Allir hafa sínar hugmyndir um hvernig ákveðnar sögupersónur líta út og það getur skapað ýmist vonbrigði eða mikla ánægju þegar leikarar eru valdir í hlutverk þeirra. Leikgerðir og kvikmyndir eftir skemmtilegum bókum eru almennt mjög vinsælar en leikaravalið ræður það miklu um.
Það má til dæmis nefna að mörgum blöskraði þegar Tom Cruise var valinn í hlutverk Jack Reacher úr bókum Lee Child um þennan fyrrum herlögreglumann. Jack er lýst þannig í bókinni að hann gnæfi yfir flesta aðra menn, sé um 2 m á hæð, og þrekinn. Enginn myndi lýsa Tom Cruise á þann hátt. En góðir leikarar geta oft engu að síður sannfært sína áhorfendur og skilað persónunni á trúverðugan hátt. En stundum verða til margar útgáfur af sumum bókum og mismunandi leikarar túlka persónurnar. Þá eignast hver sinn uppáhaldsleikara í hlutverkinu. Ein slík persóna er Miss Marple úr bókum Agöthu Christie. Til þessa hafa sjö leikkonur gert henni skil á hvíta tjaldinu og hver og ein sett sinn svip á hlutverkið.
Miss Marple er einn frumlegasti og skemmtilegasti spæjari bókmenntagreinarinnar sakamálasagna fyrr og síðar. Þessi sakleysislega gamla kona með prjónana virðist við fyrstu sýn síst af öllu hættuleg. Skarpur hugur og óbrigðul athyglisgáfa gera það hins vegar að verkum að heimskulegt er að láta sér detta í hug að hægt sé að komast upp með morð þar sem hún er nálæg eða yfirleitt nokkra misgjörð. Fyrsta bókin um Miss Marple var Murder at the Vicarage. Þar leitar eiginkona prestsins, Griselda, til Miss Marple eftir hjálp. Colonel Protheroe finnst látinn í dagstofunni á prestsetrinu og Griselda vill umfram allt að sannleikurinn komi í ljós.
Fyrsta kvikmyndin árið 1961
Margaret Rutherford var fyrst til að túlka hina óviðjafnanlegu Miss Marple en þrjár kvikmyndir voru gerðar eftir sögum Agöthu um hana á árunum 1961-1964. Þær voru Murder She Said, Murder at the Gallop, Murder Most Foul og Murder Ahoy. Margaret nálgaðist hlutverk sitt með skemmtilegri kímni en mörgum fannst hún alls ekki passa við þær lýsingar sem gefnar eru á Miss Marple í bókunum.
Joan Hickson varð fyrst til að túlka Miss Marple í sjónvarpsþáttaröð sem gerð var af BBC á árunum 1984 til 1992. Margir Bretar telja hana enn í dag draga um raunsönnustu myndina af Miss Marple. Joan passar fullkomlega við útlitslýsinguna því Miss Marple er sögð grannvaxin, aðlaðandi og með greindarlegt blik í bláum augum. Þeir eru til sem segja Joan of augljóslega meðvitaða um umhverfi sitt. Það sé ekki hægt að vanmeta hana en tilhneiging fólks til að taka ekki eftir Miss Marple og telja enga hættu stafa af henni sé einmitt hennar helsti styrkur þegar kemur að því að leysa málin.
Næst tók við hlutverkinu Geraldine McEwan. Hún er uppáhald margra sem telja hana hina fullkomnu blöndu sakleysislegs útlits, skarprar greindar og náttúrulegrar tortryggni. Þá hafa menn í huga að Miss Marple trúir engu sem henni er sagt fyrr en hún getur sannreynt það. Geraldine passar einnig fullkomlega við útlitslýsinguna og hún hefur þetta yfirbragð sakleysis og látleysis sem einmitt gerir það að verkum að flestir taka alls ekki eftir henni og greindarlegum augum hennar. Geraldine lék Miss Marple í sjónvarpsmyndum sem gerðar voru á árunum 2004-2013.
Stjörnum prýdd mynd og útvarpsleikrit
Á árunum 2008-2013 voru gerðar nokkrar sjónvarpskvikmyndir eftir sögunum um Miss Marple og Julia McKenzie lék hana í þeim. Hún Miss Marple mýkra og blíðlegra yfirbragð en fyrirrennararnir.
En auk þessara fjögurra hafa þrjár aðrar þekktar leikkonur spreytt sig á Miss Marple hver í sinni kvikmyndinni. Angela Lansbury lék hana í The Mirror Crack’d frá árinu 1980. Mótleikarar hennar voru ekki af verri endanum, Elizabeth Taylor, Tony Curtis, Rock Hudson, Kim Novak, Edward Fox og Geraldine Chaplin. Angela þótti koma einkar vel til skila hversu greind og skarpskyggni Miss Marple er en sumum fannst skorta talsvert á að hún væri nægilega óáberandi. Það sópar óneitanlega að Angelu Lansbury og mörgum fannst ólíklegt að nokkur myndi líta framhjá henni en það er lykilatriði í bókunum hversu gjarnt fólk er á að vanmeta Miss Marple.
Helen Hayes lék Miss Marple í tveimur bandarískum sjónvarpsmyndum, A Caribbean Mystery frá 1983 og Murder with Mirror frá 1985. Helen endurvakti húmorinn sem Margaret Rutherford hafði líka undirstrikað og Miss Marple er vissulega gefinn af Agöthu Christie. Hún er glaðleg og elskuleg og alls ekki líkleg til stórræða.
June Whitfield er rödd Miss Marple í hugum margra Breta en hún túlkaði spæjarann snjalla og óvenjulega í útvarpsleikritum á árunum 1993-2001.
Þessar hæfileikaríku leikkonur hafa túlkað persónuna hver á sinn hátt og allar nýtt sér eitthvað sem sannarlega má finna í bókunum. Það er erfitt að dæma um hver þeirra sé best enda líklegt að hver og einn aðdáandi bókanna eigi sér sitt uppáhald. Þannig er það líka með Sherlock Holmes, en hvorki meira né minna en 350 leikarar hafa reynt sig við þann karakter, James Bond og Önnu í Grænuhlíð en þær eru 24 sem hafa leikið hana í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Eitt er hins vegar víst að í framtíðinni eiga fleiri eftir að spreyta sig á Miss Marple því ekkert lát er á vinsældum bókanna.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.