Er ökskírteinið nokkuð að renna út?

Þeir sem eru með íslenskt ökupróf ( B réttindi) þurfa að endurnýja ökuskírteinið við 70 ára aldur. Ekki gleyma að endurnýja vegna þess að ef meira en tvö ár líða frá því ökuréttindi falla úr gildi, verður að taka próf í aksturshæfni áður en réttindin fást endurnýjuð.  Próf sem er endurnýjað við sjötíu ára aldur gildir í 4 ár. Ef fólk endurnýjar skírteinið 71 árs, gildir það í 3 ár. Eftir 72ja ára aldur þarf að endurnýja skírteinið annað hvert ár. Eftir áttrætt þarf að endurnýja prófið árlega. Þetta kemur fram á vefsíðu samgöngustofu sjá hér og þar er einnig að finna umsóknareyðublað til endurnýjunar ökuskírteinisins.

Það sem hefur áhrif á akstur þegar fólk eldist

Á vefsíðunni er einnig að finna dæmi um þætti sem fylgja oft hækkandi aldri og geta haft áhrif á akstur.

  • Viðbragðstími lengri og hreyfingar hægari
  • Erfiðara að skynja hraða og fjarlægð
  • Sjón og heyrn skerðist
  • Hreyfigeta minnkar og stirðleiki eykst
  • Erfiðara að muna, sérstaklega nýleg atriði
  • Inntaka lyfja sem eru merkt með rauðum þríhyrningi

 

Ráð Samgöngustofu fyrir eldri ökumenn

Veldu þér tíma til að aka. Forðastu að aka á álagstíma, í ljósaskiptum

eða myrkri, hálku eða slæmu veðri.

Veldu öruggar leiðir sem þú þekkir. Forðastu t.d. erfið og snúin gatnamót.

Veldu bíl sem hentar þér og þínum aðstæðum, með góðu útsýni til allra

átta, sem auðvelt er að stíga inn í og út úr, stilla sæti og spegla, jafnvel

með sjálfskiptingu.

Kannaðu þær velferðarlausnir sem í boði eru t.d. hjá Öryggismiðstöðinni

(snúningssæti, handfang á stýri, bakstuðning, auka spegla o.fl.).

Láttu ekki aðra í umferðinni trufla þig eða þvinga þig til að taka óþarfa

áhættu eða aka hraðar en þú treystir þér til.

Ef þú tekur inn lyf sem er merkt með rauðum þríhyrningi skaltu ráðfæra

þig við lækni um það hvort þér sé óhætt að aka.

Aldrei aka eftir neyslu áfengis eða annarra vímugjafa.

Ekki nota farsíma eða önnur snjalltæki sem geta truflað athygli þína við

akstur.

Haltu ökufærni þinni við, innanbæjar og utanbæjar.

Hafðu í huga að farþegar þínir noti bílbelti og að börn lægri en 135 cm á

hæð séu í viðeigandi bílstól í bílnum hjá þér.

Taktu nokkra ökutíma hjá ökukennara ef þú finnur fyrir óöryggi í

umferðinni. Ökukennarafélag Íslands getur leiðbeint þér með val á

ökukennara, s. 898-0360 www.aka.is.

Sæktu upprifjunarnámskeið um öryggi í akstri fyrir eldri ökumenn þegar

það býðst.

 

þegar aðrir hafa  áhyggjur af akstrinum

Ef aðrir hafa áhyggjur af hæfni þinni til að aka skaltu taka því alvarlega.

Líttu á það sem vísbendingu um umhyggju fyrir þér og áhyggjur af velferð

þinni. Ræddu málið við nánustu aðstandendur eða vini, heilbrigðisstarfsfólk

eða félagsþjónustu.

Kynntu þér fyrirkomulag akstursþjónustu eldri borgara í þínu sveitarfélagi.

Berðu saman kostnað við að reka bíl samanborið við að nýta

almenningssamgöngur, akstursþjónustu sveitarfélaga eða leigubíl.

Ritstjórn september 19, 2023 14:32