Hvernig er sjálfsvirðing þín?

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur og kennari hjá Líkamsrækt JSB

Mikið hefur verið rætt um líkamsvirðingu undanfarið. Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur, hefur ötullega barist fyrir því í ræðu og riti að fólk staldri við í dómhörku sinni í annarra garð og eigin, sérstaklega varðandi líkamlegt útlit. Fyrirtækið Dove hefur einnig beint kröftum sínum að því að efla líkamsvirðingu kvenna, enda full þörf á eftir því sem dæmin sanna. Það eru ýmsar og flóknar ástæður fyrir þessari sorglegu þróun sem virðist einna mest áberandi í fari kvenna. Útlitsdýrkun og klámvæðing er meðal þess sem talið er að eigi hlut að máli en hversu rík ætli almenn sjálfsvirðing okkar sé og hvernig ölum við á henni?

 Sú er merkileg með sig!

Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur kannast sjálfsagt við að hafa fengið þau skilaboð í æsku og uppvexti að ekki ætti að trana sér fram. Enn fremur hefur sjálfshól löngum ekki þótt við hæfi, né heldur að segja almennt eitthvað jákvætt um sjálfan sig. Aftur á móti hefur jafnan þótt fremur flott að taka sig svolítið niður og draga úr eigin ágæti. Þannig var hægt að sýna fram á að maður væri ekki merkilegur með sig og þar með gjaldgengur í samfélaginu.

Ekki hrósa

Segja má að áhersla á neikvæð skilaboð í eigin garð hafi verið nokkuð ríkjandi hér á landi. Reyndar hefur heldur ekki mátt hrósa neinum öðrum, allra síst þeim sem eru manni nákomnir. Ýmsar sögur man ég eftir að hafa heyrt sagðar í háðuglegum tón af konum sem tíunduðu kosti barna sinna í annarra áheyrn. Jafnframt hefur almennt verið talið merki um einfeldningshátt að segja blákalt að eitthvað í eigin fari og jafnvel annarra væri í lagi.

 Svo kom sálfræðin

Svo varð bylting í þessum efnum þegar sálfræðin fór að ryðja sér til rúms og fólk fór að rýna inn á við og kanna eigin sjálf og sálarkima. Með liðsinni þeirra fræða opnuðust augu okkar m.a. fyrir því hvernig best er að læra og tileinka sér hluti. Sýnt var fram á að jákvæð styrking skilaði haldbetri lærdómi en refsing og neikvæðni, farið var að gefa börnum meiri gaum sem mannverum og unglingar fóru að líta dagsins ljós.

Að brjóta hefð á bak aftur

Í kjölfarið fórum við að átta okkur betur á skaðlegum áhrifum neikvæðu skilaboðanna sem við höfðum vanist og hugtök á borð við sjálfstyrkingu urðu hluti af almennri orðræðu. Allur sá fjöldi bóka og námskeiða sem miðast við að efla sjálfstraust og hvetja fólk til að sættast betur við veruna í eigin skinni talar ef til vill sínu máli um almennt sjálfsmat okkar. Þó svo að skynsemin segi eitt er ekki þar með sagt að tilfinningarnar fylgi henni að máli. Aldalöng hefð fyrir því að gera sem minnst úr sér og sínum verður ekki brotin á bak aftur í einni hendingu. Jafnvel þótt við teljum okkur hafa sterka og góða sjálfsmynd er ekki víst að hún risti svo djúpt þegar á reynir.

Hvað með þig?

Hversu auðvelt reynist þér t.d. að nefna 5 jákvæða og 5 neikvæða hluti um þig? Ég hef oft prófað þetta á ýmsum hópum og alltaf reynist fólki jafn erfitt að segja eitthvað jákvætt um sig án þess að grípa til gríns eða kaldhæðni. Þetta neikvæða vefst hins vegar ekkert fyrir. Ef við ætlum að vera ærleg þurfum við hins vegar að geta horfst í augu við okkur sjálf án feimni og vandræðagangs. Það á ekkert skylt við sjálfumgleði eða sperring að finnast maður gera eitthvað rétt. Skárra væri það nú! Mont er til komið vegna brenglaðrar sjálfsmyndar og geti maður ekki viðurkennt neina kosti í eigin fari án þess að fara í flækju, þá er sjálfsmatinu engu minna ábótavant. Áhersla forvera okkar á þetta ofurlítillæti hefur áreiðanlega verið vel meint og merkilegt umhugsunarefni út af fyrir sig. Hverjar sem ástæðurnar eru hafa þessar úrtölur sannarlega mótað okkur og gera enn. Þær hafa lagt sitt af mörkum til að bjaga eðlilega sjálfsvirðingu og þegar við þekkjum ekki eigin styrk og veikleika, liggjum við auðveldlega við höggi.

 

 

 

Ritstjórn maí 19, 2015 10:09