Klofnar og brotnar neglur -hvað er til ráða?

Neglurnar á mér klofna bæði og brotna. Hvað get ég gert við þær, spyr eldri kona á vef danska ríkisútvarpsins. Þetta er vandamál sem margir kannast við og það er læknirinn Britta Weyer sem er til svara. Hún segir að neglurnar bæði á tám og fingrum verði stökkari með aldrinum. Skortur á vítamínum eða steinefnum geti verið orsök þess að neglur klofni, einnig hafi ýmsir sjúkdómar áhrif á vöxt og viðgang naglanna. Neglur eru gerðar úr hyrnisfrumum húðþekjunnar, en hyrni er kreatín eða prótín. Neglur eru því  eins og mannshár gerðar úr dauðum frumum.  Britta segir að erfðir skipti máli, sumir séu með sterkari neglur en aðrir frá náttúrunnar hendi á meðan aðrir hafi fengið stökkari neglur í arf frá forfeðrum sínum.

Nægt vatn

Vatnsinnihald í venjulegum nöglum er 16 prósent –ef vatnsinnihaldið er minna verða neglurnar brothættari. Það er því  nauðsynlegt að fá nægan vökva segir Britta. Tíðir handþvottar, naglalakkshreinsar og fleiri efni geta einnig valdið því að neglurnar þorni. Britta segir að mörgum reynist vel að dýfa nöglunum í nokkrar mínútur  í góða olíu til dæmis ólífu eða möndluolíu til að mýkja þær. Hún mælir líka með því að klippa þær stutt og sverfa þær til með þjöl.  Meðal vítamína sem eru mikilvæg fyrir heilbrigða húð og neglur eru A-B og C vítamín.  Einnig steinefni og snefilefni,  kalk og járn, hjálpa til að styrkja neglurnar, segir Britta. Hún segir að flestir fái næg vítamín og steinefni neyti þeir fjölbreyttrar fæðu.

Sjúkdómar hafa áhrif

Ef  fæðan er hins vegar einhæf eða fólk með meltingarsjúkdóma getur fólk þurft að taka vítamín og steinefni. Hún segir að margir sjúkdómar geti haft áhrif á neglurnar, svo sem efnaskiptasjúkdómar,  hjarta- og lungnasjúkdóma, lifrarsjúkdómar og raunar ýmsir fleiri sjúkdómar. Þá geti ýmis lyf valdið breytingum á nöglum svo sem krabbameinslyf. Britta segir neglurnar á vaxi hægar með hækkandi aldri, verði stökkari og mattari. Hins vegar sé hægt að halda nöglunum heilbrigðum með góðri ummönnun og góðu mataræði.

Ritstjórn apríl 6, 2016 13:31