Girnileg rauðspretta og létt í magann

Anna Björk Eðvarðsdóttir matarbloggari er einstaklega fundvís á létta og góða rétti. Hún tekur myndirnar af matnum sjálf og þær eru ótrúlega góðar, eins og sjá má. Hérna er linkur á matarbloggið hennar fyrir þá sem hafa áhuga. Hún hefur gefið Lifðu núna leyfi til að nota uppskriftir af blogginu og við stóðumst ekki mátið að birta þessa girnilegu uppskrift að Indverskri rauðsprettu með dill fyllingu. Létt og góð í magann. Uppskriftin er fyrir fjóra.

Það sem til þarf er:

4 meðalstór rauðsprettuflök

3 tsk. sítrónusafi

Salt og pipar

2 msk. olía

1 hvítlauksrif, marið

2.5 cm biti engiferrót, rifin

1/4 tsk. cayanne pipar

1/4 tsk. turmeric

4 vorlaukar, fínsaxaðir

8 msk. saxað ferskt dill

Meðlæti:

Smjör

Sítrónubátar

Gott salat

 

En gefum Önnu Björk orðið:

Rauðspretta er svo fínlegur og góður fiskur. Ég sá svo falleg flök um daginn hjá Fisksalanum mínum í Mosó. Þá mundi ég eftir þessari góðu uppskrift sem ég hef ekki gert í smá tíma. Hún klikkaði ekki frekar en áður svo ég vona að þú prófir ef þú hefur ekki gert hana 🙂

En svona er aðferðin:

Ofninn er hitaður í 180°C. Eldfast fat smurt með smá olíu að innan. Roðhliðin á flökunum er skafin með bakinu á hnífsblaði, og þerruð með eldhúspappír. Sítrónusafa, salti og pipar er drussað á flökin og þau látin marinerast í 30 mín. Olían er hituð á pönnu og hvítlaukur, engifer cayanne, turmeric og vorlaukur steikt í 2-3 mín., eða þar til laukurinn mýkist aðeins. Pannan er þá tekin af hitanum og dillinu hrært útí.Fyllingunni er skipt á milli flakanna, á roðhliðina, og flökunum er svo rúllað upp frá þykkari endanum. Fatið er þakið með álpappír og flökin bökuð í 15-20 mín. Mér finnst gott að setja góða klípu af smjöri á fatið þegar ég tek það út úr ofninum og kreist smá sítrónu yfir og leyfa þessu að bráðna saman við safan úr fiskinum og nota sem sósu. Gott salat og auka bátar af sítrónu er frábært með og kartöflur ef þú vilt.

Verði þér að góðu 🙂
Ritstjórn apríl 5, 2019 12:59