Umferðin hér á landi hefur smám saman verið að þyngjast og orðið hraðari en hún var og er því meira krefjandi og vandasamri en fyrir fáeinum árum. Okkur hefur fjölgað og fjöldi ferðamanna undanfarinna ára er mikill. Segja má því að það krefjist góðrar færni að komast á milli staða. Þegar árunum fjölgar velta margir því fyrir sér hvenær sé best að hætta akstri og nýta sér aðra möguleika. Það sem hentar einum á alls ekki við um annan.
Endurnýjun ökuskírteinis
Þó er það þannig að flest okkar lenda í því að þurfa að velja hvort og þá hvenær við hættum að endurnýja ökuskírteinið. Þá þarf að skoða hvaða möguleikar eru í boði. Almenn ökuréttindi þarf að endurnýja við 70 ár aldur og gildir nýja skírteinið í 4 ár en eftir það þarf að endurnýja það þriðja og annað hvert ár en eftir 80 ára aldur á árs fresti. Umsóknareyðublað fæst hjá sýslumanni og á vefnum https://www.logreglan.is/adstod/eydublod/okuskirteini/
Ekki má nota eldri mynd en frá júní 2013 ef nota á mynd af umsækjanda úr gagnagrunni og ef myndin er orðin of gömul þarf viðkomandi að skila inn nýrri mynd af sér. Athuga þarf að ef meira en tvö ár líða frá því að ökuréttindi renna úr gildi verður að taka próf í aksturshæfni áður en réttindin fást endurnýjuð.
Þegar ökupróf er tekið þá ræður viðkomandi hvort hann taki próf á beinskipta eða sjálfskipta bifreið. Sé próf tekið á sjálfskipta bifreið eru ökuréttindin takmörkuð við þannig bifreið. Vilji menn breyta því þá er hægt að gera það síðar og ökupróf tekið á beinskipta bifreið.
Hægt er að gefa út ökuskírteini til styttri tíma eða takmarka ökuréttindi við ökutæki af sérstakri gerð eða með sértökum búnaði ef nauðsyn krefur. Takmörkunin kemur fram á ökuskírteininu.
Læknisvottorð
Umsækjandi þarf að skila inn læknisvottorði frá heimilislækni þegar sótt er um endurnýjun á almennum ökuréttindum ef umsækjandi er orðinn 65 ára eða eldri. Heimilislæknir athugar meðal annars sjón, heyrn og hreyfigetu ásamt öðru því sem getur haft áhrif á aksturshæfni. Dæmi um þætti sem fylgja oft hækkandi aldrei og geta haft áhrif á akstur eru:
- Viðbragðstími er lengri og hreyfingar hægari.
- Erfiðara getur verið að skynja hraða og fjarlægð.
- Sjón og heyrn skerðist oft.
- Hreyfigeta minnkar og stirðleiki eykst.
- Erfiðara getur verið að muna – sérstaklega nýleg atriði.
- Inntaka lyfja sem eru merkt með rauðum þríhyrningi.
Létt bifhjól
Nokkuð er um að eldri borgarar fái sér létt vélknúin bifhjól á tveimur, þremur eða fjórum hjólum en þessi hjól ná ekki meiri hraða en 25 km/klst. Notandi þarf að nota hjálm. Ef framleiðandi hjólsins staðfestir að hjólið sé gert fyrir farþega mega þeir, sem eru 20 ára og eldri, hafa farþega sem situr fyrir aftan ökumanninn.
Þessum tækjum má aka á gangstéttum, hjólastígum eða gangstígum. Engin vátryggingarskylda er á þessum hjólum. Þau eru skráningarskyld.
https://www.samgongustofa.is/lettbifhjol
Aðrir möguleikar
Gott er að huga vel að því hvort best sé að halda áfram að reka bíl. Það er ekki bara öryggi í húfi heldur ættu menn að skoða kostnaðarhliðina líka. Það er dýrt að eiga og reka bíl. Það kostaði tæpar 1.4 milljónir króna að eiga og reka 3.6 milljón króna bíl árið 2020 og aka hann 15 000 km á ári. Til gamans má geta þess að það kostar tæpar 1.2 milljónir króna að taka 5 leigubíla á viku og viðkomandi losar um 3.6 milljónir króna með því að selja bílinn.
Aðrir möguleikar eru í stöðunni og oft getur verið hentugt að blanda saman ólíkum aðferðum. Þegar aðgengi að strætisvagnastoppistöð er gott og veðrið skaplegt er gott og ódýrt að nýta þá þjónustu. Árskort fyrir 67 ára og eldri kostar aðeins 23.200 krónur.
Svokallaðir Zipbílar hafa hafið innreið sína á íslenskan markað en nálgast má slíka bíla á bílastæðum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og greiða klukkutímagjald fyrir notkun þeirra, auk mánaðargjalds. Sé slíkur bíl t.d. leigður 5 daga vikunnar í 90 mínútur í senn er heildarkostnaðurinn um hálf milljón króna á ári.
Með blandaðri notkun fararskjóta sem henta tilefni, veðri, efnum og hentisemi má láta á það reyna hvort hægt sé að spara einhverja fjármuni sem og notið þess að aðrir sjá um aksturinn s.s. strætisvagna- og leigubílstjórar.
Góð ráð fyrir eldri ökumenn
- Veldu þér tíma til að aka þegar hægt er að koma því við. Forðastu að aka á álagstíma, í ljósaskiptunum eða myrkri, hálku eða slæmu veðri.
- Veldu öruggar leiðir sem þú þekkir. Forðastu t.d. erfið og snúin gatnamót.
- Veldu bíl sem hentar þér og þínum aðstæðum með góðu útsýni til allra átta, sem auðvelt er að stíga inn í og út úr, stilla sæti og spegla. Veldu sjálfskipta bifreið.
- Kannaðu þær velferðarlausnir sem eru í boði t.d. hjá Öryggismiðstöðinni (snúningssæti, handfang á stýri, bakstuðning og auka spegla).
- Láttu ekki aðra í umferðinni trufla þig eða þvinga þig til að taka óþarfa áhættu eða aka hraðar en þú treystir þér til.
- Ef þú tekur inn lyf sem merkt eru með rauðum þríhyrningi skaltu ráðfæra þig við lækni um það hvort þér sé óhætt að aka.
- Aldrei að aka eftir neyslu áfengis eða annarra vímugjafa. Aldrei að nota farsíma við akstur.
- Haltu ökufærni þinni við – innanbæjar og utanbæjar.
- Passaður að farþegar þínir noti bílbelti og þeir sem eru lægri en 135 cm á hæð séu í viðeigandi bílstól.
- Taktu nokkra ökutíma hjá ökukennara ef þú finnur fyrir óöryggi í umferðinni. Ökukennarafélag Íslands getur leiðbeint þér með val á kennara, s. 898 0360 www.aka.is
- Sæktu upprifjunarnámskeið um öryggi í akstri fyrir eldri ökumenn þegar það býðst.
Unnið upp úr bæklingnum Akstur á efri árum, sem Landssamband eldri borgara gaf út nýlega.