Innflúensutímabilinu lýkur senn

Þeim sem eru sextugir og eldri er ráðlagt að láta sprauta sig gegn innflúensu á haustin og margir hafa farið að þeim ráðum og láta sprauta sig gegn flensunni árlega. Vefurinn Heilsuvera gefur eftirfarandi upplýsingar um innflúensu:

Inflúensa er sýking af völdum inflúensuveira A og B í öndunarfærum. Sýklalyf virka ekki á inflúensuveirur. Á vetri hverjum gengur inflúensan yfir á tímabilinu október til mars og er hún 2–3 mánuði að ganga yfir. Í daglegu tali er oft talað um flensu en það orð er líka oft haft um sýkingar í öndunarfærum sem ekki eru inflúensa, þannig er innflúensu lýst á vefnun Heilsuveru.

Einkenni

Einkenni inflúensunnar koma oftast snögglega yfir fólk og algengustu einkennin eru:

 • Hiti
 • Hósti
 • Nefrennsli
 • Höfuðverkur og beinverkir (verkir í öllum líkamanum)
 • Hálsbólga og kvef eru sjaldgæfari einkenni í flensu en geta þó fylgt

Smitleiðir

Veiran berst milli manna með dropasmiti við hósta eða hnerra og/eða með snertismiti

Til að forðast smit er mikilvægt að:

 • Þvo hendurnar oft með vatni og sápu
 • Halda sig fjarri fólki sem er með inflúensu
 • Láta bólusetja sig árlega gegn inflúensu

Greining

Hægt er að greina sjúkdóminn með sýnatöku frá nefi eða hálsi.

Skyndipróf geta leitt til bráðabirgðaniðurstöðu samdægurs en ræktun tekur nokkra daga.

Hvað get ég gert?

 • Haltu þig heima og hvíldu þig.  Vertu heima þar til þú hefur verið einn sólarhring hitalaus og án hitalækkandi lyfja.
 • Drekktu vel af vatni.
 • Taktu hitalækkandi lyf sem þú færð í apóteki.
 • Þolinmæði, það tekur líkamann 1-2 vikur að jafna sig á inflúensu.

Hvenær skal leita aðstoðar?

 • Ef bati er hægur og einkenni langdregin. Einkenni inflúensu geta varað lengi og hiti er oft í marga daga.
 • Þú finnur fyrir andþyngslum.
 • Þú hefur verk fyrir brjósti eða maga.
 • Þig svimar eða finnur fyrir sljóleika.
 • Þú kastar mikið upp.

Finna næstu heilsugæslu hér.

Ef þú vilt vita meira um innflúensuna og áhrif hennar á aðra aldurshópa, smelltu hér.

Ritstjórn febrúar 14, 2023 14:17