Illkvittni og hefnigirni – svanir gleyma ekki

Nýlega var sýndur þriðji þáttur í nýrri þáttaröð Gus Van Sant, Feud. Að þessu sinni eru það deilur Truman Capote við svanina sína sem hann tekur fyrir. Margir muna eftir fyrri þáttum þar sem þær Joan Collins og Bette Davis tókust á en frægt var í Hollywood að á milli þeirra ríkti togstreita og þær voru sannarlega engar vinkonur.  En hvers vegna ættu einhver eldgömul rifildi tveggja Hollywood-leikkvenna eða erjur rithöfundar við yfirstéttarkonur að höfða til að vekja athygli nútímasjónvarpsáhorfenda? Því er vandsvarað en Gus Van Sant tekst á ótrúlegan hátt að draga upp trúverðuga og athyglisverða mynd af þessu fólki með öllum þeirra brestum og kostum. Tom Hollander leikur Truman og mikið hefur verið fjallað um það í erlendum fjölmiðlum að það sé nánast eins og rithöfundurinn sé risinn upp frá dauðum svo sannfærandi sé hann í hlutverkinu. Einna áhrifamest er þó í þessum þáttum svo illkvittni sem Truman sýnir vinkonum sínum með því að fjalla um einkalíf þeirra á mjög niðurlægjandi hátt og hefnigirni þeirra og ísköld höfnun eftir að hann birtir það sem hann kallaði skáldskap. Það gefur auðvitað tilefni til að velta fyrir sér skilunum milli skáldskapar og raunveruleika og hvenær rithöfundar megi fjalla um raunverulegar persónur og atvik úr lífi þeirra í bókum.

En þættirnir koma líka inn á ótalmargt annað, til að mynda hvernig hæfileikaríkt fólk lifir í afneitun, hvernig það að missa auð og völd getur orðið til þess að manneskja sætti sig við hvað sem er, hversu sterkt afl öfundin getur verið og líkt og Lísa í Undralandi lærði ætti maður aldei að móðga hjartadrottninguna. Slim Keith er í þessum þáttum sú sem heldur við og hvetur til þess að útloka eða cancellera, eins og það er gjarnan kallað í dag, Truman. Fram að því hafði hann verið kjölturakkinn, trúðurinn og trúnaðarmaður þessara kvenna. Sá sem fóðraði þær með safaríkum sögum af verstu stundum annarra. Hann átti til að mynda sinn þátt í að koma þeirri sögu á flot að Ann Woodward hefði skotið eiginmann sinn viljandi en ekki fyrir slysni. Hrina innbrota hafði verið í hvefinu og eftir að hjónin höfðu gengið til náð hvort í sínu herbergi fór hann fram úr til að ná í eitthvað og hún skaut hann með haglabyssu, sem hún geymdi við rúmið af ótta við þjófa. Samkvæmt þáttununum hafði Truman verið vinur hennar en vinslit orðið milli þeirra og hann fullyrti að hún hefði játað fyrir honum að hafa viljandi drepið mann sinn. Ann Woodward framdi sjálfsmorð með því að taka eitur eftir að La Côte Basque, kafli úr óútgefinni skáldsögu Trumans birtist í Esquire. Sú illkvittni sem hann sýndi þá og í því hvernig hann fjallaði um hjónaband Bill og Babe Paley er andstyggileg og verður ekki afsökuð með listrænu skáldaleyfi. En viðbrögð kvennanna voru mun alvarlegri og harðari en hann hafði órað fyrir. Lifðu núna hefur áður fjallað um baksögu þessara eftirtektarverðu þátta og þá umfjöllun má sjá hér að neðan.

 

Ritstjórn febrúar 9, 2024 18:32