Vínarborg er þekkt fyrir tónlist, fagrar byggingar og litríka menningu, ekki hvað síst kaffimenningu. Austuríkismenn kunna sannarlega að baka og kökurnar á kaffihúsum Vínar eru frægar um allan heim. Nánast hver einasti túristi í borginni sest inn á eitt þeirra og nýtur þess að drekka gott kaffi og borða köku. Eitt kaffihús hefur þó mikla sérstöðu og margir gera sér sérstaka ferð þangað. Það heitir Vollpension sem hefur tvíþætta merkingu á þýsku, full eftirlaun og einnig hótel eða gistiheimili þar sem matur er seldur líka. Þar vinna eftirlaunaþegar og ungt fólk hlið við hlið og leggja sig fram um að gera heimsóknina eftirminnilega fyrir gesti.

Frau Marianne nýtur þess að ganga um og spjalla við gesti. Hún var áður ritari á lögmannsstofu.
Kaffihús Vínarborgar eru komin á heimsminjaskrá UNESCO svo sérstæð eru þau og það félagslega hlutverk sem þau hafa gengt og gegna enn í dag. Vollpension er hins vegar meðal þeirra yngstu. Það var stofnað árið 2012 af Mike Lanner og Moriz Piffl. Þeir sátu saman á kaffihúsi og borðuðu ólystuga þurra köku og töluðu um hve miklu betra bakkelsið hefði alltaf verið hjá ömmum þeirra. Þeir voru viðskiptafélagar og ráku saman gallabuxnaframleiðslufyrirtækið, Gebrüder Stitch, en þar er sjálfbær og vistvæn hugmyndafræði grundvöllur allrar framleiðslu. En þessi hugmynd um að hægt væri að gera betur og bjóða gómsætara meðlæti en það sem þeim bauðst þennan dag lét þá ekki í friði.
Þeir kynntust Juliu Krenmayr í frumkvöðlamiðstöðinni The Impact Hub Kitchen og skömmu síðar slóst David Haller í hópinn. Fyrsta skrefið var pop up kaffihús inni í klæðskeraverkstæði í Vín í september árið 2012 og viðtökurnar fóru fram úr þeirra björtustu vonum. Það varð til þess að annað pop up var skipulagt um jólin en eftir það gerðu þau sér ljóst að eftirspurnin og áhuginn væri nægur til að tímabært væri að finna varanlegt húsnæði og opna viðskiptavinum leið að veitingunum dag hvern.

Fjölbreyttar og girnilegar veitingar er að fá á Vollpension.
Bakað af ástríðu og hugsjón
Frá upphafi hafa starfsmenn Vollpension verið bæði ungt og gamalt fólk og það eru eingöngu eldri borgarar sem baka kökurnar. Í dag er yngsti starfsmaðurinn tvítugur og sá elsti áttatíu og fjögurra ára. Hugmynd þeirra Mike og Moriz var að gefa eldra fólki tækifæri til að baka góðar kökur en fljótlega kom í ljós að eftirspurn eftir störfum var mikil úr þeirra hópi og að vinna hjá Vollpension skipti sköpum hvað varðaði félagslega stöðu margra. Eftirlaunin dugðu nefnilega sumum alls ekki til að ná að láta enda mætast í Austurríki, rétt eins og hér. Sumir gripu því feginshendi þann möguleika að geta unnið sér inn aukatekjur. Aðrir voru félagslega einangraðir og sáu í vinnunni tækifæri til að tengjast öðrum og umgangast fólk.
Andrúmsloftið á kaffihúsinu er einnig einstaklega hlýlegt og sumir gestir lýsa því þannig að það sé eins og að ganga inn í húsið þeirra afa og ömmu, njóta góðra veitinga af sömu gæðum og þau buðu og geta spjallað af hjartans lyst við bæði starfsfólk og aðra gesti. David Haller hefur sagt í blaðaviðtölum að hann hafi aldrei getað ímyndað sér að eitt kaffihús myndi hafa önnur eins áhrif. „Við höfum kynnst einstökum ævisögum, skapað dásamlega viðburði og stuðlað að ótrúlegum stefnumótum og nýjum kynnum. Fyrir utan þær hundruð þúsunda terta sem hér hafa verið bakaðar af ást. Vollpension er verkefni unnið frá hjartanu og hittir aðra beint í hjartastað, ekki bara mig heldur alla sem koma að því að halda því gangandi.“

Innréttingar og húsgögn á Vollpension eru sérvalin til að minna á heimili afa og ömmu.
Lífið eins og konfektkassi
Frau Marianne er elsti starfsmaður Vollpension um þessar mundir og hún er ekkert á leið að hætta. Hún hefur búið í Vín alla ævi og vann lengst af ævinni sem ritari á lögmannsstofu. Starfið á Vollpension er að hennar mati það skemmtilegasta sem hún hefur gengt. Hún nýtur þess að ganga milli borða, spjalla við gestina, heyra sögur þeirra og stinga upp á hvers konar veitingar henta hverjum og einum. Hún og David hafa einnig bent á að hver og einn bakari baki eftir eigin uppskrift og hafi sinn háttinn á bakstri þannig að Vollpension sé sannarlega eins og konfektkassinn sem Forrest Gump líkti lífinu við. Þú vitir aldrei hvað þú fáir því þótt þú pantir sömu tertuna er aldrei alveg víst að bragðist eins.
Vollpension er við Schleifmühlgasse 16. Húsgögnin eru notuð og þægileg og veggirnir þaktir ljósmyndum og listaverkum. Á borðunum eru heklaðir dúkar, litlir vasar og postulínsfígúrur. Allt til þess fallið að vekja hugrenningatengsl við heimili ömmu og afa.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.