Hvít súkkulaðimús með piparmintulíkjör

Blaðamaður Lifðu núna er oft í vandræðum með eftirrétti á sparidögum. Notar sömu eftirréttina aftur og aftur. Hérna er hins vegar girnileg súkkulaðimús sem er fengin að láni frá Matarbloggi Önnu Bjarkar Eðvarðsdóttur sem deilir gjarnan uppskriftum með okkur hér á vefritinu. Uppskriftin er svona:

300 gr. hvítt súkkulaði
2 ½ dl rjómi
2 eggjahvítur
3 msk. piparmyntulíkjör (best að smakka til, misjafnt hvað maður vill sterkt bragð)

Þeyttur rjómi, til að skreyta með

Anna Björk lýsir aðferðinni þannig:

Súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði, og hrært í því annað slagið. Þegar það er bráðið er það látið kólna í smástund.
Rjóminn er þeyttur með 1 eggjahvítu og líkjörnum í. Ekki þeyta hann of mikið. Svo er smávegis af rjómanum hrært saman við bráðnaða súkkulaðið, svo er restinni hrært samanvið. Hin eggjahvítan er sífþeytt og hrærð varlega útí.
Skreytt með smá rjómatoppi sem grænum piparmyntulíkjörnum er hellt yfir, smá kitch. Kæla í allavega 2-3 tíma.
Mér finnst skemmtilegast að hafa lítið glas eða skál fyrir hvern og einn. Mússin er sæt og bragðmikil svo lítill skammtur fer langt, svo má alltaf fá sér annan :-). 8-10 litlir skammtar (ca. 2 sósuausur í hvert glas)

 

Ef þið viljið skoða fleiri uppskriftir Önnu Bjarkar smellið þá hér.

Ritstjórn október 12, 2018 13:35