri og fleiri bækur.  Allt þetta gerði ég að loknum vinnudegi á Orðabókinni. Í dag finnst mér afskaplega gott að vera hér heima í ró og næði. Ég hef aðstöðu í Árnagarði sem ég get notað ef ég vil en mér finnst afskaplega gott að vinna hér heima og sinna því sem mig hefur alltaf langað.“

Á toppnum.

Á toppnum.

Talar við eiginmanninn á hverjum morgni

Auk þess að sinna fræðistörfum og sitja í nefndum á vegum hins opinbera á Guðrún ýmis önnur áhugamál. „Ég reyni að skokka annan hvern dag, oftast með Trimmklúbbi Seltjarnarness. Svo hef ég afskaplega gaman að fara í fjallgöngur. Ég hef gengið um hálendi Íslands þvert og endilangt. Ég og maðurinn minn hann Jakob höfum verið í fjarbúð í tvo áratugi. Hann var prófessor í stærðfræðilegri eðlisfræði við Háskólann í Vín en er nú kominn á eftirlaun. Hann er mjög eftirsóttur fyrirlesari víða um Evrópu enn þann dag í dag og því finnst honum þægilegra að búa úti. Jakob kemur heim snemmsumars og þá göngum við saman á Íslandi ég fer svo út til hans þegar líður á sumarið og þá göngum við saman í Dólómítunum,“ segir Guðrún. En eflaust spyrja margir hvernig gangi að halda hjónabandi saman svona langan tíma í fjarbúð. Guðrún segir brosandi að það gangi vel. Þar komi tæknin að góðum notum. „Við tölum saman á hverjum einasta morgni yfirleitt um klukkan sex hjá mér ef það er sumartími hjá honum annars um klukkan sjö. Við tölum ábyggilega meira saman þegar hann er fjarverandi heldur en þegar við erum saman,“ segir Guðrún og bætir við að þau hafi líka meiri tíma til að vera saman eftir að bæði eru komin á eftirlaun. „Eftir að ég fór á eftirlaun er ég lengur úti hjá honum og hann lengur hér heima heldur en þegar við þurftum að telja niður sumarleyfisdagana.“

 

 

Ritstjórn júlí 1, 2016 11:51