Nokkur skotheld læknaráð

Samband þitt við lækninn þinn snýst að mestu um heilsu þína en samband ykkar byggir líka á gagnkvæmum skilningi og trausti. Rannsóknir sýna að  fólk sem þjáðist af sjúkdómum eins og of háum blóðþrýstingi, sykursýki, gigt og asma líður betur ef það á í góðum samskiptum við lækninn sinn. Hér eru nokkur ráð til að bæta samskipti sjúklings og læknis. Greinin birtist á vefnum aarp.com og er stytt endursögð hér.

Heyrðu, líttu á mig! Því miður eyða margir læknar meiri tíma í að rýna í tölvuskjáinn heldur en að tala beint við sjúklinginn augliti til auglits. „Það skapar sambandsleysi á milli sjúklings og læknisins,“  segir Robert Eckel, prófessor við læknadeild Colorado háskóla. Læknir sem horfir á skjáinn á meðan hann talar við fólk er ekki að koma neinum boðskap til skila, segir hann. „Læknir á að horfa beint á sjúklinginn þegar hann talar við hann.“ Láttu lækninn vita ef þér finnst óþægilegt að hann sé í tölvunni.

Vertu kurteis.„Læknar eru bara manneskjur eins og við hin og stundum þurfa þeir svolitla athygli líka,“ segir Harlan Krumholz prófessor við læknadeild Yaleháskóla. „Vingjarnleg orð geta gert mikið til að styrkja persónuleg tengsl ykkar í milli og því  meiri samskipti sem þið eigið á persónulegum nótum því ánægðari verðið þið,“ bætir hann við.

Vertu hjólið sem ískrar. Ef læknirinn getur eða vill ekki svara spurningum um veikindi þín skaltu ekki láta þar við sitja. Láttu í þér heyra. Spurðu hvort læknirinn vilji skoða málið betur eða vísa þér til sérfræðings. Þetta er ekki ósanngjörn krafa. Það er betra að spyrja beint en fara heim með spurningar sem ekki hafa fengist svör við.

Hafðu aðalatriðin í forgangi. „Þegar læknirinn þinn mælir með einhverri tiltekinni meðferð eða aðgerð upplýsir hann þig um helstu þætti meðferðinnar. Þú þarft samt að vita meira. Biddu því lækninn um að hringja í þig á einhverjum tilteknum tíma eða að senda þér upplýsingar í tölvupósti þannig að þú fáir tíma til að hugsa málið og átta þig á framhaldinu,“ segir Richard A. Stein prófessor við Læknaháskóla New York. Það sem getur skipt þig máli er t.d. hversu langt ferlið er, hversu lengi þú verður að gróa, hvenær þú megir fara að vinna aftur, eða hvenær þú megir stunda íþróttir. Hvort þú fáir fullan bata. Þú þarft líka að vita hvort einhverjar aðrar leiðir eða meðferðir standi til boða.

Hvernig næ ég í þig? Það getur stundum verið erfitt að ná í lækninn á milli heimsókna á læknastofuna. Reyndu að komast að því hvaða leið er árangursríkust til þess ef nauðsynlegt er að ná í hann eða hana. Hvað finnst lækninum best? Skilaboð á heilsugæsluna? Tölvupóstur eða símsvari? Ef þú notar þá leið sem læknirinn vill helst er líklegra að vel gangi að koma skilaboðum á milli.

Byrjaðu að tala um aðalatriðið. Næst þegar þú ferð til læknis skaltu byrja á að tala um það sem hrjáir þig mest en ekki telja upp alla þá kvilla sem þú ert haldinn. Þannig nærðu að einbeita þér að því sem mest liggur á að fá lækningu við, segir prófessor Lisa Schwartz. „Ef tíminn er að renna út og þú nærð ekki að segja lækninum frá öllu sem þú villt tala um er ágætt að spyrja hann eða hana hvort þú eigir að halda áfram núna eða koma aftur. Þannig veit læknirinn að þú þarft að fá fleiri svör og þið getið þá ákveðið um framhaldið í sameiningu,“ segir Schwartz.

Að kynna forsöguna.  Ef sjúkrasaga þín löng og flókin er gott að punkta niður það helsta sem gerst hefur síðast liðið heilt eða hálft ár og afhenda nýjum lækni. Þetta geta t.d. verið niðurstöður rannsókna eða nýlegt mat á einhverri meðferð sem þú hefur fengið nýlega. Þannig getur læknirinn verið fljótari að setja sig inn í líkamlegt ástand þitt. Þó sjúkraskýrslur hafi verið fluttar á milli heilsugæslustöðva eða sjúkrahúsa er óvíst að lækninum hafi gefist ráðrúm til að lesa þær allar. Því er gott að útvega henni eða honum stuttu útgáfuna. Það gæti komið í veg fyrir óþarfa rannsóknir, myndatökur eða önnur óþægindi.

Ritstjórn júní 2, 2016 12:03