Hvað gerðist eiginlega?

,,Ég var að hlusta á fréttir af stríðinu í Úkraínu fyrir einungis nokkrum árum þegar það sló mig á að ég ætti sjálf fjölskyldu sem fór í gegnum hremmingar af völdum stríðs fyrir ekki svo löngu síðan og afleiðingarnar væru enn að koma fram,“ segir Elín Hirst sem tók sig til og skrifaði niður sögu sinnar eigin fjölskyldu sem nú er komin út á bók og nefnist ,,Afi minn stríðsfanginn“. ,,Og enn eru stríðandi fylkingar að skapa aðstæður þar sem bæði börn og fullorðnir upplifa hörmungar sem vitað er að muni skaða heilu kynslóðirnar,“ segir Elín.

Nú eru liðin hátt í 80 ár frá þessum atburði sem markaði líf allra í fjölskyldu Elínar en hún ólst upp við þá vitneskju að afi hennar hafi verið í fangelsi í stríðinu og að það væri ekki gott að tala mikið um það. Hún ólst líka upp við reiðina í ömmu sinni sem upplifði gífurlegt áfall þegar vopnaðir menn réðust inn á heimili þeirra 1940 og tóku mann hennar fastan og hún var skilin eftir með tvö lítil börn. Þetta mikla áfall og þöggunin sem því fylgdi segir Elín að hafi síðan orðið hluti af erfðamengi fjölskyldunnar. ,,Ég er núna sannfærð um að þessi atburður framkallaði áfallastreituröskun hjá þeim öllum“ segir Elín.

Marta á Undralandi

Amma Elínar hét Þóra Marta Stefánsdóttir og var kennd við býli sem foreldrar hannar ráku og hét Undraland við Þvottalaugaveg. Býlið stóð þar sem Listhúsið  við Suðurlandsbraut stendur nú. Þegar faðir Mörtu lést voru þær mæðgurnar einar með búið og auglýstu þá eftir ráðsmanni. Einn af þeim sem sóttu um var ungur Þjóðverji sem hét Karl Hirst og hann var ráðinn. Karl kunni vel til verka og reyndist vel og þar með byrjaði falleg saga sem fór þannig að Karl og heimasætan Marta felldu hugi saman. Þau vissu ekki þá hvað beið þeirra en seinni heimsstyrjöldin skall á nokkrum árum síðar og átti eftir að marka líf þeirra alla ævi.

Amma Elínar var alltaf kölluð Marta á Undralandi og var aðsópsmikil kona sem hafði góða og milda nærveru þrátt fyrir að hafa reynt margt um ævina.

Amma og afi Elínar með föður hennar lítnn, nokkrum árum áður en hinir örlagaríku atbiurðir áttu sér stað.

En hvað gerðist?

Elín var búin að ganga með bókina um afa hennar í maganum í mörg ár þegar hún lét verða af því að rita hana niður. ,,Ég hafði margoft lýst því yfir að ég ætlaði að komast að því hvað gerðist þegar afi var búinn að vera í fangabúðunum í 5 ár og stríðinu var lokið. Þá var stríðsföngum sleppt lausum og engum datt annað í hug en að þeir fengju að fara heim til fjölskyldna sinna, en þá áttu eftir að líða tvö heil ár þar til hann fékk loksins að koma heim til Íslands,“ segir Elín.

,,Ég byrjaði á að skrifa Þjóðskjalasafninu um áramótin síðustu og bað um öll skjöl sem vörðuðu afa minn, Karl Hirst, á þessu tímabili frá því að Bretar hertóku landið 1940 og allt til 1947 þegar hann kom loksins heim. Það var engum blöðum um það að fletta að nokkrum vikum síðar fæ ég í hendurnar þvílíkt efni um hann sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til. Þetta voru skjöl frá Dómsmálaráðuneytinu, Utanríkisráðuneytinu, sendiráðinu í Kaupmannahöfn, ræðismanni Íslands í Þýskalandi og sendiráðinu London og þetta var þvílíkur efniviður fyrir mig að vinna úr. Ég sá strax að þetta hafði verið stórt mál í stjórnsýslunni á þessum tíma og að ég gæti sannarlega komið á framfæri hvað hefði í rauninni gerst.“

Byrjaði á byrjuninni

Elín segist hafa séð að til að bókin gæfi heildstæða mynd af því sem átti sér stað þyrfti hún að byrja á byrjuninni. Af hverju og hvenær afi hennar kom til Íslands og svo íslenska konan og líf þeirra saman. Ég var með þá sögu nokkuð heillega en árin 1940 til 1947 höfðu verið á huldu. Bretarnir komu hingað 10. maí 1940 og hófu strax að handtaka Þjóðverja, fyrst þá sem þeir töldu vera hættulega en síðan liðu nokkrar vikur og afi var svo handtekinn í júlí að því er virtist af því hann var þýskur ríkisborgari á herskyldualdri. Amma var þýskur ríkisborgari líka af því þau voru gift en konum var hlíft. Þegar þarna var komið sögu áttu þau fimm ára dreng, sem var pabbi minn, og svo bróður hans sem þá var  tæplega tveggja ára.“

Tæp áttatíu ár liðin

Þegar stríðinu lauk 8. maí 1945 hafði amma Elínar ráðið sig sem kennari í Vestmannaeyjum en var á leið heim og datt auðvitað ekki annað í hug en að eiginmaður hennar væri á leiðinni heim. ,,Síðan eru liðin 76 ár og enn eru afleiðingar þessara atburða að hafa áhrif,“ segir Elín. ,,Svo fann ég dýrmætar heimildir sem amma hafði skilið eftir sig þar sem hún var að skrifa um heimsókn þeirra til Þýskalands 1935 en þá var Hitlerstíminn allsráðandi. Amma var þarna  að hitta tengdaforeldra sína í fyrsta sinn og lýsir því hvernig allt er umhorfs í Þýskalandi. Fólk var bjartsýnt, atvinnustigið hækkandi og almenn vellíðan. Síðan átti Nasisminn eftir að sýna sitt rétta andlit,“ segir Elín.

Finnur sig í skrifunum

 Elín er orðin sextug og segir að á þessum aldri sé svo gott að finna sig rækilega í viðfangsefnum sem grípa og maður hefur brennandi áhuga á. ,,Ég get vel hugsað mér að snúa mér meira að skrifum,“ segir hún. ,,Þótt ég sé ekki komin að starfslokum þá er þetta aldursskeið sem ég er á svo gefandi og spennandi. Ég bý yfir mikilli reynslu af vinnumarkaðnum og langar að nýta hana enn frekar í spennandi verkefni,“ segir Elín.

Afi minn stríðsfanginn er þriðja bók Elínar en þær tvær fyrri voru saga Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur sem kom út 2011 og síðan kom út bók eftir hana 2013 um flóttafólk frá Bosníu sem var bjargað hingað til Íslands af fjölskyldu frá Bolungarvík. ,,Síðan er búið að vera 10 ára hlé frá rithöfundarferlinum,“ segir hún og hlær. Elín býr yfir mikilli reynslu úr ýmsum áttum en flestir muna eftir henni úr sjónvarpinu, bæði á Stöð 2 og á RÚV, þar sem hún var fréttastjóri og fréttaþulur allt til 2010.  Árið 2013 var Elín kosin á þing en eftir það tók hún til við að framleiða vinsæla þætti um loftslagsmál  fyrir RÚV og Saga film í nokkur ár. Síðan fór hún á Torg ehf., til Sigmundar Ernis á Fréttablaðið og Hringbraut og var þar þangað til fór að hrikta í öllu þar. ,,Þá fór ég í Forsætisráðuneytið og fór að vinna þar í mjög skemmtilegum verkefnum tengdum sjálfbærri þróun og loftslagsmálum.

,,Fyrrverandi alþingismaður“ ekki góður titill

Elín segist aðeins hafa fundið fyrir því að kennitalan hafi farið að hafa áhrif eftir vissan aldur en þó hafi hún frekar fundið að titillinn ,,fyrrverandi alþingismaður“ sé ekki gott veganesti og fleiri hafi fundið fyrir því sama. ,,Það var ný og alveg frábær reynsla fyrir mig að hafa fengið að prófa að setjast á þing,“ segir Elín og sér ekki eftir þeim tíma.

Amma fjögurra barna

Elín með barnabörnunum sínum fjórum: Friðrik Ólaf Friðriksson Hirst, Elín heldur á Arnaldi Hirst Stefánssyni, Margrét Stefanía Friðriksdóttir Hirst og Hólmfríður Elín Friðriksdóttir Hirst.

Elín á tvo syni og fjögur barnabörn. Þau eru 8, 11 og tæplega 13 ára og svo á yngri sonur minn lítinn sjö mánaða trítill. ,,Bókin er tileinkuð  barnabörnunum mínum en þau eru svo mikið djásn í lífinu,“ segir Elín. ,,Mér þykir mjög mikilvægt að saga okkar sé til fyrir afkomendur okkar. Ég er þegar byrjuð að skrifa aðra bók en nú skrifa ég um fólkið sem var á undan ömmu og afa og sú saga er líka svo merkileg. Saga forfeðranna skýrir svo margt í lífinu okkar,“ segir Elín sem er komin á flug á ritvellinum.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 1, 2023 07:00