Tengdar greinar

Magga Pála og “fyrsta kynslóðin”

Magga Pála er með bíladellu og hér er hún við fornbíl sem hún á.

Margrét Pála Ólafsdóttir, eða Magga Pála, hefur verið áberandi í íslensku þjóðlífi allt frá því hún steig fram í sviðsljósið rúmlega tvítug. Hún varð fljótt eftirsótt í ýmiss konar störf á sviði bæði félagsmála og stjórnmála og þótti framtíðin björt hvað það varðaði. Þegar hún var 26 ára ákvað hún að koma úr felum með kynhneigð sína og það var eins og við manninn mælt að síminn hætti að hringja. Margrét er núna 63 ára og mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum tíma í réttindamálum samkynhneigðra. Hún og jafnaldrar hennar fylla nú flokk “fyrstu kynslóðarinnar” eða fólk sem nú er miðaldra og kom út úr skápnum á 8 áratugnum. Við horfum um öxl með Möggu Pálu og veltum fyrir okkur réttindabaráttunni á síðustu áratugum, samkynhneigðinni og aldrinum.

“Guði sé lof að þú ert hinsegin…”

Þegar Margrét ákvað að segja frá því að hún væri lesbía snemma á áttunda áratugnum breyttust hlutirnir hratt. Hún hafði fullan hug á að helga sig félags- og stjórnmálum og var býsna eftirsótt í ýmiss konar störf því tengdu. Þegar allir vissu leyndarmál hennar voru viðbrögð flestra í pólitíkinni á eina lund. “Guði sé lof að þú ert hinsegin því þá þarf ég ekki að óttast um sæti mitt,” sagði formaður þekkts félags hreinskilinn. “Þá kom “mótstöðuþrjóskuröskunin” sér vel,” segir Margrét og brosir. “Ég reiddist og sagði fullum fetum að fyrst þau þyrftu ekki á mér að halda þá þyrfti ég ekkert á þeim að halda. Það endaði með því að ég hvarf út úr öllum pólitískum störfum.”

Magga Pála hvarf þó ekki af hinu pólítiska sviði með öllu en hún tók mikinn þátt í að opna samfélagið og tala fyrir réttindum samkynhneigðra en hún tók við formennsku í Samtökunum 78 árið 1993. Á þeim tíma var verið að berjast fyrir fyrstu stóru réttarbótum samkynhneigðra eins og samvistarlöggjöfinni sem gekk í gildi 1996. Margrét tók mikinn þátt í að tala upphátt um sannleika samkynhneigðra og segir að það hafi oft verið verulega sársaukafullt. “Ég er fædd 1957 og er alin upp fyrir norðan og þar var auðvitað fullkomið fyrirmyndaleysi eins og annars staðar. Búnaðarblaðið og Freyfaxi voru lítið að fjalla um samkynhneigð,” segir Margét og brosir. “Þetta fyrirmyndaleysi var mjög erfitt því að ef við stöndum ekki stolt fyrir það sem við erum getum við ekki ætlast til að aðrir geri það,” segir Margrét. “

Breyta þarf uppeldisaðferðum

Úr fjórhjólaferð sem Margrét fór yfir Kjöl ásamt fjórum vinum í sumar.

Magga Pála segist líklega ekki hefði stofnað Hjallastefnuna nema af því henni hafi verið hafnað svona rækilega. “Ég vildi ekki samþykkja þöggunina og ég ætlaði ekki heldur að samþykkja hvernig stúlkur og drengir væru meðhöndluð í skólakerfinu. Ég var búin að átta mig á að gallað kerfi kæmi niður á báðum kynjum. Ekki síður drengjum en stúlkum. Ég var líka búin að átta mig á að kvennastörf og kvennastéttir væru beittar kerfisbundnu misrétti í fjársvelti og lágum launum. En hið eina sem ég gat gert til að breyta heiminum var að vinna á mínu fagsviði sem var hið eina sem gat ekki auðveldlega hafnað mér sem kjaftforri lesbíu þótt það væri vissulega reynt. Þar með varð leikskólinn minn starfsvettvangur og þar tókst mér að byggja upp eigin hugmyndafræði með jafnrétti í algjörum forgangi. ”

Margrét Pála er leikskólakennari í grunninn með framhaldsnám í stjórnun og meistaragráður í uppeldis- og kynjafræðum svo og í viðskiptastjórnun. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir frumkvöðlastarf sitt í skólamálum, meðal annars hina íslensku fálkaorðu. Hún hóf ferilinn á leikskólum Reykjavíkurborgar þar sem hún varð leikskólastjóri. Eftir mikil átök við borgina, bauðst henni að taka við nýjum leikskóla í Hafnarfirði; Hjalla sem varð umdeildasti leikskóli Evrópu eins og það var orðað í þekktum fagtímaritum. Hjallastefnan varð þekkt skólastefna og síðar stofnaði Margrét samnefnt fyrirtæki til að skapa stefnunni tækifæri til að stækka og þróast, eitthvað sem ekki tókst innan hins opinbera kerfis.

Áherslur Hjallastefnunnar miða að því að auka persónulegan þroska barna með jákvæðni og kærleika að leiðarljósi og þar sem bæði kyn fá sérstaka styrkingu til að mæta ólíkum þörfum og efla jafnrétti. Margréti Pálu var hafnað í stjórnmálaheiminum en kom til baka í líki foss sem varð ekki stöðvaður.

Mamma síðust til að fá fréttirnar

Hjónin Margrét Pála og Lilja Sigurðardóttir á leið í áttræðisafmæli móður Lilju.

“Lífið er svo flinkt að gefa okkur snoppunga við að kenna okkur,” segir Margrét. “Eftirminnilegasti snoppungurinn var þegar ég var komin úr felum gagnvart öllum nema mömmu sem hafði glímt við geðveiki og var oft mikið veik. Smátt og smátt var öllum orðið ljóst hvers kyns var með mig en sögðu að ég mætti alls ekki segja mömmu þetta” Ég var búin að vera í sambúð með fyrri konunni minni í fimm ár og ég hélt alltaf að mamma tryði fullkomlega að við værum bara vinkonur. En svo kom að því að ég hugsaði að ég gæti ekki lengur verið í felum með sjálfa mig gagnvart manneskjunni sem skipti mig mestu máli í lífinu. Ég var auðvitað lengi að herða upp hugann og notaði svo óþreyjukast sem við, sem erum með ADHD, finnum fyrir því þá verðum við að framkvæma. Og ég hringdi í mömmu og  flýtti mér að segja “mamma, ég er lesbía” og undirbjó mig undir að útskýra merkingu orðsins. Hún svara þá: “Já elskan, einmitt. Er þetta algengt?” og ég tafsaði eitthvað um að það væri umdeilt og mögulega nokkur prósent mannkyns o.s.frv. Þá spyr hún: “Og líður þér vel elskan?” Og ég tafsa áfram að þetta skipti mig miklu máli og…… “Já auðvitað, þá er þetta ljómandi” sagði hún næst og bætti svo við: “Og hvernig er svo veðrið hjá ykkur þarna fyrir sunnan?”. Og ég sem hélt að þessi gamla sveitakona skildi ekki orðið lesbía. Auðvitað skildi hún það. Og auðvitað vissi hún allt um tilfinningar, hún sem hafði örugglega farið í gegnum meiri tilfinningasársauka en flestir aðrir. Og ég hélt að ég mætti ekki leggja þetta á hana.

Eftir þetta horfi ég á eldra fólk með mikilli aðdáum af því ég veit að það er búið að fara í gegnu allt sem ég er búin að ganga í gegnum og miklu meira.” Og nú fyllir Margrét flokk fullorðinna samkynhneigðra og hefur reynt á eigin skinni hvað það þýðir.

Stór hópur kynslóðarinnar dó úr HIV 

Margrét segist trúa því að alnæmið hafi komið á sínum tíma til að hrista heiminn og nú sé corona veiran að gera það sama. “Stór hópur manna, sem nú væri orðinn miðaldra dó úr HIV. Ég segi alltaf að strákarnir okkar hafi ekki dáið til einskis en hversu margir þeir voru og hversu mikil þjáningin var er ómælt. Nú væru þessir strákar orðnir miðaldra menn en við misstum þá allt of marga,” Náttúran sagði: “Sjáið  þennan stóra hóp í samfélaginu sem er sviptur virðingu, fyrirmyndum og almennum mannréttindum. Sjáið hverju samfélögin eru að glata ef þið haldið áfram á þessari braut.” Ef það var eitthvað sem ýtti við réttindabaráttu okkar var það alnæmið. Það var táknrænt að sjá fjölskyldur nýta síðasta tækifærið sem þær höfðu til að lemja á bannsettum hommaskapnum. Lífsförunauturinn var ekki með erfðaréttindi og hans var ekki getið í dánartilkynningu og hann sat jafnvel á aftasta bekk í athöfninni. Kirkjan var svo sem alveg tilbúin að greftra hommana en þegar kom að því að veita þeim réttindi og sýna þeim virðingu og kærleika í verki þá brást hún. Þegar þarna var komið trúi ég að náttúran hafi gripið í taumana og hrist heiminn til. Náttúran leitar alltaf jafnvægis í hverju sem er og kann svörin. Mannskepnan hefur verið erfið og ég er sannfærð um að alveg eins og alheiminum ofbauð meðferð samfélaga á gay fólki þá var náttútunni farið að ofbjóða hegðun fólks varðandi auðlindir jarðar og sendir  okkur corona veiruna til áminningar um afl sitt. Hún hristir okkur til og spyr hvort við viljum fá annan séns áður en við útrýmum okkur sjálf eða hvort hún eigi kannski að gera það fyrir okkur. “

Eldri samkynhneigðum hætt við einangrun

Margrét segir að munur sé á kynjunum þegar kemur að samkynhneigð og aldri. “Eldri hommar hafa fæstir eignast börn og hafa því ekki netið í fjölskyldu sem grípur þegar aldurinn færist yfir. Það er sem betur fer að breytast og nú er tæknifrjóvgun í boði og sömuleiðis viðurkenning og stuðningur við fjölbreytilegar fjölskyldur. Hér áður fyrr byrjuðu konur lífið oft í gagnkynhneigðum samböndum eins og ég gerði og voru því búnar að eignast börn þegar sanneikurinn rann upp fyrir þeim. Karlar gerðu það síður og stofnuðu ekki fjölskyldur og eru því gjarnan einir þegar þegar þeir eldast. Nú eru tímarnir sem betur fer breyttir og búið er að viðurkenna rétt allra í þeim málum og samkynhneigð pör geta eignast börn sé vilji fyrir því svo framtíðin verður öðruvísi hjá þeim sem eru að kom út í dag.”  Því má sannarlega þakka baráttu þeirra sem á undan gengu og hefur augljóslega oft verið sársaukafull. Margrét minnist þess til dæmis að hafa verið hent út úr íbúð um 1987 þegar leigusali komst að því að leigjedurnir voru lesbíur en ekki bara vinkonur. “Þessi skortur á réttindum mélaði samböndin smám saman og ekki nema von. Fá sambönd þoldu álagið sem fylgdi niðurlægingunni. Óttinn var allsráðandi.”

Magga Pála í fjórhjólaferðinni í sumar.

“Fyrsta kynslóðin” og þörfin fyrir samtök eldri samkynhneigðra

Margrét Pála Ólafsdóttir segir að svarið við spurningunni hvort erfitt sé að eldast samkynhneigður á Íslandi sé því miður ennþá já. “Við búum í samfélagi umburðarlyndis en ekki í samfélagi hinnar fullkomnu virðingar fyrir fjölbreytileika,” segir hún. “Umburðarlyndi fyrir samkynhneigðum er umtalsvert hér á landi en sá ís er þunnur. Fyrir fimmtíu árum hefðirðu ekki fundið hóp af aldurhnignum hommum og lesbíum í samfélagi okkar en það er sem betur fer að breytast,” segir Margrét en hún kom út úr skápnum 26 ára gömul og er nú orðin 63 ára. Jafnaldrar hennar eru því smám saman að fylla þennan hóp. Magga Pála, eins og hún er jafnan kölluð, kemur fram af heiðarleika í lífinu, þ.e. eins og hún er en ekki eins og hún “á að vera”. “Umburðarlyndi gagnvart smkynhneigð er umtalsvert á Íslandi en sá ís er ennþá þunnur og ekki tímabært að slaka á í baráttunni,” segir Margrét.

“Nú erum við, sem erum komin á miðjan aldur og yfir, fyrsti opni hópurinn sem erum að eldast og auðvitað söknum við þeirra sem við misstum. En stór hópur er eftir og ég giska á að formlegur hópur verði stofnaður fljótlega  fyrir þennan eldri hóp. Innan Samtakanna 78 starfar alltaf kvennahópur eða KMM (konur með konum) en ég væri til í að taka þátt í að stofna samtök fyrir eldri lesbíur og homma og skilja og gangast við að það er svo margt í okkar stöðu sem er öðruvísi. Ég ætla aldrei að hætta að vera ég. Nú hef ég dýpri skilning og meiri kjark og hef engu að tapa héðan af. Hvort sem það er að taka grunnkúrsa í smíðum í Iðnskólanum eða fara á fjórhjóli um allt land. Ég þori að fullyrða að það séu ekki margar 63 ára ömmur sem gera það,” segir Magga Pála og skellihlær en hún á dóttur og fimm barnabörn.

Magga Pála kemur til dyranna eins og hún er klædd og „pósar“ ekki á myndum.

Stoltið við að eldast

Margrét segir að það geti verið flóknara fyrir þá sem hafa ekki farið hefðbundnar leiðir í lífinu að taka á móti aldrinum og standa með sjálfu sér. Hún segir fullum fetum að hún hafi verið miklu eldri þegar hún var 25 ára en hún er í dag orðin 63 ára. “Þá var ég búin að klára háskólagráðu, búin að eignast barn, gifta mig, átti íbúð og gat ekki séð að það gæti verið eitthvað spennandi fram undan. “Hvað var eiginlega að frétta í þessu lífi. Gamalt fólk var í mínum huga sannarlega ekki á eftirsóknarverðum stað. Í dag er ég komin á þann stað, er að upplifa geysilega skemmtilega tíma og sannarlega ekki að gefast upp fyrir aldrinum.

Hún segist reglulega finna fyrir þörf til að bæta og breyta í lífi sínu og gerir það óhikað. Nýlega fann hún fyrir þessari þörf og vissi að nú væri kominn tími til að draga sig út úr daglegri stjórnun og rekstri fyrirtækisins sem hún stofnaði, eða Hjallastefnunnar, þótt hún sé áfram aðaleigandi. Hún velti fyrir sér hvað hún ætti þá að taka sér fyrir hendur í staðinn. Fyrst hugsaði hún að ef til vill ætti hún að klára doktorsgráðu sem hún byrjaði á fyrir allnokkru en eftir nokkra umhugsun sagði hún: “Nei, mig langar það ekki,” og þegar hún sá auglýsta kúrsa í húsasmíði og húsgagnasmíði í Iðnskólanum vissi hún hvað hún vildi taka sér fyrir hendur á þessum tímapunkti í lífinu. Þegar hún hafði lokið þessum kúrsum skellti hún sér síðan í fjórhjólaferð yfir Kjöl ásamt þremur öðrum. Hún segir að ADHD greiningin sem hún sé með valdi vissri hvatvísi sem hafi oft komið sér vel í lífinu. “Mótþróaröskunin ásamt ADHD hafa verið mjög gagnleg frávik í mínu tilfelli. Lífið hefur ekki alltaf verið auðvelt en ef sú barátta gagnast ungu fólki sem er að koma út úr skápnum í dag er til mikils unnið.”

Ég gæti átt tvo, þrjá góða áratugi eftir þótt ég sé orðin 63 ára. Óttinn við að eldast minnkar ef við erum bærilega heiðarleg við sjálf okkur. Þá skynjum við betur hvað það er í eigin fari sem okkur líkar við og hvað ekki. Við verðum að vera heiðarleg, annars er voðinn vís því við yngjumst ekki, svo mikið er víst.”

Ljósmyndir: Gabrielle Motola og Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir.

 

 Sóveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn ágúst 7, 2020 10:32